Ókeypis varningur

Er oftast léleg vara sem er mun meira framboð af en eftirspurn. Nær alltaf fylgir eitthvað með í smáaletrinu enda er hádegisverðurinn aldrei ókeypis. Gildir þar enska orðatiltækið; You get what you pay for.


Forsetakosningar í undralandi

Nú hefur Davíð Oddson bætt sér í hóp frambjóðenda til forseta. Hann segir hugmyndina hafa kviknað á síðustu dögum, ef marka má lofgrein Hannesar um Davíð í Morgunblaðinu fyrir nokkru eru "síðustu dagar" teygjanlegt hugtak. Framboð Davíðs á sér líklega lengri aðdraganda.

Helstu rök Davíðs fyrir framboði eru þau að Ólafur Ragnar sé kominn fram yfir síðasta söludag á forsetastóli. Búinn að sitja of lengi. Þar vísar Davíð í viðtekin sannindi um að slímusetur valdhafa séu ekki heppilegar lýðræðinu. Gallinn við þessa skýringu er náttúrulega sá að sé Ólafur vanhæfur eftir langa valdasetu gildir nákvæmlega það sama um Davíð sjálfan. Þar fór það fyrir lítið.

Bæði Davíð og Ólafur bjóða sig fram til að standa vaktina á Bessastöðum. Spurningin er hvað þeir ætla að vakta þar? Varla eru það álftir og gæsir í túni Bessastaða, það hlýtur að vera alþingi sem nú þarf sérstakan vaktmann á Bessastöðum og einkar skemmtilegt að það séu þeir tveir sem vilja taka að sér verkið -Ólafur fann upp vakthlutverkið og Davíð fór nánast af hjörunum þegar vaktmaðurinn ræsti eldvarnarkerfið í fyrsta skipti. En nú vill Davíð líka.

Fáir menn á Íslandi hafa oftar rætt um þingræðisregluna en þeir Davíð og Ólafur, báðir eru andsnúnir breytingum á stjórnarskrá en vilja nú taka að sér að vakta þingið fyrir þjóðina. Þeir vilja ekki að hún geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um lagasetningar milliliðalaust (sennilega ekki treystandi fyrir því sakir reynsluleysis). Nei þeir vilja gerast einskonar hliðverðir sem ýmist samþykkja eða synja kröfum um þjóðaratkvæðagreiðslur eftir eigin geðþótta. Líklega er þetta hugsað hjá þeim til að verja þingræðið? ha?

Nú tekur Davíð sérstaklega fram að einungis þeir tveir séu færir um vakthlutverkið á Bessastöðum og ríður þar baggamun gríðarleg reynsla þeirra. Hvaða reynsla skyldi það nú vera? Þó báðir hafi vissulega mikla reynslu er sú reynsla harla ólík. Annar hefur sannarlega staðið umrædda "vakt" og farist það ágætlega úr hendi en hinn hefur á meðan hamast í pólitískum grjótburði og hagsmunavörslu sem gerir hann líklega vanhæfasta mann landsins til starfsins nema í huga lítils hóps hörðustu stuðningsmanna.

Talandi um harða stuðningsmenn þá er það svo skemmtilegt að þeir Ólafur og Davíð eiga sér sameiginlegan stuðningsmannahóp. Helstu einkenni þessa hóps er að hjá honum er IceSave málinu alls ekki lokið og ESB umsókn vofir enn yfir ásamt ýmsum vofum fortíðar. Ofan í kaupið steðjar síðan að óviss framtíð. Skiljanlega metur þessi hópur frambjóðendur til forseta alfarið eftir þessum línum og fær nú talsvert fyrir sinn snúð með þá Davíð og Ólaf báða í framboði. Nokkuð sem líklega tryggir að hvorugur verður næsti forseti.

Það er þetta sem er skrítnast af öllu við framboð Davíðs Oddsonar. Mátuleg yfirskrift þess er; sælt er sameiginlegt skipbrot.

 

 

 

 

 


Guðni forseti

Mér er fyrirmunað að sjá eitthvað því til fyrirstöðu að Guðni leysi af Ólaf Ragnar á Bessastöðum. Í Salnum mæltist honum vel og Ólafur getur gengið á vit frelsisins áhyggjulaus verði Guðni forseti. Embættið verður í góðum höndum.


mbl.is „Forseti standi utan fylkinga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Sigfússon og meðvirkir

Alvarlegur fjarhagsvandi steðjar að Reykjanesbæ. Það ætti engum að koma á óvart sem hefur fylgst með fyrirsögnum fjölmiðla síðasta rúman áratug. Fjármálastjórn bæjarins var með hreinum endemum á árunum fyrir hrun. Þar fór Árni Sigfússon fremstur í sínum flokki með tryggan stuðning meirihluta kjósenda.

Í kvöldfréttum RÚV sást bæjarstjórn Reykjanessbæjar í þungum þönkum yfir aðsteðjandi gjaldþroti sveitarsjóðs og viti menn: Þar blasti við enginn annar en Árni Sigfússon. Það hlýtur að vera mikill léttir fyrir íbúa sveitarfélagsins að vita að þessi fulltrúi Sjálfstæðisflokksins er ekki langt undan á þessum erfiðu tímum. Í þeim flokki er jú ávallt lögð áhersla á trausta fjármálastjórn ef ég man rétt.

Þetta leiðir hugann að því hvaða erindi stjórnmálaflokkar eiga í raun inn í bæjarstjórnir. Eða, hvað hefur bæjarpólitík með landsmálapólitík að gera? Hver er munurinn á áherslum framsóknar, sjálfstæðisflokks eða samfylkingar í sveitarstjórnarmálum? - svo einhver dæmi séu tekin.

Þegar ég hef velt þessu upp hefur svarið oft verið á þá leið að það sé baklandið í flokknum sem skipti svo miklu máli. Með því að bjóða kjósendum upp á þekktan stjórnmálaflokk viti fólk fyrir hvað viðkomandi standi, nokkurn veginn í það minnsta. Gott og vel, þetta hljómar ekki ósennilega og gæti verið skynsamlegt ef bakland stjórnmálaflokka miðlar bæði reynslu, þekkingu og ennfremur ábyrgð til sinna frambjóðenda í sveitarstjórnum.

Þá komum við aftur að Árna sem situr enn í umboði Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Í hans tilviki virðist flokkurinn ekki hafa miðlað reynslu, þekkingu eða ábyrgð til íbúa Reykjanesbæjar. Það var eitthvað allt annað sem þeir fengu fyrir atkvæði sín síðustu árin. Sumt af því var reyndar í takt við ríkjandi hugmyndafræði flokksins, en látum það vera.

Það er sérstakt rannsóknarefni hvernig stendur á því að Árni er enn oddviti Sjálfstæðismanna í þessu mikla vígi flokksins. Mér sýnist að hér ráði alfarið liðsheildin, þessi takmarkalausa fylgispekt og gagnrýnisleysið sem einkennir liðsmenn og fastafylgi stjórnmálaflokka. Þar virðist Sjálfstæðisflokkur vera í sérflokki. Meðvirkni er sennilega rétta orðið!


Sjávarháski í stjórnarráðinu

Á fallegum degi í slettum sjó sást skyndilega röst eftir sjónpípu í fjarska. Áður en áhöfnin vissi hvaðan á sig stóð veðrið kvað við sprengjugnýr. Jóhannes aflandseyjabani var mættur á miðin!

Fyrsta skotið afgreiddi skipstjórann á stjórnarskútunni og hann mun dvelja í sjúkrarými neðan þilja á næstunni, þó ekki utan kallfæris. Fyrsti stýrimaður tognaði illa í framan í atlögunni og tók því ekki við stjórn, þess í stað var kokkurinn munstraður við stjórnvölinn. Helsta ástæðan fyrir því er að hann ku vera skotheldur og ekki viðkvæmur í framan.

Seglin eru rifin og skútan hefur tekið á sig talsverðan sjó. Stímt er til lands með allar dælur á fullu undan veðrinu, samt verður reynt að kasta veiðarfærum þegar komið er fyrir Horn til að reyna nú að bjarga róðrinum. Óvíst er með gæftir á þessari slóð.

Vitað er af kafbáti Jóhannesar í grendinni sem er drekkhlaðinn skotfærum. Fyrsta skot hans var beint í mark, hvar lendir næsta bomba frá honum?

Skipverjar eru uggandi yfir stöðunni og ekki bætir uppgangur sjóræningja á íslandsmiðum úr skák. Siglingin heim verður ekki tíðindalaus, svo mikið er víst!

 


Einmitt það sem vantaði

Eftir að heimspressan hefur fjallað um afsögn íslenska forsætisráherrans í allan dag kemur þessi dæmalausa yfirlýsing.

Setja verður upp rústabjörgunarteymi til að losna við manninn áður en egótripp hans veldur enn meiri skaða.


mbl.is Segir Sigmund ekki hafa sagt af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú væri gott að hafa alvöru ríkisstjórn

Í Kastljósi gærkvöldsins komu fram margvíslegar upplýsingar sem bregðast þarf við. Við blasir að myndarlegur hópur íslendinga hefur stofnað til aflandsfélaga í hundraðavís. Félaga sem að öllu jöfnu miðast að því að forðast skattgreiðslur, dylja eignarhald og fleira í þeim dúr. Skyndilega liggja nú fyrir verulegar upplýsingar um þessi félög og eigendur þeirra.

Nýgengnir dómar sýna að stórkostlegt misferli átti sér stað í fjármálakerfinu árin fyrir bankahrun og stórar fjárhæðir fóru á milli félaga í vafasömum viðskiptum. Þó nokkuð hafi verið gert fer því fjarri að sú saga hafi verið gerð upp til fulls. Mjög líklegt er að hinn stóri gagnaleki frá lögfræðifirmanu á panama gæti fyllt út í þá mynd að einhverju leyti. Upplýst um frekara misferli eða varpað skýrara ljósi á það sem þegar er vitað, hugsanlegt er að þarna dúkki upp eitthvað af þeim fjármunum sem rötuðu á svokallaða peningahimna og svo eru það náttúrulega skattamálin sem eru brýnt réttlætismál.

Sæmileg ríkisstjórn í lýðræðisríki, ríkisstjórn sem starfar fyrir þorra umbjóðenda sinna - almenning. Svoleiðis ríkisstjórn mundi varla bíða boðanna heldur einhenda sér í að afla þessara gagna og hefja starfið tafarlaust.

Höfum við þannig ríkisstjórn?

 


Vertu blessaður Sigmundur

Á þessu örbloggi er bæði sjaldan og lítið fjallað um pólitík. Nú er hinsvegar tilefni til að kveðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráherra og þakka honum unnin störf.

Málið byrjar þannig að Sigmundur er spurður af sænskum fréttamanni út í aflandsfélög almennt og síðan hreint út um hans eigið félag Wintris. Svörin hljómuðu sannarlega eins og ósannindi og svo undansláttur samhliða fáti áður en hann sleit viðtalinu.

Í kjölfarið birtir eiginkona hans færslu á facebook til að svara "gróusögum". Já hún sagði gróusögum. Málsvörn forsætisráherra síðan hefur byggst á því að hann hafi gefið allt upp til skatts annarsvegar. Hinsvegar að um sé að ræða pólitíska aðför að sér af hálfu RÚV og fleiri aðila. Og svo eru þeir sem hafa gagnrýnt hann ýmist klappstýrur útrásarinnar og fjármálaóreiðu eða eitthvað þaðan af verra.

Viðbrögðin eru semsé: Ósannindi, hálfsannindi og svo það versta af öllu, ómálefnalegt skítkast og óhróður um saklaust fólk.

Aflandseyjamálið hefði hugsanlega mátt fyrirgefa Sigmundi undir öðrum kringumstæðum. En viðbrögð hans við málinu eru ófyrirgefanleg.

Farvel Sigmundur.


Prófum aðra aðferð við að meta þessar launahækkanir

Algerlega óvísindalegt slump á mánaðarlaun þessara hópa er t.d. svona: Verkafólk 250.000, stjórnendur 800.000,

Þá lítur fyrsta klausa fréttarinnar svona út:

Laun verka­fólks hækkuðu mest frá árs­lok­um 2014 til árs­loka 2015, eða um 27.500kr, en laun stjórn­enda minnst, eða um 47.200kr. ...

Er þetta satt?


mbl.is Laun verkafólks hækkað mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er uppbygging við Hringbraut lausn á bráðavanda spítalans?

Helsta röksemdin gegn breyttum plönum við byggingu nýs Landspítala er tímaskortur. Lengi sé búið að plana, of seint að hætta við, allir mælar löngu fullir og kominn tími á framkvæmdir. Gott og vel.

Hér er bráðavandi spítalans, sem er mjög raunverulegur og okkur til skammar, orðinn að lyftistöng fyrir óheppilega staðsetningu spítalans til framtíðar. Fyrirhugaðar framkvæmdir við Hringbraut eru þó ekki miðaðar til að taka á bráðavanda spítalans. Gangi plön eftir verður hægt að byrja að nota eitthvað af þeim eftir hvað, 5 ár? Í millitíðinni verður allt á rúi og stúi á Landspítalalóðinni vegna framkvæmdanna sem munu síðan standa mun lengur. Bráðavandinn mun því fara áfram versnandi.

Hvað með að líta á bráðavanda spítalans sem sérstakt og aðskilið mál og leysa það með byggingu einfaldra bygginga við Landspítalann til að fleyta honum yfir næstu ár. Einfalda ódýra fermetra til að brúa bilið. Eins hratt og kostur er.

Finna síðan góðan stað fyrir Landspítalann til framtíðar (Vífilsstaðir, Keldnaholt ...) og byggja þar nýjan spítala frá grunni. Sú framkvæmd ætti ekki að þurfa að taka lengri tíma en fyrirhugaður bútasaumur við Hringbraut. Líkur eru á að útkoman yrði miklu betri.

Þetta væri hægt í landi þar sem stjórnmál eru list hins mögulega. Ekki hins ómögulega eins og virðist vera raunin hér.


mbl.is Frestun „fullkomið ábyrgðarleysi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sitt lítið af hverju

Höfundur

Ólafur Eiríksson
Ólafur Eiríksson
Óbreyttur
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • hjólhýsi
  • ...dsc00019
  • ...dild_888966
  • ...thusundkall
  • ...slit_877880

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband