20.3.2020 | 17:27
Stjórnvöld vantar upplýsingar sem tæki tvo daga að afla.
Til að meta þá fordæmalausu stöðu sem er komin upp og ekki síður til að plana aðgerðir er algerlega nauðsynlegt að vita hversu margir eru smitaðir af Covid-19 á Íslandi. Eins nákvæmlega og kostur er á skömmum tíma.
Þetta væri hægt að gera með prófunum á fólki sem er valið af handahófi úr Þjóðskrá.
Ef við vissum það mætti þrengja mjög hringinn um raunverulega dánartíðni og hversu hátt hlutfall sýktra þarf heilbrigðisþjónustu. Þegar eru vísbendingar í Íslenskum tölum um að veiran sé ekki næstum því eins skæð og lengi hefur verið haldið fram. Hér eru t.d. engin 20% sýktra á spítala. Sama hvernig er metið og reiknað.
Ef við vissum það gæti vel verið að það kæmi í ljós að sú aðferð að ætla að bæla niður og hægja á smitinu sé ekki sú besta. Eftir allt þá er óljóst hversu langan tíma sú vegferð tekur enn óljósra hvað tæki við eftir það. Það er ljóst að röskun og efnahagslegur skaði af þeirri aðferð er gríðarlegur og því meiri sem tíminn lengist. Mögulega með verri heilsufarslegum afleiðingum en flensan sjálf fyrir landsmenn. Fyrir nú utan allt hitt.
Þessara upplýsinga verður að afla eins fljótt og kostur er. Hvort sem verkefnið yrði sett í hendur Íslenskrar Erfðagreiningar eða annarra. Sjónarmið um persónvernd eða vísindasiðferði hljóta að víkja fyrir nauðsyn í þetta sinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2018 | 20:09
Áróðursstríð
ÉG las fyrir nokkrum mánuðum talsvert kringum hinn alræmda tröllabúgarð í Rússlandi. "Internet Research Agency" Lauslega og eftir minni var fyrirbærið stofnað í kringum Úkraínudeiluna af fúlum minni háttar auðkýfingi í Rússlandi, sem var fjarskalega ósáttur við hvernig málsstaður Rússa var settur fram í vestrænu pressunni. Evrópska pressan fjallaði eitthvað um fyrirbærið löngu áður en það varð frægt í tengslum við forsetakosningarnar í USA.
Það var meðal annars rætt við starfsólkið og í ljós kom að þarna unnu alls 80 manns á vöktum við að hamara boðskapinn á fartölvur inn á samfélagsmiðlana. Enginn þarna virtist hafa sérstaka menntun í tölvutækni eða áróðri eða pólitískum bellibrögðum, þetta var fólk af atvinnuleysisskránni sem vann vaktavinnu fyrir 70 þús iskr á mánuði. Heilt yfir var á þessu viðvaningsbragur sem benti ekki til að um umfangsmikla aðgerð af hálfu stjórnvalda væri að ræða. Borið saman við tröllvaxnar leyniþjónustur og njósnastofnanir vestursins sem stunda viðlíka starfsemi gegn fjölda ríkja - einkum Rússlandi þessi misserin - er þetta fremur fáfengilegt, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið.
Sú hugmynd að 80 manns með takmarkað vald á ensku hafi við þessar aðstæður haft áhrif á niðurstöður forsetakosninganna í USA er hlægileg. Samanlagt hefur þessu fólki hugsanlega tekist að moka út jafn miklum áróðri yfir alla kosningabaráttuna og voldugar kosningavélar heimamanna hafa sent frá sér fyrir hádegi á meðal-degi. Þrátt fyrir gríðarlega leit tóks ekki að finna neinar tengingar milli þessa "rússa" áróðurs og aðgerða í raunheimum, nema hugsanlega 5 manns sem stóðu með mótmælaskilti á umferðareyju í Texas ríki. Aðspurð voru þau að tjá uppsafnaða óánægju áranna á undan og því líklega hreint ekki á valdi rússanna.
Tæknigeta Rússa er á mörgum sviðum óumdeild. Geimflauga og eldflaugatækni þeirra virðist vera í fremstu röð. Um þessar mundir eru þeir að selja fjölda ríkja S400 eldflaugavarnarkerfi sem þeir hafa lengi þróað og -ef marka má kaupendahópinn- það besta sem völ er á. Hernaðarsérfræðingar hvísla sín á milli að þeir séu komnir ríflega áratug framúr USA í þróun hljóðfrárra eldflauga og svo framvegis. Hinsvegar urðu Rússar tiltölulega nýverið fyrir umfangsmiklum tölvuárásum hvar innbrotsþjófar komust yfir gríðarlegt magn gagna frá stjórnvöldum, heilu gagnagrunnunum var hlaðið niður af vefþjónum þar meðtalið miklu magni viðkvæmra upplýsinga. Uppákoman var mjög vandræðaleg fyrir stjórnvöld og afhjúpaði að tölvuöryggi þarlendis var í hreinu skötulíki. Nokkuð sem bendir ekki til tæknilegra yfirburða eða sérstakrar færni Rússneskra stjórnvalda á tölvusviðinu sem gerir allar kenningar um víðækar tölvuárásir eða hökkun af þeirra hálfu ótrúverðugar.
Ef vinir vorir vestanhafs hafa áhyggjur af því að hrært sé í lýðræði ættu þeir að byrja áð því að líta í spegil. Þar næst ættu þeir að líta til Ísrael sem hrærir í innanríkismálum USA á degi hverjum.
Rússafóbía Breta og Bandaríkjamanna og grýlusmíðar gagnvart Rússum er löngu hætt að vera fyndin. Nær ekkert af því stenst skoðun.
![]() |
Nýttu alla stærstu samfélagsmiðlana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2018 | 00:48
Hin fordómafullu skilaboð
Samkvæmt orðanna hljóðan og bókstaflegri merkingu er ekkert fordómafullt eða rasískt að segja sem svo; það er allt í lagi að vera hvítur. Það er nefnilega í góðu lagi að vera hvítur, svo hvert er vandamálið? Hér virðist það vera meint ætterni skilaboðanna fremur en skilaboðin sjálf. Að þau séu ættuð frá ætluðum kynþáttahöturum, svokölluðu Alt-Right í Bandaríkjunum og þá þarf ekki frekar vitnanna við, þessi saklausu skilaboð verða þar með fordómafull.
Ég hef ekki nennt að athuga ætternið sérstaklega en ég hef séð því fleygt að þessi skilaboð eigi rætur að rekja til gárunga á stórri spjallrás á netinu; 4chan. Tilgangurinn er væntanlega sá að sýna fram á að ýmsir fulltrúar hinna talandi stétta sem og menntafólks sjást ekki lengur fyrir í hatrammri baráttu sinni fyrir fullkomnum heimi.
Þeir sem ráðast harðast gegn þessum skilaboðum falla í gildruna og lenda jafnvel í þeirri vandræðalegu stöðu að verða sjálfir einskonar rasistar af því túlka má andsvör þeirra þannig að þeir telji ekki í lagi að vera hvítur. Nokkuð sem Rektor H.Í gerði ekki.
Kannski er það nostalgía, en mig grunar að fyrir nokkrum árum hefðu þessar orðsendingar verið afgreiddir með einni eða tveimur snaggarlegum setningum krydduðum af húmor. Í dag er það sennilega ekki hægt og varla óhætt að bregðast öðruvísi við en Rektor gerir hér með því að slá alla fyrirvarana og gefa út yfirlýsingar um að H.Í stefni ótrauður að fullkomnum heimi - fyrir alla. Samkór pólitískrar rétthugsunnar rúmar ekki falskar raddir í þessum efnum fremur en öðrum.
Í þessum fullkomna heimi verður vísast gott að búa; en mikið held ég að það verði leiðinleg veröld og gildir þá einu hvernig maður er á litinn. Þar sem sótthreinsa verður allt sem sagt er og hugsað.
Er til of mikils mælst að lýsa efir svolítilli kímnigáfu?
![]() |
Fordómafull skilaboð á háskólasvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2018 | 21:30
Um facebook
Viðskiptamódel facebook gengur út á að safna persónuupplýsingum notenda og selja áfram til þriðja aðila. Beint eða óbeint. Þetta hefur legið fyrir frá upphafi og markaðir hafa verðlagt fyrirtækið í samræmi við það. Tröllvaxinn verðmiði fyrirtækisins grundvallast á því að persónuupplýsingar milljarða manna, nánast heilu þjóðanna eru gríðarlega mikils virði fyrir auglýsendur og fleiri eins og nýleg dæmi sanna. Notendur vefsins eru því hráefnið, einskonar búpeningur -- en fyrirtæki,stofnanir og jafnvel áróðursveitur hinir raunverulegu viðskiptavinir.
Í þessu ljósi er furðulegt að að tala um persónuvernd í sömu setningu og facebbok þar sem reksturinn snýst einmitt um hið gagnstæða. Taki fyrirtækið sig til og fari að ástunda eitthvað í líkingu við raunverulega persónuvernd er viðskipamódel þess hrunið til grunna og þar með reksturinn í heild sinni. Yfirstandandi verðfall á hlutabréfum fyrirtækisins endurspeglar þennan veruleika.
Auðvitað reynir Mark Z. forstjóri facebook hvað hann getur til að reyna að varpa ábyrgðinni yfir á Cambridge Analytica og láta líta svo út að facebook snúist um eitthvað allt annað en einmitt að safna upplýsingum um notendur sína.
Þeir sem hafa minnstu áhyggjur af eigin persónuupplýsingum - eða yfirleitt hvernig persónuupplýsingar eru meðhöndlaðar almennt ættu því að lágmarki að skrá sig út og eyða reikningum sínum á facebook. Fólk sem vill ekki blotna ætti ekki að fara í sund.
![]() |
Mark Zuckerberg rýfur þögnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2016 | 23:24
Þess vegna þurfum við nýja stjórnarskrá.
Í miðri Evrópu kúrir lítið ríki sem ætla mætti að væri paradís óreiðu og átaka, uppskriftin er í það minnsta til staðar: Þetta er fjölmenningarríki með þrjá mis stóra þjóðfélagshópa sem eru um margt ólíkir og tala hver sitt tungumál. Raunar eru opinber tungumál landsins fjögur talsins. Landgæði eru misjöfn í smáríkinu milli landshluta og trúarbrögð fjölbreytileg. Ofan í kaupið er landið umlukt herskáustu stórveldum samtímasögunnar og á jaðri austurs og vesturs í álfunni.
En í stað þess að vera paradís glundroða og átaka státar þetta smáríki af efnahagslegum- og pólitískum stöðugleika, lífsgæðum, mannréttindum og friðsæld sem eiga vart sinn líka í víðri veröld. Svo stöðugt er stjórnmálaástandið að landið, eða öllu heldur stjórnmál þess rata nær aldrei í heimspressuna og stjórnmálamennirnir eru lítt eða óþekktir, af því að af þeim er mest lítið að frétta. Ég er auðvitað að tala um fæðingarland Rauða Krossins - Sviss!
Það sem er krassandi við þetta er að síðan 1874 hafa svisslendingar haft ákvæði í sinni stjórnarskrá að tiltekinn fjöldi kjósenda geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. 1891 gengu þeir enn lengra með ákvæði um að tiltekinn fjöldi kjósenda gæti haft frumkvæði að því að leggja fram lagafrumvörp á þingi sem ríkisstjórnin yrði að fjalla um. Allar götur síðan hafa svisslendingar kosið um allskonar mál ríkisstjórnarinnar og að auki lagt fram fjölda frumvarpa framhjá henni sem síðar hefur einnig verið kosið um. Þetta er ekkert vandamál, þvert á móti raunar og hið háþróaða svissneska lýðræðið tifar áfram rétt eins og úrin sem þeir smíða af fágætum hagleik.
Beint lýðræði er visst hryggjarstykki og leiðarljós í stjórnarfari svisslendinga. Það veitir stjórnmálamönnum mikið aðhald og fyrirbyggir að ríkisstjórnarmeirihluti geti troðið hverju sem er ofan í kokið á þjóðinni, gegn vilja hennar. Frumkvæðisvald almennings tryggir síðan að ómögulegt er fyrir stjórnvöld að hunsa endalaust umdeild mál. Að síðustu tryggir þetta að umdeild mál eru leidd til lykta fyrir fullt og allt og þegar dómur þjóðarinnar fellur sætta svisslendingar sig við niðurstöðuna. Þannig þurfa þeir ekki að dröslast með umdeild mál í þjóðarsálinni áratugum saman án þess að þau séu útkljáð og þeim þar með lokið.
Stjórnlagaráð hefur augljóslega horft til Sviss þegar það samdi frumvarp að nýrri stjórnarkrá Íslands árið 2011. Ákvæði þess varðandi beint lýðræði eru mjög lík þeim svissnesku og eru svona:
65. gr. Málskot til þjóðarinnar
Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi, ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.
Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.
66. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda
Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.
Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.
Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.
67. gr. Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu
Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frumvarp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.
Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.
Að mínu mati gnæfa þessi ákvæði yfir öðrum breytingum á stjórnarskrá Íslands og þau eru mjög til góðs. Tökum skrefið í áttina að Svissneska kerfinu, Íslensk óreiða þarfnast ábyrgðar og stöðugleika sem þessi ákvæði munu færa okkur, alveg eins og svisslendingum sem eru rúmri öld á undan okkur í stjórnarfari og lýðræði og árangur þeirra blasir við.
Til að byrja með má búast við ólátum og hörðum átökum verði þessi ákvæði að raunveruleika, enda eigum við í handraðanum talsverðan lista af óuppgerðum málum sem munu loks verða útkljáð í krafti nýrrar stjórnarskrár. Það er ekki eftir neinu að bíða, er ekki komið nóg af ruglinu hér annars?
Bloggar | Breytt 21.5.2016 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2016 | 23:59
Gott að búa á Íslandi
Íslendingar hafa lengi verið meðvitaðir um að styrkir og framlög til stjórnmálamanna eru ekki sérlega góð latína fyrir lýðræðið. Þessi skoðun fékk ákveðna staðfestingu í hruninu og margir hafa sem betur fer áttað sig á því að fé auðmanna eða fyrirtækja á nákvæmlega ekkert erindi inn í stjórnmálin. Uppskeran er einfaldlega hagsmunapot og spilling.
Þessu er alveg öfugt farið í Bandaríkjunum enda eru stjórnmál stórveldisins löngu orðin leikhús fáránleikans. Tveir flokkar sem eru sitt hvor höndin á sama skrokki slá upp leiktjöldum og eru sammála um það eitt að vera ekki sammála um neitt -þrátt fyrir að stefnan sé nánast sú sama. Starf þingmanna þar vestra snýst nær alfarið um fjáröflun, ýmist fyrir flokkinn eða fyrir þá sjálfa svo að þeir nái nú kjöri næst. Við síðustu talningu voru 113 þúsund lobbýistar skráðir í Bandaríkjunum -já þetta er sérstök starfsgrein en þeim er víst skylt að skrá sig hjá yfirvöldum. Þeirra hlutverk er að múta þingmönnum til að knýja fram stefnumál kostendanna. Magnað fyrirkomulag svo ekki sé fastar að orði kveðið!
Það sem einna helst virðist sameina bandarísku þjóðina í pólitík er alger fyrirlitning á alríkisstjórninni og öllu klabbinu í Washington. Traust á þinginu og kerfinu í heild er við frostmarkið. Vitaskuld nálgast þó fólk þetta frá ólíkum sjónarhornum eftir smekk og geðþótta. Þannig telja sumir kerfið sokkið í sósíalisma og aðrir telja að kostendur ráði öllu. Menntaelíta vs fjármálaelíta. Hvorugt útilokar þó hitt. Heilt yfir er bandaríkjamönnum mjög uppsigað við skatta og það er líklega mjög skiljanlegt ef maður veltir því fyrir sér í hvað skattfé er notað þar vestra.
Nú steðja að forsetakosningar og það sem hæst rís er andúð þorra þjóðarinnar á frambjóðendum tvíflokksins. Bæði virðast hafa þröngan hóp stuðningsmanna sem nægir þeim til framboðs fyrir flokkinn á meðan restin af þjóðinni beinlínis hatar þau. Það væri auðvitað bara gaman að þessu ef ekki væri fyrir þá staðreynd að annað þeirra mun að öllum líkindum verma sæti valdamestu fígúru heims sem stýrir meðal annars 5000 kjarnorkusprengjum og hefur herdeildir á fæti um víða veröld í ólíklegustu ríkjum. Að auki er forseti bandaríkjanna það eina sem stendur á milli hagsmuna hernaðariðnaðarins heimafyrir og heimsfriðar yfirleitt. Gæfuleg staða það!
Sitjandi forseti fékk hvorki meira né minna en friðarverðlaun Nóbels í þann mund sem hann tók við embættinu - en samt standa nú bandaríkin fyrir viðamiklu vopnaskaki við bæjardyr Rússa. Sá leiðangur hefur verið stimplaður sem einskonar geðbilun af ýmsum bandarískum sérfræðingum í utanríkis- og varnarmálum og þeir velta fyrir sér hvort að markmiðið sé að knýja Rússa til átaka. Fyrst þetta gerist á vakt friðarverðlaunahafans þá vaknar spurningin hvað gerist ef aðrir taka við?
Við Íslendingar ættum að sýna þakklæti fyrir að Íslenska forsetaembættið er harla valdalítið og að allir frambjóðendur til kjörs forseta Íslands eru miklu betri valkostir en þeir sem bandaríkjamenn þurfa að kjósa um í nóvember.
![]() |
Trump ekki hæfur til að vera forseti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.5.2016 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2016 | 13:27
Ókeypis varningur
Er oftast léleg vara sem er mun meira framboð af en eftirspurn. Nær alltaf fylgir eitthvað með í smáaletrinu enda er hádegisverðurinn aldrei ókeypis. Gildir þar enska orðatiltækið; You get what you pay for.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2016 | 13:04
Forsetakosningar í undralandi
Nú hefur Davíð Oddson bætt sér í hóp frambjóðenda til forseta. Hann segir hugmyndina hafa kviknað á síðustu dögum, ef marka má lofgrein Hannesar um Davíð í Morgunblaðinu fyrir nokkru eru "síðustu dagar" teygjanlegt hugtak. Framboð Davíðs á sér líklega lengri aðdraganda.
Helstu rök Davíðs fyrir framboði eru þau að Ólafur Ragnar sé kominn fram yfir síðasta söludag á forsetastóli. Búinn að sitja of lengi. Þar vísar Davíð í viðtekin sannindi um að slímusetur valdhafa séu ekki heppilegar lýðræðinu. Gallinn við þessa skýringu er náttúrulega sá að sé Ólafur vanhæfur eftir langa valdasetu gildir nákvæmlega það sama um Davíð sjálfan. Þar fór það fyrir lítið.
Bæði Davíð og Ólafur bjóða sig fram til að standa vaktina á Bessastöðum. Spurningin er hvað þeir ætla að vakta þar? Varla eru það álftir og gæsir í túni Bessastaða, það hlýtur að vera alþingi sem nú þarf sérstakan vaktmann á Bessastöðum og einkar skemmtilegt að það séu þeir tveir sem vilja taka að sér verkið -Ólafur fann upp vakthlutverkið og Davíð fór nánast af hjörunum þegar vaktmaðurinn ræsti eldvarnarkerfið í fyrsta skipti. En nú vill Davíð líka.
Fáir menn á Íslandi hafa oftar rætt um þingræðisregluna en þeir Davíð og Ólafur, báðir eru andsnúnir breytingum á stjórnarskrá en vilja nú taka að sér að vakta þingið fyrir þjóðina. Þeir vilja ekki að hún geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um lagasetningar milliliðalaust (sennilega ekki treystandi fyrir því sakir reynsluleysis). Nei þeir vilja gerast einskonar hliðverðir sem ýmist samþykkja eða synja kröfum um þjóðaratkvæðagreiðslur eftir eigin geðþótta. Líklega er þetta hugsað hjá þeim til að verja þingræðið? ha?
Nú tekur Davíð sérstaklega fram að einungis þeir tveir séu færir um vakthlutverkið á Bessastöðum og ríður þar baggamun gríðarleg reynsla þeirra. Hvaða reynsla skyldi það nú vera? Þó báðir hafi vissulega mikla reynslu er sú reynsla harla ólík. Annar hefur sannarlega staðið umrædda "vakt" og farist það ágætlega úr hendi en hinn hefur á meðan hamast í pólitískum grjótburði og hagsmunavörslu sem gerir hann líklega vanhæfasta mann landsins til starfsins nema í huga lítils hóps hörðustu stuðningsmanna.
Talandi um harða stuðningsmenn þá er það svo skemmtilegt að þeir Ólafur og Davíð eiga sér sameiginlegan stuðningsmannahóp. Helstu einkenni þessa hóps er að hjá honum er IceSave málinu alls ekki lokið og ESB umsókn vofir enn yfir ásamt ýmsum vofum fortíðar. Ofan í kaupið steðjar síðan að óviss framtíð. Skiljanlega metur þessi hópur frambjóðendur til forseta alfarið eftir þessum línum og fær nú talsvert fyrir sinn snúð með þá Davíð og Ólaf báða í framboði. Nokkuð sem líklega tryggir að hvorugur verður næsti forseti.
Það er þetta sem er skrítnast af öllu við framboð Davíðs Oddsonar. Mátuleg yfirskrift þess er; sælt er sameiginlegt skipbrot.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2016 | 14:30
Guðni forseti
Mér er fyrirmunað að sjá eitthvað því til fyrirstöðu að Guðni leysi af Ólaf Ragnar á Bessastöðum. Í Salnum mæltist honum vel og Ólafur getur gengið á vit frelsisins áhyggjulaus verði Guðni forseti. Embættið verður í góðum höndum.
![]() |
Forseti standi utan fylkinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.5.2016 | 17:49
Árni Sigfússon og meðvirkir
Alvarlegur fjarhagsvandi steðjar að Reykjanesbæ. Það ætti engum að koma á óvart sem hefur fylgst með fyrirsögnum fjölmiðla síðasta rúman áratug. Fjármálastjórn bæjarins var með hreinum endemum á árunum fyrir hrun. Þar fór Árni Sigfússon fremstur í sínum flokki með tryggan stuðning meirihluta kjósenda.
Í kvöldfréttum RÚV sást bæjarstjórn Reykjanessbæjar í þungum þönkum yfir aðsteðjandi gjaldþroti sveitarsjóðs og viti menn: Þar blasti við enginn annar en Árni Sigfússon. Það hlýtur að vera mikill léttir fyrir íbúa sveitarfélagsins að vita að þessi fulltrúi Sjálfstæðisflokksins er ekki langt undan á þessum erfiðu tímum. Í þeim flokki er jú ávallt lögð áhersla á trausta fjármálastjórn ef ég man rétt.
Þetta leiðir hugann að því hvaða erindi stjórnmálaflokkar eiga í raun inn í bæjarstjórnir. Eða, hvað hefur bæjarpólitík með landsmálapólitík að gera? Hver er munurinn á áherslum framsóknar, sjálfstæðisflokks eða samfylkingar í sveitarstjórnarmálum? - svo einhver dæmi séu tekin.
Þegar ég hef velt þessu upp hefur svarið oft verið á þá leið að það sé baklandið í flokknum sem skipti svo miklu máli. Með því að bjóða kjósendum upp á þekktan stjórnmálaflokk viti fólk fyrir hvað viðkomandi standi, nokkurn veginn í það minnsta. Gott og vel, þetta hljómar ekki ósennilega og gæti verið skynsamlegt ef bakland stjórnmálaflokka miðlar bæði reynslu, þekkingu og ennfremur ábyrgð til sinna frambjóðenda í sveitarstjórnum.
Þá komum við aftur að Árna sem situr enn í umboði Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Í hans tilviki virðist flokkurinn ekki hafa miðlað reynslu, þekkingu eða ábyrgð til íbúa Reykjanesbæjar. Það var eitthvað allt annað sem þeir fengu fyrir atkvæði sín síðustu árin. Sumt af því var reyndar í takt við ríkjandi hugmyndafræði flokksins, en látum það vera.
Það er sérstakt rannsóknarefni hvernig stendur á því að Árni er enn oddviti Sjálfstæðismanna í þessu mikla vígi flokksins. Mér sýnist að hér ráði alfarið liðsheildin, þessi takmarkalausa fylgispekt og gagnrýnisleysið sem einkennir liðsmenn og fastafylgi stjórnmálaflokka. Þar virðist Sjálfstæðisflokkur vera í sérflokki. Meðvirkni er sennilega rétta orðið!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar