Stöðvum slysið við Hringbraut

Engra skýringa þarf að leita í hreppapólitík, eða pólitík yfirleitt - þau efnisatriði sem Sigmundur rekur standa sjálf sem frambærilegar röksemdir gegn Hringbrautarslysinu. Fyrsta varðan á þeirri leið var sá skipulagslegi óskapnaður sem er hinn nýi hluti Hringbrautar. Einskonar flugbraut til viðbótar við þær sem fyrir voru í Vatnsmýri sem spannar óhemju landflæmi í hjarta borgarinnar. Rækilega stífluð við sitt hvorn enda á álagstímum!

Næst má nefna það sem kemur í hugann í hvert sinn sem sækja þarf þjónustu á Landspítalann sem er bílastæðavandinn. Sem er nú þegar ærinn. Ótal hringi hef ég ekið um plönin í leit að bílastæði og oft hugsað; hvar á svo að leggja þegar búið er að byggja öll ósköpin til viðbótar?

Eins og Sigmundur rekur mun þessi fyrirhugaða framkvæmd verða bútasaumur, rándýr og tæknilega erfiður með ómældu raski fyrir íbúa og sjúklinga á Landspítalanum. Í leiðinni verður að gera við og breyta og bæta núverandi byggingar með enn meira raski og tilkostnaði. Þeir sem hafa baslast í verklegum framkvæmdum að einhverju ráði vita væntanlega hverskonar krókaleiðir og ranghala þeir þurfa að elta til að ljúka slíkum verkum. Kostnað er illmögulegt að áætla fyrirfram og megin reglan er sú að hann fer langt fram úr áætlunum. Jafnvel raunsæjum áætlunum. Á móti kemur síðan að þó núverandi byggingar henti ekki lengur fyrir spítalarekstur óbreyttar eru þær sannarlega á dýrum stað og ríkið ætti að fá umtalsverða fjármuni fyrir þær fari málið þá leið að byggt verði annarsstaðar.

Og í þessu öllu skal berjast til að koma fyrir nýjum spítala þar sem er í raun ekki pláss fyrir hann, þar sem möguleikar á frekari stækkun í framtíðinni eru hverfandi og fyrirséð er að spítalinn í fyrirhugaðri mynd verði hvort eð er of lítill eftir tvo áratugi eða svo. Á stað sem sífellt færist fjær því að vera nokkurskonar miðja höfuðborgarsvæðisins. Stað þar sem tafir vegna umferðar eru þegar reglan á álagstímum og munu áreiðanlega fara versnandi.

Óskiljanlegt er hversu lengi og hversu langt þessar dellu-hugmyndir hafa komist. Gott væri að fólk tæki niður pólitísk hestagleraugu og legði pólitíska sagnfræði á hilluna um stundarsakir og melti það sjálfstætt í hjarta sínu hvort að þessar fyrirhuguðu framkvæmdir séu virkilega besta leiðin í þessu stóra máli. Í dag og til framtíðar.

 


mbl.is Vill nýjan spítala á Vífilsstöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir hönnuðu og lögðu hinar lofsverðu lagnir?

Ekki veit ég af hverju hönnuðir og iðnaðarmenn liggja að mestu óbættir hjá garði í íslenskum fjölmiðlum. Fagvinna - hversu tilkomumikil sem hún er - liggur í þögninni hjá okkur.

Hér eru veitt verðlaun fyrir lofsvert lagnaverk og það þykir ekki einu sinni taka því að nefna hönnuðina á nafn eða láta þess getið hverjir lögðu lagnirnar. Engar myndir fylgja af lagnaverkinu, bara mynd af forseta, slökkviliðsstjóra og svo nafnlaus hópmynd.

Forsetinn já, slökkvuliðsstjórinn já og umsjónarmaður fasteigna voru fréttnæmir!!

 

Furðulegt.


mbl.is Lofsvert lagnaverk í slökkvistöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættleiddir hjólbarðar

Það er undarleg framsetning að tala um íslensk dekk þegar sagt er berum orðum í fréttinni að þau séu framleidd í Evrópu. Ofan í kaupið geri ráð fyrir því að sérfræðingateymið frá Nokien í Finnlandi hafi hannað þau, en ekki sá hluti fjárfestanna sem er íslenskur. Loks er öruggt að engin íslensk hráefni eru notuð við framleiðsluna.

Hvað er þá nákvæmlega íslenskt við þessi dekk?

Nei, það er ekki nóg að fyrirtækið hafi höfuðstöðvar á Íslandi - hvað sem það nú þýðir. Og það dugar ekki heldur að fyrirtækið heiti Iceland Tyres. Dekkin verða ekki íslensk við það í neinum skilningi!

Þetta lítur út fyrir að vera dæmigert markaðsbull til heimabrúks. Eftir því sem ég kemst næst mundi þessi uppsláttur varða við lög í Bandaríkjunum sem taka merkingar á upprunalandi vöru alvarlega.

Þau eru líklega ættleidd, adopted by Iceland!


mbl.is Íslensk dekk á götur í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofstæki gagnvart skotvopnaeign og ofurtrú á regluverk.

Hér er verið að bregðast við vanda sem ekki er til. Skotvopnaeign almennings á Íslandi hefur verið dæmalaust farsæl, óhöpp fátíð og glæpir framdir með skotvopnum sömuleiðis. Höfum í huga að skotvopnaskráning og eftirlit með skotvopnum var algerlega í molum hér á Íslandi um áratugaskeið - sem virðist ekkert hafa komið að sök! Fróðlegt væri að sjá tölfræði sem sýndi svart á hvítu gagnsemi skotvopnaskráningar og eftirlits eftir að því var kippt í liðinn fyrir nokkrum árum. Hver skyldi nú árangurinn vera?

Ólíklegt er að þessar reglubreytingar hafi nein áhrif til þess að bæta ástand sem flest ríki teldu alveg frábært. Í því samhengi má nefna að í bandaríkjunum benda menn á að það sé til lítils að hrúga upp regluverki sem þrengir að réttindum manna til að eiga og bera skotvopn. Rökin eru einfaldlega þau að þeir sem á annað borð færu eftir reglunum eru ólíklegir til að brjóta lög og fremja glæpi. Afbrotamenn muni síðan hvort eð er verða sér úti um skotvopn eftir hentugleikum hvað sem öllu regluverki líður. Niðurstaðan verði afvopnun löghlýðinna borgara en engin breyting gagnvart glæpaklíkum!

Þessi röksemdarfærsla er auðvitað ekki skotheld, en hún er samt athyglisverð. Í þessu samhengi má velta því fyrir sér hvort að það hefði ekki verið alveg ljómandi gott að hafa eins og einn eða tvo "byssuóða" bandaríkjamenn (sem bera skotvopn dags daglega)  í Útey þegar Breikvik reikaði þar um og slátraði varnarlausu fólki tvist og bast. Kannski hefðu líkin orðið færri ef fleiri hefðu verið vopnaðir á þessum hörmulega degi en bara hann í Útey!?  Þessi vangavelta hljómar afar skringilega fyrir okkur friðslæla íslendinga en er hún eitthvað skrítnari en að nota Úteyjar drápin sem röksemd fyrir hertum vopnalögum hér? 

Síðan er það yfirskriftin, réttlætingin fyrir breytingunum: almannahagur og öryggi. Við (ríkisvaldið) erum að gera þetta fyrir ykkur, til að þið verðið örugg!  Stundum velti ég því fyrir mér hvað það er sem ekki er hægt að banna/reglusetja undir formerkjum ógnar og skelfingar, undir þeirri rós að það sé verið að tryggja öryggi þitt? Þessi rök eru orðin óhuggulega algengt og sjálfsögð á Íslandi og því miður fáir sem andmæla þeim. Ég bíð (ekki) spenntur eftir því að kerfið uppgötvi - sér til skelfingar - öll þau hættulegu tól og tæki seld eru í verslunum landsins. Með sömu rökum og bara örlítið meiri ógnar- og skelfingarvæðingu þarf brátt að sækja um sérstakt leyfi til að kaupa sér hamar.Sem kunnugt er þá eru hamrar, að ekki sé talað um slaghamra , stórhættuleg verkfæri!

Hvers vegna ekki?

Það sem gleymist er fórnarkostnaður almennra (frjálsra?) borgara á Íslandi og réttur þeirra til að haga lífi sínu eftir eigin hentugleik svo framarlega sem það skerðir ekki rétt annarra. Þessi síðari vinkill viðrist víðs fjarri íslenskum reglusmiðum - nema hugsanlega þegar kemur að ákveðnum viðskiptum og fjármálavafstri þar sem hagsmunaaðilar andæfa og eiga aðgang að eyrum ráðamanna. Nei, spor Jóns og Gunnu sem þurfa að: sækja námskeið í þessu og fá vottorð fyrir hinu, borga skráningu hér os.frv. eru ósköp lítils metin. Tími þeirra og auknir erfiðleikar við að sinna sínu lífi og áhugamálum er lítils virði þegar íslenskir reglusmiðir eiga í hlut. En það sem líklega er verst - er sú tilfinning Jóns og Gunnu að þau séu ekki í bílstjórasætinu í sínu eigin lífi og að þau eigi sífellt að beygja sig undir ákvarðanir misviturra reglusmiða sem enginn kannast við að hafa kosið til slíkra hluta! 

Víðfemt bann við aðgengi almennings að eldgosinu í Holuhrauni er annar angi af nákvæmlega sama meiði. Ógn, skelfing og öryggi eru sett á oddinn en ánægja og frelsi íslenskra borgara er fótum troðið. Það skrítna er að sjá suma klappa yfir herlegheitunum þegar þeir eru sviftir frelsi sínu.


mbl.is Vopnalög þrengd í þágu almannahags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HM í boltasparki fullorðinna karla -glatað tækifæri

Keppnin er kjörið tækifæri til að gefast endanlega upp á Ríkissjónvarpi sumra landsmanna.

Hvað mig snertir er þetta glatað tækifæri því langt er síðan ég gafst upp á boltastöðinni.

Útséð er með að boltaáhugamenn greiði sjálfir fyrir boltagláp sitt. Kannski er vert að skoða að stofna fréttatengda sjónvarpsrás við hlið boltarásarinnar - fyrir okkur hin?


Smávaxið jökulhlaup í bakgarði

Þetta er stærðargráðum minna en þegar hann Síðujökull tók sig til og rann fram fyrir nokkrum árum. En ekki síður merkilegt fyrirbæri.

 


Sæstrengur er mjög áhugavert verkefni

Hinu megin við pollinn er stór markaður fyrir "græna" orku og greiðir fyrir hana hátt verð á álagstímum. Yfir nóttina þegar notkun er lítil er aftur í boði mjög ódýr orka, einkum þegar vindasamt er og vindmyllursvermar á meginlandinu framleiða á fullu. Verðið er semsagt mjög breytilegt sem býður upp á mikla möguleika - fyrir þá sem geta stýrt framleiðslu sinni og eru ekki háðir duttlungum vinda.

Tenging íslenska raforkunetsins við meginlandið mundi gjörbreyta því hvernig við rekum okkar virkjanir. Yfir álagstímann í Evrópu þegar öll starfsemi er í fullum gangi mundi L.V væntanlega keyra allar vatnstúrbínur á fullu til þess að selja sem mesta orku yfir strenginn til Evrópu, og líka til að anna innlendri eftirspurn.

Yfir nóttina snýst dæmið jafnvel alveg við. L.V dregur sem mest úr raforkuframleiðslu vatnsaflsvirkjananna og kaupir í staðinn ódýra orku frá Evrópu - sem er t.d framleidd með kjarnorku. Á meðan á þessu stendur hækkar (eða lækkar minna en ella) í vatnsmiðlunarlónum. Þannig má hugsa sér að stækka þurfi virkjanir, t.d. bæta við hverflum, án þess að breyta vatnsmiðlun/vatnsöflun fyrir viðkomandi virkjun. Munurinn í rekstrinum er að í stað þess að keyra viðkomandi virkjun á nærri föstum afköstum, verða þau mun breytilegri en ella.

Tenging af þessu tagi mun, ef vel tekst til, stórbæta nýtingu á því vatni sem L.V aflar með sínum miðlunum í dag. Lykillinn að öllu málinu er stórt hlutfall vatnsafls í íslenska orkunetinu.

Því er haldið fram að skynsamlegra væri að nýta orkuna hér heima til að skapa störf og styrkja innlendan iðnað. Fyrst er rétt að átta sig á því að ekki er endilega um stórkostlegan nettó útflutning á orku að ræða - væntanlega verður keypt á móti ansi mikið þegar verðið er lágt. Sæstrengur ryður því ekki út innlendum orkunotendum. En því miður er það þannig að með frekari uppbyggingu; stóriðju, iðnaðar eða jafnvel gróðurhúsarækt  - þá erum við að taka slag í samkeppni við Kínverja í álinu og iðnaðinum og suður Evrópu í gróðurhúsunum. Þetta er ekki beint fýsilegur hópur að keppa við - launalega séð.

Fólk hefur áhyggjur af því að raforkuverð hérlendis muni hækka með tilheyrandi atvinnuspjöllum verði sæstrengur að veruleika. Í því samhengi er rétt að benda á að stærstur hluti heimila og fyrirtækja fær bróðurpart sinnar orku frá hitaveitu, en alls ekki raforku. Jafnvel þó svo að raforkuverð hækki eitthvað (sem þó er óljóst) þá erum við ansi vel í stakk búin að takast á við það, þökk sé hitaveitunni. Köld svæði eru augljóslega annað mál og grípa þyrfti til ráðstafana fyrir þau ef raforkuverð hækkar að ráði.

Helsti vandinn við þetta verkefni er að það er líklega ekki hægt að byrja smátt og láta reynsluna ráða framhaldinu. Fyrsta skrefið verður risastórt og eins fallegt að það verði rækilega rannsakað og vandlega undirbúið. 


mbl.is Fjölbreytt og góð áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er engin lausn að banna verðtryggingu?

Nokkrar athugasemdir:

Verðtrygging færir fjármuni frá skuldurum til lánadrottna og eykur um leið peningamagn í umferð sem almennt er viðurkenndasti verðbólguvaldur hagfræðinnar. Nokkuð sem ætti að taka til athugunnar í ljósi stöðu gjaldmiðilsmála hérlendis.

Vísasta leiðin til að keyra upp verðlag á hlutum sem eru í takmörkuðu framboði, eins og t.d fasteignum, er að auðvelda aðgengi að lánsfé. Fyrirkomulag verðtryggðra lána til fasteignakaupa felur raunverulegan lántökukostnað fyrir lántakendum og ýtir undir lántökur sem eru þeim ofviða með lágri mánaðarlegri greiðslubyrði í upphafi. Þetta keyrir upp verðlag á fasteignum. Auðveld er að færa rök fyrir því að t.d í USA væri þetta lánafyrirkomulag kallað "lygalán". Þetta stangast á við hugmyndir um neytendavernd og er síðan sjálfstæður þenslu- og verðbólguvaldur.

Ríkið og fjármálastofnanir eru varin fyrir verðbólgu með verðtryggingu og hafa því ekki beina hagsmuni - til skemmri tíma a.m.k - að halda verðbólgu í skefjum. Flestir eru sammála um að engum sé til að dreifa sem ráða meiru um verðbólguþróun en einmitt þessum aðilum! Hér liggur verulegur verðbólguhvati grafinn.

Ítrekað hefur verið rakið hvernig víðtæk notkun verðtryggingar geldir stjórntæki Seðlabankans - stýrivextina - til að hafa áhrif á þenslu og verðbólgu. Svo rammt hefur kveðið að þessu að sagan sýnir að þetta stjórntæki Seðlabankans er að heita má gagnslaust. Fyrir því eru þó vissulega fleiri ástæður.

Sagan geymir síendurtekin og óteljandi dæmi um skráning eða nafnvirði gjaldmiðla fer gjörsamlega úr sambandi við raunveruleikann. Það er saga nútíma peningakerfisins. Í kjölfar slíkra atburða fylgja kreppur, gjaldþrotahrynur, verðbólguskeið og fleira skemmtilegt. Niðurstaðan er alltaf sú sama - verðmæti sem voru aldrei til skila engum arði. Óborganlegar skuldir fást ekki greiddar. Verðtrygging breytir því ekki.

<o>

Af ofansögðu má vonandi ráða að þjóð sem er í vandræðum með eigin gjaldmiðil (fyrir nú utan allt hitt) ætti að íhuga það mjög alvarlega hvort ekki væri skynsamlegt að draga sem allra mest úr notkun verðtryggingar.

Loks er hér tillaga: Landsfundur Sjálfstæðisflokksins sem nú stendur yfir leggi próf fyrir fundarmenn - þeir skili útreikningum á verðtryggðu annuitets láni til 40 ára á servíettu og hafi til þess eina klukkustund. Niðurstaða prófsins verði síðan höfð til hliðsjónar þegar metið er hvort að verðtryggð lán séu boðleg almennum neytendum sem valkostur á frjálsum markaði.

Ps:

Hér verður ekki farið út í aðalatriði, eins og t.d hversu von- og vitlaus sú hugmynd er að ætla að verðtryggja og vaxtareikna fjármuni í kerfi sem byggir á ósjálfbærum væntingum um hinn endalausa veldisvöxt hagkerfa. Sem er að sjálfsögðu fullkomlega galin hugmynd í takmörkuðum heimi. Bæði í bráð og lengd.

 


mbl.is Engin lausn að banna verðtryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri mættu fylgja fordæmi Magnúsar

Þetta er ljómandi góð ádrepa hjá Magnúsi. Sjaldgæft að blaðamenn fjalli opinskátt um það brothætta glerhús sem þeir starfa innan. Það eina sem ég dreg í efa í grein Magnúsar er raunverulegt sjálfstæði ristjórnarinnar - það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að valda- og hagsmunaöfl láta sér ekki muna um að tapa stórfé á fjölmiðlum ár eftir ár. Til einhvers eru hrútarnir skornir.

Í tilviki Morgunblaðsins er svarið alveg augljóst. Vonandi lætur enginn blaðamaður hér sér til hugar koma að rita svipaða grein og Magnús. Vissara að mæta frekar í afmælið hjá Hannesi.


mbl.is Jón Ásgeir reynir að þrýsta á blaðamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næst á dagskrá í fjármálakreppunni: Gjaldmiðlastríð

Öfugt við það sem stýrimenn heimsins halda á lofti í heimspressunni siglir fjármálakreppan sem hófst 2007 áfram á fullum þunga. Eðlilega - fjármálakerfið fór á nasirnar og það verður akki endurreist í óbreyttri mynd. Einmitt þannig enda öll ósjálfbær kerfi - merkilegt nokk! Spurningin er einungis hversu lengi er hægt að sigla milli brimskaflanna áður en brotsjór færir þau í kaf. Gríðarlegum skuldum bankakerfisins hefur verið velt yfir á skattgreiðendur hins vestræna heims, ekki síður hafa seðlabankar tekið ógurlegt magn lélegra skuldapappíra á bækur sínar í skiptum fyrir lán til fjármálakerfisins - og halda því þannig á floti.

Bandaríkin eru búin að endurfjármagna sitt bankakerfi og eftir situr alríkið með ríkisrekstur í uppnámi; sumir segja það endanlega komið á hausinn enda fjármagnar bandaríski seðlabankinn fjárlagahalla upp á um 1000 milljarða dala árlega. Það kalla þarlendir fjárfestar peningaprentun og spyrja að leikslokum!

Evrópa aftur á móti hefur enn ekki endurfjármagnað sitt bankakerfi, en þess í stað blásið upp björgunarsjóð. Sá sjóður er reyndar galtómur eins og bankakerfi álfunnar og lifir einungis á trausti bakhjarla hans sem eru ríkissjóðir aðildarríkjanna. Því miður hefur engu verið reddað í vondri stöðu jaðarríkja sambandsins sem eru kyrfilega gjaldþrota og verða það áfram um fyrirsjáanlega framtíð. Ekkert nema stórkostleg niðufelling skulda getur bjargað þeim - niðurfelling sem mun ríða bankakerfi álfunnar að fullu.

Japanska ríkið er sem kunnugt er gjaldþrota og þar mun draga til verulegra tíðinda innan örfárra missera þegar spilaborgin riðar til falls. Það haldreipi um að skuldir Japanska ríkisins séu ekkert vandamál af því að þær séu fjarmagnaðar með innlendum sparnaði er um það bil slitið. Innlendur sparnaður og afgangur af utanríkisviðskiptum hefur hingað til haldið fleyinu ofansjávar, en sú þróun virðist komin á endastöð. 

Öll eiga þessi svæði það sameiginlegt að gengisfelling mundi lappa upp á bókhaldið innanlands. Samkeppnishæfni og útfluningur eru jú háð skiptagengi gjaldmiðla og þrátt fyrir hjal pólitíkusa um að þeirra gjaldmiðill sé sterkur og stöðugur þá þrá þeir fátt heitar en að hann falli svolítið í verði til að "samkeppnishæfnin" batni, útflutningur aukist og að skuldir í heimagjaldmiðlinum falli að raunvirði.

Eftir kosningarnar í Japan hefur jenið hríðfallið í samræmi við yfirlýsingar nýrrar stjórnar, í takt hefur hlutabréfamarkaður í Japan hækkað verulega. í kjölfar sirkusins vestra um fjármálahamarinn hefur bandaríkjadalur gefið talsvert eftir gagnvart helstu gjaldmiðlum. Allt er það gott og blessað, fyrir utan að samkeppnisaðilarnir eru ekki ýkja hressir. Þannig kvartaði Jean-Claude Juncker forseti hóps fjármálaráðherra ESB yfir því í gær að evran væri orðin of sterk! Bloomberg segir frá áhyggjum rússa um að gjaldmiðlastríð séu yfirvofandi. http://www.bloomberg.com/news/2013-01-16/russia-says-world-is-nearing-currency-war-as-europe-joins.html

Í dag lýstu síðan þjóðverjar því yfir að þeir ætluðu að færa umtalsverðan hluta gullforða síns frá Bandaríkjunum og heim. Einnig ætla þeir að taka heim þann hluta gullforðans sem geymdur er í Frakklandi. Spurningin er - hvers vegna vilja þjóðverjar taka gullforða sinn heim til þýskalands núna? Getur verið að þeim þyki það betra og öruggara en að geyma hann erlendis.. hvers vegna skyldi það nú vera? Þeir voru varla búnir að sleppa orðinu þegar CDU flokkurinn í Hollandi lýsti því yfir að þeir ættu að gera slíkt hið sama. Spurningin er hvað gerist þegar traustið milli hinna stóru seðlabanka, milli G10 ríkjanna þverr. Bill Gross, forstjóri PIMCO - stærsta fjárfestingasjóðs veraldar varpaði þessu fram á Twitter í gær eða fyrradag: "Gross: Report claims Germany moving gold from NY/Paris back to Frankfurt. Central banks don’t trust each other?"

Hingað til hefur hruni fjármálakerfisins verið afstýrt með samhæfðum aðgerðum helstu seðlabanka - sem margir telja raunar að sé einungis plástur á skotsár og frestun á einhverskonar stórkostlegu uppgjöri fjármálakerfisins - jafnvel hruni - svo gripið sé til þess leiðinda orðs. Ef traustið þverr eins og nýlegar aðgerðir benda til þá getur dregið hratt til tíðinda.

Góðu fréttirnar eru að við erum enn í gjaldeyrishöftum! Enn betri fréttir eru að íslenska stjórnmála- og hagfræðingastéttin virðist grunlaus um þessa miklu alþjóðlegu framvindu og reynir ekki að ræða stöðu Íslands eða viðbrögð við henni. 

Guði sé lof! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sitt lítið af hverju

Höfundur

Ólafur Eiríksson
Ólafur Eiríksson
Óbreyttur
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • hjólhýsi
  • ...dsc00019
  • ...dild_888966
  • ...thusundkall
  • ...slit_877880

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband