24.8.2011 | 09:38
Ánægjuleg tíðindi
Tökulið frá HBO kemur til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.8.2011 | 00:10
Mergjaður árangur hjá Annie Mist
Þó að ég megi heita anti-sportisti, og hef t.a.m krónískt óþol gagnvart síbylju um boltaleiki, þá hef ég lítillega kynnt mér crossfit og þykir nokkuð til þeirrar íþróttar koma. Hún virðist að mestu laus við hópsálarstemminguna sem fylgir t.d boltaíþróttum og er skemmtilega árangursmiðuð rétt eins og frjálsar íþróttir. Miðað við það sem ég hef séð frá þessu sporti þá er það alveg ótrúlegur árangur hjá Annie að mæta þeim bestu (á heimavelli) og fara með sigur af hólmi. Upphæð verðlaunanna bendir til að mótið hafi verið alvöru og undirstrikar árangurinn.
Annie Mist sigraði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.5.2011 | 18:08
Verðbólgan nú er bein afleiðing af útlánaþenslu banka fyrir hrun
Verðbólguhringurinn:
Fyrst aukast útlán í bankakerfinu mjög verulega einstaklingar og fyrirtæki með greiðan aðgang að lánsfé auka neysluna og fjárfestingar af ýmsu tagi. Það sem er í ótakmörkuðu framboði - eins og Cheerios eða innflutt hveiti hækkar lítið í verði. Það sem er í takmörkuðu framboði ss: fasteignir, jarðir, gæðingar og fyrirtæki hækka aftur á mikið á meðan á þessu stendur þegar fólk vopnað auðfengnu lánsfé greiðir sífellt hærra verð í samkeppni við alla hina; sem einnig eru vopnaðir lánsfé í stórum stíl. Laun hækka að sama skapi líka í samræmi við aukin umsvif í samfélaginu. Allir græða, enginn tapar og allir eru mjög hamingjusamir með góðærið. (Þetta voru árin 2003-7 á Íslandi)
Svo kemur vendipunkturinn þegar skuldsetning í kerfinu er orðin það mikil að útlánaþenslunni lýkur. Hvernig og hvenær það gerist er ræðst af mörgum þáttum. Inn í það spila væntingar að sjálfsögðu og/eða náttúruhamfarir, aðstæður á erlendum mörkuðum, uppskerubrestur, styrjaldir, eða hver veit hvað það er sem loks veldur því að ljósin eru kveikt á ballinu og barnum lokað. (hér var það alþjóðleg fjármálakreppa sem velti ónýtum bönkum á hliðina)
Næst er það seinni helmingurinn. Þá dragast útlán bankakerfisins saman og peningamagn í umferð minnkar. Alveg þráðbein afleiðing af því er aukið atvinnuleysi og enginn eða neikvæður hagvöxtur. Skatt-tekjur hins opinbera dragast saman, laun eru frosin, öll velta í samfélaginu dvínar. Einstaklingar og fyrirtæki fara í þrot og útlánatöp í bankakerfinu vaxa. Enginn græðir, allir tapa og drungi færist yfir samfélagið.
Loks fara yfirskuldsett fyrirtæki og einstaklingar að hækka verðskrárnar/krefjast hærri launa til þess að reyna að ná endum saman. Sem keyrir upp hið almenna verðlag enn frekar -- og verðbólgan sem var búin til löngu áður -þegar kúrekarnir í bönkunum lánuðu öllum sem hafa vildu og mest sjálfum sér - kemur í mælana hjá Hagstofunni. (Þetta er Ísland í dag) Samvæmt kapítalískum hugmyndum á í þessu ferli að eiga sér stað hreinsun þar sem allir sem eiga það skilið fara á hausinn, bæði einstaklingar, fyrirtæki og fjármálastofnanir þar til ákveðnum botni er náð en þá er verðbólguhringum lokað og veislan getur hafist á ný.
<O>
Þó svo að Ísland sé sérstakt, með sína litlu krónu, vitfirringslegar erlendar lántökur og risavaxið bankakerfi sem hrundi - sem spilar inn í söguna- þá er hún samt alþjóðleg og þetta hefur gerst ótal sinnum áður um víða veröld. Grunn lögmálið er ávallt hið sama - lögmálið um framboð og eftirspurn. Aukið framboð af peningum (útlánum) leiðir til að þeir falla í verði fyrr eða síðar =verðbólga. Ferlið allt tekur nokkur ár.
Þegar greiningardeildir fárast yfir verðbólgu sakir þess að kaffið sé að hækka í Bónus eða að Nonni verkamaður sé að fá 5% launahækkun -en gefa því engan gaum hvernig útlánum bankakerfisins er háttað - er tímabært að fara með æðruleysisbænina og sætta sig við að sumu fær maður aldrei breytt.
Vaxandi verðbólga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.5.2011 | 21:45
Sjíle!?
Fyrstur manna skal ég viðurkenna að ég hef ekki hundsvit á því hvort að gott sé að íslenska erlend nöfn, eins og t.d Chile. Síle eða Chile - það er spurning hvort er betra. Ef fólk vill forðast C-ið þá er Síle fínt. En þessi ritháttur Sjíle þykir mér ekki falla mjög vel að íslensku. Og til hvers er þá barist?
Sjá umræðu um þetta hérna
Nýtt skip Ísfélagsins sjósett í Síle | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.3.2011 | 15:18
Magnaðar fullyrðingar útheimta magnaðar sannanir
Fyrst nauðsynlegur fyrirvari: Ekki er unnt að meta út frá fréttinni hverskonar búnað ræðir um hér og því ekki hægt að fullyrða um hvaða græjur þarna eru á ferðinni - né heldur hverju þær skila. Vonandi er þetta eitthvað stórmerkilegt og virknin eftir því.
En af myndum að dæma er þarna á ferðinni rétt eitt vetnis-kerfið sem virkar í grófum dráttum á þessa leið: Litlum búnaði til að rafgreina vatn yfir í vetni og súrefni er komið fyrir í bílnum. Afurðin (HHO gas) er síðan brennd í vélinni jafnharðan. Fjöldi manns út um allan heim hefur reynt þetta á síðustu árum og margir þeirra halda því fram að mengun minnki og af þessu hljótist umtalsverður eldsneytissparnaður. Þann árangur hefur prófunaraðilum með bestu tækni ekki tekist að sannreyna. Þvert á móti hafa slíkir staðfest aftur og aftur að þetta hefur hverfandi (engin) mælanleg áhrif á eyðslu eða mengun.
Fyrst ber að hafa í huga að eldsneytið sem verður til við rafgreiningu á vatni -vetnið- inniheldur í besta falli jafn mikla orku (í brennslu) og fór í að búa það til. Sú orka kemur n.b. frá rafal bílsins eða öllu heldur frá því jarðefnaeldsneyti sem hann notar til að knýja rafalinn. Í þessu ferli eru síðan töp sem tryggja að verr er af stað farið en heima setið hvað þetta snertir - betra er að nýta bruna jarðefnaeldsneytisins beint til að knýja bílinn í stað þess að byrja á því að framleiða vetni með rafgreiningu og brenna því síðan til að knýja bílinn.
Annað atriði í þessu er þó til staðar - til eru rannsóknir sem sýna að nýtni brunahreyfla batnar fái þeir vetni í nokkrum mæli til viðbótar hefðbundnu jarðefnaeldsneyti á borð við bensín eða dieselolíu. Því mætti hugsa sér að jafnvel þó svo að orkutap sé í vetnisframleiðslunni í bílnum þá gæti bætt nýtni vélarinnar vegið það upp og jafnvel gott betur - og niðurstaðan yrði hagstæð varðandi mengun og eldsneytiseyðslu. Því miður þá virkar þetta ekki heldur því að magnið af vetni sem þarf til að ná fram þessum áhrifum er stærðargráðum meira en praktískt er að framleiða í einni eða fleiri niðursuðudósum undir húddinu á venjulegum bíl. Hér er bútur úr grein sem er að finna á vefsíðu popular mechanics.
One point of interest: A conventional car engine ingests on the high side of 500 liters of air per minute at idle, and a great deal more at highway speed. These generators generally produce a liter or less of HHO per minute. Or roughly 50 liters per hour, of which only two-thirds is hydrogen. At atmospheric pressure, hydrogen has a density of 0.0899 g/liter. One NASA study used 640 grams of hydrogen per hour to sweeten the mixture for its conclusions. I'll leave the homework to you, but, basically, the amount of hydrogen added to the combustion process by onboard hydrogen generators is far smaller than one percent of that used by the studies that hydrogen-enrichment proponents are quoting as "proof" that their gadgets work. Could you make a hydrogen generator that made that much HHO? Sure, but it would be huge, use far more electricity than the onboard generator could possibly produce, and consume most of the power the engine put outand it would still not improve fuel economy.
Ég mæli með að fólk lesi alla þessa grein til enda og dragi ekki upp veskið fyrr en fyrir liggja óyggjandi niðurstöður frá óháðum rannsóknaraðilum sem hafa þekkingu og tækjabúnað til að sannreyna árangurinn. Extraordinary claims require extraordinary proof!
Minnkar bensíneyðslu um 30% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.12.2010 | 20:24
Forseti samþykkir icesave nema .....
Hér er brot úr yfirlýsingu Forseta þegar hann vísaði málinu til þjóðaratkvæða þann 5. janúar.
Í framhaldi af samþykkt Alþingis á hinum nýju lögum 30. desember 2009 hafa forseta borist áskoranir frá um fjórðungi kosningabærra manna í landinu um að vísa þessum breytingalögum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mun hærra hlutfall en tilgreint hefur verið sem viðmið í yfirlýsingum og tillögum stjórnmálaflokka. Skoðanakannanir benda til að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé sama sinnis. Þá sýna yfirlýsingar á Alþingi og áskoranir sem forseta hafa borist frá einstökum þingmönnum að vilji meirihluta alþingismanna er að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.
Að undanförnu hefur orðið æ ljósara að þjóðin þarf að vera sannfærðum að hún sjálf ráði þeirri för. Þátttaka hennar allrar í endanlegri ákvörðun er því forsenda farsællar lausnar, sátta og endurreisnar. Í ljósi alls þessa sem að framan greinir hef ég ákveðið á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar að vísa hinum nýju lögum til þjóðarinnar. Samkvæmt stjórnarskránni munu lögin engu að síður taka gildi og þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram svo fljótt sem kostur er.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2010 | 19:50
Díll!
Stjórnvöld landanna þriggja eru sammála um að velta kostnaðinum yfir á þrotabú Landsbankans eftir fremsta megni. Bretar og Hollendingar eru búnir að slá vaxtakröfur niður.Samþykkt icesave tryggir líklega stuðning Breta, Hollendinga og jafnvel ESB blokkarinnar í heild við neyðarlögin og uppgjörsaðferðir á Landsbankanum. Þar er mikið í húfi, augljóslega varðandi uppgjör megin upphæðar icesave en því til viðbótar eru gríðarlegar fjárhæðir háðar því að neyðarlögin haldi.
Flestir ættu að geta haldið andlitinu sæmilega með þessa niðurstöðu. Stjórnin, stjórnarandstaðan, forsetinn, Bretar og Hollendingar.
Fara þarf yfir smáa letrið - hvort að þar leynist háskaleg ákvæði ef allt fer á versta veg. Reynist það í lagi eigum við að samþykkja þetta og halda áfram með lífið og tilveruna.
Kostnaður 50 milljarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.12.2010 | 10:23
Engin óskráð gæludýr?
Ef ég man rétt þá er það réttarfarsleg regla í BNA -og e.t.v. víðar- að húsleit beinist einungis að því sem snýr að efni ákærunnar. Þetta þykir góð regla og miðar að verndun friðhelgi heimilis og persónu. Hér á landi er þessi regla ekki til staðar og nú gerist það að ákæra frá Smáís leiðir til þess að fíkniefni finnast og vafalaust verða hlutaðeigandi ákærðir fyrir vörslu þeirra. Óvíst er hvort að meintur lögbrjótur höfundaréttar sé sá sami og á fíkniefnin. Það gæti þess vegna verið meðleigjandi eða gestur á heimili, þannig verður til nýtt sakamál alls óháð því sem lagt var upp með.
Þetta vekur upp spurningar um það hversu langt lögregla gengur í húsleit yfirleitt. Ef engin afmörkun er á því að hverju þeir eru að leita þá opnast sá möguleiki að þeir umsnúi heimilum fólks í leit að mögulegum sakarefnum og ákæri síðan að geðþótta. Ætli þessar húsleitir hafi einskorðast við leit að tölvugögnum og fíkniefnum? Hvað með skotvopn, bókhaldssvindl, óskráð gæludýr.. os frv?
Í þessu samhengi rifjast upp Baugsmálið. Upphaflega heimilaði dómari húsleit í höfuðstöðvum fyrirtækisins á grundvelli framburðar Jóns Geralds og framlagningar hans á reikningum. Söguna þekkja flestir, ákæruvaldið komst þannig yfir öll gögn fyrirtækisins og næstu ár rigndi ákærum yfir forsvarsmenn fyrirtækisins fyrir allt aðra og óskylda hluti af ýmsu tagi, þar kom líka til að ákæruvaldið getur ákært aftur og aftur fyrir sömu brot. Án þess að fullyrða um það þá sýnist mér að það sama gæti gerst hjá hvaða fyrirtæki sem er og á hvaða heimili sem er. Þannig er friðhelgi heimilis og persónu ofurseld duttlungum ákæruvaldsins ef það kemur fæti inn fyrir dyr í krafti húsleitarheimildar.
Níu húsleitir vegna ólöglegs niðurhals | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2010 | 20:57
Besti dagurinn frá hruni
Búið er að velja 25 fulltrúa á stjórnlagaþing í beinu persónukjöri. Bæði stjórnlagaþingið og persónukjörið eru merkilegir áfangar í lýðræðisátt.
Þessi hópur sem varð fyrir valinu á það að mestu sameiginlegt að vilja breyta stjórnarháttum og efla lýðræði - umtalsvert. Það er sannarlega ekkert áhlaupaverk að taka að sér verkefni skilanefndar yfir þrotabúi íslenskra stjórnmála og stjórnskipunnar, en einhversstaðar verður að byrja.
Gangi þeim vel!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2010 | 10:17
Óheppnir Írar og áframhaldandi fjármálakrísa - tekur stjórnlagaþing á fjármálavaldinu?
Þegar leið að vori 2008 fóru íslensk stjórnvöld á stúfana að leita að erlendu lánsfé til að styrkja gjaldeyrisvaraforða seðlabankans. Skemmst er frá því að segja að það tókst ekki utan gjaldmiðlaskiptasamninga við norrænu seðlabankana. Glitnir var raunar yfirtekinn en þegar Landsbankinn kom í höfuð landsmanna þá voru engir valkostir lengur í stöðunni:
Seðlabanki Íslands getur jú framleitt krónur eftir smekk, líklegast í ómældu magni, en íslensku bankana vantaði ekki krónur, Þá vantaði erlendan gjaldeyri til að borga af lánum og standa straum af útflæði á erlendum netreikningum og fl. í þeim dúr. Það kom í ljós eitt sinn er haldinn var landsleikur í einhverri vinsælli boltaíþrótt -á vinnutíma á virkum degi- að gjaldeyrismarkaður með krónur fór í frí á meðan og viðskipti lögðust af meðan leikurinn stóð. Íslenska krónan hefur aldrei verið annað en innlendur gjaldmiðill og umræddur markaður með hana var á vegum íslenska bankakerfisins og seðlabanka Íslands.
Með íslensku bankana án varaforða og án lánstrausts erlendis og seðlabankann í sömu stöðu þá var engan erlendan gjaldeyri að fá fyrir nýprentaðar krónur. Ekki pund, evru eða dollar. Þegar Landsbankinn kemst mjög snögglega í kröggur eftir viðbrögð Breta þá var ballið búið. Engir valkostir lengur í stöðunni. Framvinduna þekkja allir.
Írar voru ekki jafn heppnir. Þeirra bankakerfi var raunar ekki jafn stórt hlutfallslega og það Íslenska en útlánastarfsemi þess var líklegast lærð í sama skóla. Írar nota líka evru sem gerir að verkum að innlendir sjóðir samanstanda ekki af litlum innanlands gjaldmiðli heldur alþjóðlegum, sem alþjóðlegir bankar taka sem greiðslu. Stóra atriðið er síðan að þeir höfðu aðgang að bakhjarli sem er Evrópski Seðlabankinn. Írska stjórnin gat því flumbrast til að veita þeim ríkisábyrgð og í samvinnu við Evrópska seðlabankann framlengt dauðastríði þeirra umtalsvert. En um leið flutt óráðsíuna yfir á írska skattgreiðendur. Þetta plan dugði þar til nýverið að þeir féllust á með semingi að fá stuðning frá ESB og AGS.
Frá sjónarhóli ESB, Þýskalands og Bretlands var Írland orðið að púðurtunnu sem gat sprungið hvenær sem var. ESB rær nú lífróður við að halda evrunni saman og lykillinn er að viðhalda stöðugleika í farlama bankakerfi Evrópu sem í raun þyrfti að setja yfir skilanefnd að verulegu leyti. Fyrir þjóðverja eru hagsmunirnir augljóslega þeir sömu og ESB hvað snertir evruna. En við það bætist að þýskir bankar hafa lánað u.þ.b 150 milljarða evra inn í írska bankakerfið. Sama saga er með Bretland sem býður nú lán til Íra upp á um 7 milljarða evra. Það er lítið brot af útlánum breskra banka til Írlands sem er um 140 milljarðar evra. Þar fyrir utan er Írland mikilvægur útflutningsmarkaður Breta. Í því ljósi eru viðbrögð þeirra afar skiljanleg og örlæti þeirra í garð Íra þarf hvergi að koma nærri þeirri ákvörðun.
Evrópski seðlabankinn var farinn að ókyrrast enda ótrúverðugt fyrir hann að lána hátt í landsframleiðslu Írlands inn í þarlenda banka. Bankahrun á Írlandi - t.d. ef stjórnvöld þar hefðu fengið skyndilega þá flugu í höfuðið að venda um kúrsinum og keyra bankana í þrot- hefði síðan leitt til gríðarlegs taps fyrir aðra banka, t.d. í Bretlandi og Þýskalandi og þá þyrftu stjórnvöld beggja ríkja heldur betur að opna budduna til að bjarga þeim. Að ekki sé nú talað um áframhaldandi smit banka- og evrukrísunnar yfir til Portúgal, Spánar og fl. ríkja. Í bili eru Írar því skattgreiðendur til þrautavara fyrir Þýska og Breska banka!
Staðreynd málsins er að evrusvæðið er púðurtunna og þær lausnir sem boðið var upp á til að leysa bankakreppuna -sem hófst 2007- virka ekki. Í bili eru það Írskir skattgreiðendur sem fá að axla skuldaklafann. Lykil spurningin er hvort og hversu mikið Írska bankakerfið verður minnkað og hversu mikið lánadrottnar þess fá af kröfum sínum. AGS mun örugglega stilla upp greiðsluplani sem verður algerlega á ystu nöf hvað snertir mögulega greiðslugetu. Fordæmið liggur fyrir í Lettlandi, Grikklandi og víðar. Sakbitin stjórnvöld verða að skera þjóðfélögin niður við trog til að rétta af hallarekstur ríkissjóða með tilheyrandi skerðingu á allri þjónustu, atvinnuleysi, landflótta á meðan einhvert er hægt að flýja o.s. frv. Næstu skref verður síðan sala ríkiseigna og auðlinda.
Vestanhafs er ástandið síst skárra, lausnin þar er að skíra peningaprentun því hávirðulega nafni "quantitative easing" og dæla sífellt inn í hið villta vestur Wall Street bankakerfisins. Fyrirslátturinn er að með þessu muni bandarískir bankar fara að lána út peninga inn í bandarískt atvinnulíf og til neytenda, sem á að örva hagvöxt og skapa störf. Þetta gerist að sjálfsögðu ekki af því að bandarískir neytendur eru skuldsettir upp í rjáfur, húsnæðismarkaðurinn þar er enn að hrynja og um þriðjungur fasteignaeigenda með neikvæða eiginfjárstöðu. Bankarnir hafa engan áhuga á því að lána út fjármuni við slíkar aðstæður og fjármagnið fer allt í spegúlasjónir á alþjóðamörkuðum í hrávöru, afleiður og ekki síst erlenda gjaldmiðla. Skattgreiðendur heima í BNA fá reikninginn og restin af heiminum fær verðbólguna í heimsókn þegar spegúlantarnir keyra upp gengi gjaldmiðla þeirra, eigna- og hrávöruverð. Svo rífur kaninn bara kjaft við þá sem reyna að stýra sínum gjaldmiðlum eins og Kínverjar gera.
Góðu fréttirnar eru að fjármálakerfi vesturlanda mun líklega hrynja að óbreyttu innan fárra ára og þá skapast tækifæri til að byggja upp eitthvað af viti í stað þess. Slæmu fréttirnar er lærdómur sem auðvelt er að lesa um í skýrslu RNA. og blasir við um gjörvöll vesturlönd. Fjármálakerfið er alræmt sníkjudýr sem hefur náð hrikalegu tangarhaldi á vestrænum samfélögum. Eins og öll alvöru sníkjudýr hefur það plantað sér í haus hýsilsins og stýrir honum nú í eigin þágu. Trixið er að fá hann til að trúa því að velferð hans sjálfs grundvallist á velferð þess. Fjármálavaldið er með stjórnmálin í eftirdragi eða beinlínis á spenanum og menntakerfið í vasanum þar sem það mótar sjálft "fræðin" og stýrir þeim í hentugar áttir. Þetta kemur algerlega í veg fyrir bráðnauðsynlegar og róttækar aðgerðir gegn fjármálakrísunni og jafnvel eftir að allt er komið í kaldakol.
Skyldi stjórnlagaþing horfa til fjármálavaldsins, eða mun það einskorða sig við hin þrjú? Hvers vegna skyldi það gera það þegar við blasir hversu mikil áhrif það hefur?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar