Færsluflokkur: Bloggar

Ástæðulaus ótti um hlutverk Evu Joly

Sigurður G. Guðjónsson sendir frá sér hugleiðingu á pressunni um Joly sem hann kallar; "She ain´t a Jol(l)y good fellow".  

Grein Sigurðar byrjar illa því að í upphafi hennar er rangfærsla.

Þjóðin heillaðist af málflutningi Joly, enda sagði hún að endurheimta  mætti  fjármuni, sem geymdir væru á fjarlægum eyjum og væru ávöxtur afbrota óheiðarlegra íslenskra bankamanna og útrásarvíkinga.

Hún sagði þvert á móti það ólíklegt að endurheimta mætti fjármuni svo nokkru næmi. Það var því eitthvað annað sem fólk hreifst af í málflutningi hennar.

Sigurður segir í greininni að hún sé; "hin nýja íslenska gyðja réttlætisins"  Á pressunni er líka grein eftir Ólaf Arnarson um Evu Joly sem byrjar á orðunum. "Alltaf þurfa Íslendingar að missa sig í tóma vitleysu." og eftir umfjöllun á því hvernig íslendingar missa sig í vitleysu segir Ólafur; "Við spyrjum engra spurninga um Evu Joly. Við trúum á hana. Ekki bara trúum við á hana – við tilbiðjum hana." 

Báðir teikna þeir Sigurður og Ólafur upp trúarlega mynd af áliti almennings á Evu Joly og hafa þar nokkuð til síns máls, en sneiða samt hjá aðalatriðinu. Eva Joly sagði nefnilega það sem svo margir höfðu sagt áður að hér þyrfti stórkostlega rannsókn með stuðningi erlendra sérfræðinga á banka- og hringrásarævintýrum síðustu ára. Samkvæmt hefðinni er furðu auðvelt að hunsa almannaróm á íslandi og þumba honum í farveg ofan í glatkistuna jafnvel þó að um augljós réttlætismál sé að ræða. Sú aðferð reyndist ófær eftir að Eva Joly tók undir fullum hálsi í Silfri Egils, þá var ekki unnt að þumbast lengur. Hún er því einskonar ísbrjótur vilja almennings inn í vök íslenskrar refsivörslu. Það er hennar helsta hlutverk.

Það skiptir litlu hvort að hún skilur innansveitarkróniku íslensks réttarfars, kann sig í hrútastíu íslenskra lögmanna, eða lætur einhver ummæli falla sem eru of sönn til að vera góð. Það verður annað fólk sem sér um framkvæmd rannsóknarinnar og mögulega saksókn mála. Því er engin ástæða til að óttast um að ekki verði farið að íslenskum réttarvenjum og þarf enga naflaskoðun á Evu til þess eins og Ólafur leggur til. Á meðan hún gegnir hlutverki ísbrjótsins er alveg upplagt að kalla hana gyðu íslensks réttlætis. Í því felst meira raunsæi en átrúnaður. 

 

 


Nei hann vill ekki ráða hana

Af fréttinni má ráða að hann ætlar að sitja sem fastast og grínast með að ráða Evu Joly; sem sölumann á plani.

Ég skildi Evu þannig að hún vildi að hér yrði bara einn saksóknari sem væri hafinn yfir vafa og hefði yfirumsjón með þremur til viðbótar. Þetta hringl nú með Valtýr í vanhæfisvandræðum, sérstakan saksóknara við hliðina á honum er plástrastúss sem þýðir ekki að flækja meira - að því er virðist eingöngu til að menn geti haldið í stólana sína.

 

 


mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og skessan í gatinu

Miklir menn erum vér Hrólfur minn.

Hvað þarf eiginlega til að það svo mikið sem glitti í áhuga hjá íslenskum embættismönnum að vinna þjóð sinni gagn? Sumum virðist líða best ef þeir geta verið fyrir - rangur maður í röngu húsi á vitlausum tíma. Eins og allt snúist um þá sjálfa.

Það verður sífellt skiljanlegra hversvegna hér hrundi allt sem hrunið gat og hvers vegna það gengur akkúrat ekki neitt að snúa taflinu við. 

 

 


mbl.is Ríkissaksóknarinn hyggst ekki víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdragandi IceSave pilsfaldakapítalisma

Vísir er að lýsa áhlaupinu á innlánsreikninga Kaupþings í bretlandi í fréttum dagsins. Hvað sem segja má um íslensku bankana þá var það þetta áhlaup sem endanlega gerði út um Kaupþing.

Nú sitjum við í icesave súpunni sem kalla má pilsfaldakapítalisma. Þ.e almenningur blæðir fyrir banka. Innistæðutryggingakerfi EU var þó greinilega hannað með það að markmiði að þetta gerðist ekki. Sjá t.d  hugleiðingu Jóns Helga Egilssonar á pressunni.

4.    Tilskipun ESB um innstæðutryggingar kveður á um ríkisábyrgð.
Tilskipun ESB segir að aðildarríki beri að tryggja að til staðar sé tryggingarsjóður fyrir innstæðueigendur sem tryggi lágmarksvernd.  Ekkert er kveðið á um útfærslu eða hvað gerist ef sjóður tæmist.  Ekki er gerð krafa um ríkisábyrgð.

Hér er örstuttur aðdragandi þess að þetta breyttist. Northern Rock bankinn í bretlandi varð fyrir áhlaupi þegar kvisaðist út um slæma stöðu hans haustið 2007 og fékk hann neyðarlán, síðar varð hann þjóðnýttur eða í febrúar 2008. Þetta hafi sín áhrif á bankamarkaðinn í bretlandi þ.e samkeppnisgrundvöll banka. Þann 3. okt 2008 er staðan orðin svona. (Glitnir var þjóðnýttur 29. sept)

Worried savers have been pouring money into Rock, nationalised in February just months after the first run on a British bank since the 19th century. They have been attracted by a cast-iron government guarantee on its deposits introduced last year and designed to stem panic withdrawals.

Sama dag er þessi frétt á Bloomberg fréttaveitunni:

Oct. 3 (Bloomberg) -- Prime Minister Gordon Brown's government brought forward plans to boost the backing for U.K. bank deposits after a stronger guarantee in Ireland prompted British savers to move their funds abroad.

The U.K. bank regulator raised the value of deposits it insures to 50,000 pounds ($88,500) from 35,000 pounds, scrapping a three-month consultation with banks on the issue. Some British savers sought sanctuary in Irish banks after Sept. 29, when the government in Dublin guaranteed 100 percent of deposits.

Brown hækkar innistæðutryggingarnar til að svara því þegar Írska ríkið tryggði allar innistæður í bönkum þar til að afstýra fjárflótta úr breskum bönkum yfir til Írskra. Breskir bankar voru heldur ekki hrifnir af aðgerum Íra. (úr sömu grein af bloomberg)

Banks in the U.K. say a decision by the Irish government to guarantee all bank deposits will distort competition at the same time authorities are struggling to cope with a seizure in global credit markets.

Aðgerðir breta við að bjarga Norhern Rock og ábyrgjast innistæður í honum hrundu af stað keðjuverkun sem var óstöðvandi, tryggja þurfti allar innistæður til að ekki yrði áhlaup. Þetta skapaði að sjálfsögðu ágreining innan ESB og þann 7. október gefur ECOFIN (efnahags- og fjármála strumparáð ESB) út 12 blaðsíðna kver sem fjallar um viðbrögð við bankakrísunni og er ansi fróðleg lesning.

While the exceptional circumstances prevailing at the moment have to be duly taken into account when applying the State aid rules to measures addressing the crisis in the financial markets the Commission has to ensure that such measures do not generate unnecessary distortions of competitions between financial institutions operating in the market or negative spillover effects on other Member States.

Ennfremur:

A significant distortion of competition may arise if some market players are excluded from the benefit of the guarantee. The eligibility criteria of financial institutions for coverage by such a guarantee must be objective, taking due account of their role in the relevant banking system and the overall economy, and non-discriminatory so as to avoid undue distortive effects on neighbouring markets and the internal market as a whole. In application of the principle of non discrimination on the grounds of nationality, all institutions incorporated in the Member State concerned, including subsidiaries, and with significant activities in that Member State should be covered by the scheme.

 Sama dag og þetta er gefið út var íslenska ríkið að þjóðnýta Landsbankann og í gangi áhlaup á Kaupþing og 10% innistæðna hreinsaðar út sem urðu bankanum endanlega að falli. Fróðlegt að velta því fyrir sér að í þessu ferli verður ofan á að innistæður séu ríkistryggðar í stað þess að sjálfstæðir innistæðutryggingasjóðir séu látnir duga. Viðbrögðin við kreppunni gerðu út um eðlilega samkeppni á breskum bankamarkaði og þvinguðu líklegast íslensk stjórnvöld til að líta eins á málið og ábyrgjast fyrir sinn hatt innistæðutryggingar þær sem enn er deilt um - sem dugði þó ekki til að bjarga bönkunum þegar upp var staðið.

Sérstaklega er athyglisverð klausan um að ríki sem grípa til aðgerða verði að huga að því að valda ekki nágrannaríkjum tjóni og taka tillit til dótturfélaga. IceSave var sem kunnugt er í dótturfélagi Landsbankans á bretlandi. Í þessari flækju allri er skiljanlegt að bretar hafi lítinn áhuga á því að útkljá hlutina fyrir dómstólum, það gæti orðið snúið.

 


Skilaboð Evu Joly voru hálfgert ísbað

Glæpir og refsingar eru mér afar neðarlega í huga,  líklega vegna þess að ég las upp kvótann af glæpasögum sem barn og unglingur. Til viðbótar bætist síðan við endalaus síbylja glæpa- og réttarfarsþátta í sjónvarpi sem er svo yfirgengileg að ég hef oft velt því fyrirmér hvort að það sé einhverskonar meðvitað plan í gangi að dæla því yfir landann eða vestrænar þjóðir yfirleitt - í uppeldisskyni. Þetta hefur haft þau áhrif á mig að ég nenni sjaldnast að hugleiða lengi meint afbrot eða annað slíkt sem snýr að glæpum og refsingu, ekki fremur en ég tolli yfir imbakassanum. Og ég er  lítið reiður út í svokallaða útrásarvíkinga eða annað fólk sem missti vit sitt og skynsemi síðustu árin í dansinum kringum gullkálfinn. Einhverskonar réttlætisdoði kannski?

Eftir viðtalið við Evu situr í mér einhver vangavelta sem ég næ ekki alveg utanum í bili. Ég var svo óheppinn að fá vísir að dellu fyrir hagfræði og peningamálum fyrir tæpum áratug eða svo og hef því fylgst nokkuð með ástandinu bæði hér heima og erlendis síðustu ár. Þegar nýir eigendur einkavæddu bankanna -sem þeir keyptu að hluta með lánsfé -  þustu út á íslenska "markaðinn" strax eftir kaupin og keyptu upp flest stærstu fyrirtæki landsins og hófu síðan að bjóða 100% húsnæðislán áttaði ég mig á því að það var eitthvað verulega bogið við hlutina. Ég get því ekki sagt að ég hafi notið góðærisins fremur má segja að það hafi kostað mig hluta geðheilsunnar að reyna að botna í því sem var hér að gerast, nærri viss lengst af að við værum að brenna niður húsið í veislunni. Það sem var ótrúlegast við þetta tímabil var fréttaflutningurinn og gagnrýnisleysið. Svo sterk var sefjunin í landinu - almennt séð- og svo gjörólík því hvernig maður skildi hlutina sjálfur að erfitt er að lýsa því í fáum orðum.

Ég vaknaði því ekki upp við vondan draum í bankahruninu. En ég lái engum sem vaknaði þá upp við vondan draum því að ég veit það manna best hversu sterk glansmyndin var. Ég man líka eftir því hversu erfitt var fyrir leikmenn að átta sig á stöðunni, hversu erfitt var að spyrja spurninga ef mann grunaði eitthvað og hversu hraustlega viss mannskapur sló niður allar kenningar um að eitthvað væri bogið við hlutina. Ég man að ég var sammála Danske Bank þegar hann gagnrýndi íslenska módelið en samt -hálfpartinn- sannfærðu bankamenn og stjórnvöld mann um að hér væri þrátt fyrir allt í góðu standi. Svipaða sögu má segja um aðra gagnrýni sem hingað rak á land erlendis frá.

Í kvöld mætir þessi norsk-franska kona í Kastljósið og stillir íslenskum ráðamönnum upp við vegg. Hún segist ekki ætla að staldra hér við eða leggja nafn sitt við rannsókn á málunum nema hún verði gerð af fullum krafti. Í þokkabót segist hún þurfa einn saksóknara á hvern banka og her endurskoðenda. Hún sendi þeim lögmönnum sem hafa efast um hæfi hennar og yfirlýsingagleði afar skilmerkilega kveðju og útskýrði að þeir væru að bjóða sig upp sem lögmenn fyrir mögulega sakamenn. Hún hefur áður látið þess getið að þetta sé líklega stærsta (mögulega) sakamál evrópu síðari tíma. Þessi kona lítur ekki út eins og grínisti og ég held að það sé varasamt að gera eins og margir að túlka framkomu hennar í sjónvarpi í kvöld sem pólitískt trikk til að ganga í augu landsmanna til að halda djobbinu. Ég sé ekki að hún hafi neina þörf á slíkum sýningum hér út í ballarhafi og hafi nóg annað að sýsla.

Hingað til hef ég gert ráð fyrir því að afbrot mætti finna eftir bankaveisluna og við gætum fengið svipaðar niðurstöður eins og urðu t.d í Baugsmálinu. Fjármálaheimurinn hefur þrátt fyrir allt verið giska seigur að planta ýmiskonar þægilegum hraðbrautum inn í lagaumhverfi vesturlanda síðustu áratugi og því komist upp með margt sem kalla má löglegt en siðlaust. Mér sýnist Eva Joly ekki á sama máli varðandi ísland og nú spyr maður sig hvort að réttarfarsmyndin hér hafi verið sambærileg glansmynd og sú hagræna síðustu ár. Kannski er það rétt eftir allt að hér hafi verið framdir stórglæpir sem spanna viðskipti, stjórnmál og e.t.v embættismannakerfið. Hvað veit maður, sagan á til að endurtaka sig.

 

 


Minnir á veruleikafirrtan ungling

Skefjalaus hallarekstur yfir langt árabil til viðbótar við banka-útrásarævintýrið er búinn að ganga frá efnahagslegri heilsu landsins og öllu lánstrausti í þokkabót.

Nú væri það auðvitað frábært að hafa efni því að geta fyllt allar risa-verslunarhallirnar af vörum og selt þær fram og til baka hér um hagkerfið með tilheyrandi "sköpun starfa" en vandinn er sá að megnið af þessum vörum þarf að greiða fyrir með útflutningi á okkar eigin framleiðslu.

Krónískur viðskiptahalli og skuldsöfnun lagast ekkert við að mæla hann í evrum.

erlendskuldastada_861015.jpg

 


mbl.is Blöskrar vinnubrögð Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta þýðir ekkert

Ef það er eitthvað sem okkur vantar þá er það dálítill slurkur af tiltrú erlendis og þessi kona er verulegur lykill að því. Til viðbótar er traustið í samfélaginu vægast sagt af skornum skammti og það verður að bæta úr því. Íslensk stjórnsýsla hefði síðan afar gott af því að fá hér inn skara af erlendum rannsakendum sem taka hlutna alvarlega.

Stuttur aðdragandi nauðsynlegra kosninga gerði að verkum að ekki varð næg endurnýjun á þinginu. En það er bara hluti vandans. Mörg síðustu ár höfum við fengið lýsingar af því hvernig alþingi virkar úr ýmsum áttum. Þegar nýir þingmenn mæta er byrjað á því að kenna þeim hvernig þeir eigi að haga sér og síðan tekur embættismannasmiðjan við að móta leirinn. Hefðin í þinginu er að það er veikt, einskonar eftirvagn framkvæmdavaldsins - sem er síðan sjálft í stöðugu uppeldi hjá ráðuneytum og allskonar innanstokksmunum í kerfinu sem hafa setið þar árum saman. Þeir kunna á hefðirnar og ákveða hlutina að verulegu leyti. Ef þessu kerfi þykir eitthvað ómögulegt þá þarf mikla pólitíska hörku til að breyta því.

Það tekur langan tíma að breyta hefðum, þar meðtalið ósiðum. Líklega þyrfti að rífa embættismannakerfið niður til grunna og byggja það upp aftur með nýjum stjórnendum á flestum póstum.


mbl.is Eva Joly íhugar að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Northern Rock?

Bretar vissu alveg um stöðu Landsbankans og IceSave, viðræður um að flytja hann í breskt dótturfélag áttu sér stað á vormánuðum 08. Vanhæfið var því jafnt þeirra og íslenskra stjórnvalda.

Eftir áhlaup á Northern Rock þá tryggja þeir sjálfir allar innistæður í honum og gefa út yfirlýsing um það 20 september. Þar með var úti um samkeppnishæfi íslensku bankanna í bretlandi þar sem innistæðueigendur fóru í kjölfarið að meta banka eftir því hvaða seðlabanki stóð á bak við þá. Með þessari aðgerð stuðluðu þeir að áhlaupi á t.d IceSave reikinga Landsbakans.

Ætli þetta standist samkeppnireglur á EES svæðinu?

 


mbl.is Valtur meirihluti í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundi gremst skilningsleysið

Það hefur verið einkenni stjórnvalda mörg síðustu ár að þau hafa komið algerlega af fjöllum í efnahagsmálum. Það verður að segjast eins og er. Ekki batnaði það við hrunið því að þau vanmátu stöðuna mjög gróflega, m.a af því að þau héldu að hér hefði allt verið í fína standi liðin ár. Samkomulagið við IMF ber keim af því, aðferðin við neyðarlögin líka. Síðan hefur staðan stórversnað.

Enn eru þau að vanmeta alvarleika stöðunnar sem er skrítið því að þau ættu að hafa haft nokkurn tíma til að velta fyrir sér hversu auðvelt verður að rétt af fjárlagahallann. Þau átta sig líklega ekki á því heldur að þessi alþjóðlega efnahagskrísa er ekki dæmigert samdráttarskeið sem gengur yfir á nokkrum misserum. Fiðluspil í erlendum fjölmiðlum um slíkt er annað hvort áframhald á sömu vanþekkingu, eða gagngert hannað til að reyna að efla bjartsýni. Nema hvorutveggja sé.

Fyrsta hryna þessa niðurbrotsferlis gekk mjög hratt yfir hér á Íslandi, stærð bankanna gerði það að verkum. En staða margra annarra þjóða er engu betri þegar upp er staðið þar tekur ferlið bara lengri tíma. 

Hvað snertir þessar eignir Landsbankans sem eru að mestu útlán til fyrirtækjakaupa [ABL] í Bretlandi þá er spurning hvort að ekki þurfi að afskrifa þau svipað og lánapakkana sem voru lánaðir til íslenskra skuldsettra yfirtaka síðustu ár - eftir að kreppan hefur bitið breta í afturendann af fullu afli. Ég tel að það yrði mikill lottóvinningur ef 70% innheimtast. 

Myndaserían í síðustu bloggfærslu ætti síðan að vera vísbending um að við séum ekki í góðri stöðu til að taka við frekari skakkaföllum. Jafn hroðalega og það hljómar að hafna þessum samningum þá eru þeir ófær leið engu að síður. Áhættan er allt, allt of stór. Það er líka spurning hvort að orðsporið versnar að ráði - í það minnsta hefur íslandi verið lýst sem gjaldþrota ítrekað í fjölmiðlum um allan heim síðustu mánuðina.

Svakalegasti afleikur síðustu mánaða var að setja aðild að ESB á dagskrána, það dró alveg tennurnar úr okkar vígstöðu í þessum ólgusjó. Og sundraði þjóðinni í ofanálag.

Gleymum því samt ekki að stjórnmálamenn eru ekki í öfundsverðri stöðu og reyna vafalaust að gera sitt besta.

 


mbl.is Blekkingar, heimska og hótanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórabóla - myndasaga um skuldavæðingu

Eru frekari erlendar lántökur hluti af endurreisn?

Þessi spurning útheimtir skýringar á því hver vandinn er, hvernig varð hann til og þá í framhaldi hvernig er best að leysa hann? Það er fróðlegt að skoða víðara samhengi en bara útrásina. Athugið að það er hægt að stækka myndirnar með því að smella á þær. Þær eru flestar fengnar úr nýjasta hefti Peningamála seðlabankans.

 

skuldatryggingaralag_859205.jpg

Íslendingar fá hvergi lán nema fyrir tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sætta sig því við að taka ábyrgð á 650 milljarða IceSave til að komast í erlent lánsfé. Ástæðan fyrir því að enginn vil lána okkur er að öllum líkindum sú að tiltrúin á því að við getum endurgreitt er lítil. Skuldatryggingarálag ríkisins talar sínu máli, alþjóðamarkaðir heimta háa ávöxtun gegn því að tryggja skuldir ríkisins. Haustið 2007 byrjar að halla á ógæfuhliðina þegar krísan byrjaði erlendis. 

 

 

 Hallarekstur á viðskiptum við útlönd

vidskiptajofn_859206.jpg

Hér er mynd sem sýnir afgang af viðskiptum við útlönd frá því um seinna stríð. Íslenska hagkerfið hefur verið að vaxa gríðarlega á þessum tíma og í sjálfu sér ekkert athugavert við að það sé öðru hvoru einhver halli á viðskiptum við útlönd - t.d þegar ísland er að fjárfesta í framleiðslu sem aftur skapar auknar framtíðartekjur. Það er áberandi allra síðustu ár hvað hallinn er mikill í sögulegu samhengi og mætti ætla að hér hafi verið fjárfest gríðarlega í verkefnum til útflutnings sem skapa auknar gjaldeyristekjur til endurgreiðslu á þessum hallarekstri. Súlurnar sýna stöðuna sem hlutfall af landsframleiðslu.

 Erlendar skuldir uxu hratt

erlendskuldastada_859208.jpg

Hér er erlend skuldastaða sem hlutfall af landsframleiðslu. Hreinar erlendar skuldir fara frá 20% og upp í 240% á tæpum þremur áratugum. Vorum við þá ríkari 1980 en í dag, eða vorum við nægilega dugleg við að byggja upp gjaldeyrisskapandi atvinnuvegi á móti skuldunum? Vandinn við að auka skuldirnar svo mikið sem hlufall af tekjum er augljóslega að einn góðan veðurdag duga ekki tekjurnar fyrir afborgunum og vöxtum. Það er þakið, eða e.t.v vendipunkturinn þar sem lánakjörin versna og vextir hækka og allt fer í steik. Það virðist sem það sé einhver vendipunktur í þessari þróun kringum 1996-7.

 

 

Og streymdu inn í hagkerfið gegnum bankana

utlanaflokkun.jpg

Útlán bankakerfisins jukust og með sívaxandi hraða síðustu árin og þetta lítur út eins og veldisvöxtur. Hvað sem því líður þá sést að hluti þessa erlenda lánsfjár streymdi út úr bankakerfinu og inn í hagkerfið. Og margfeldisáhrif bankakerfis/seðlabanka ungaði út krónuskuldum með undraverðum og sívaxandi hraða. Þetta er þó vöxtur í hrá-krónum og ekki leiðrétt fyrir verðbólgu. Dálítið magnað að á árunum 2004-2007 skuli útlán bankakerfisins innanlands fimmfaldast á fjórum árum. Það er líka verðugt rannsóknarefni hvernig í ósköpunum fólki gat dottið í hug að verðbólga væri á undanhaldi á síðustu árum - þegar flestir vita að aukið peningamagn í umferð er uppskrift að verðbólgu! Þá er það spurningin hvert þessir peningar fóru?

 

 

Follow the money - úrvalsvísitalan

urvalsvisitalan.jpg

Hér er klassískt dæmi um það sem gerist þegar ofgnótt lánsfjár leiðir til spákaupmennsku í hlutabréfum, þetta er úrvalsvísitala kauphallarinnar, í dag nær þessi kúrfa niður undir botn á skala grafsins og flest fyrirtækin sem voru í þessari vísitölu eru horfin á vit sögunnar, eða til skilanefnda bankanna öllu fremur. Þeir sem bentu á að við værum í alvarlegri hlutabréfabólu höfðu furðulega lengi rangt fyrir sér, en svo á skömmum tíma breyttist það og þeir höfðu hárrétt fyrir sér. Fréttir liðinna missera sýna að þessi hlutabréfabóla var keyrð áfram af lánsfé, bæði til einstaklinga og ennfremur fyrirtækja af ýmsu tagi.

Follow the money - íbúðarhúsnæði

husvisitala.jpg

En þessi ofgnótt lánsfjár flæddi ekki bara í hlutabréf, heldur líka inn á fasteignamarkaðinn og keyrði þar upp verðið. Verðlag á bújörðum, sumarbústaðalandi, lóðum af ýmsu tagi - einkum á S.V horninu - fylgdi sömu þróun. Þessi húsnæðisbóla sem hér var var raunar alþjóðleg og ótrúlega svipuð gröf má skoða allt frá Ástralíu til Írlands, Spánar, Bandaríkjanna og nánast um allan heim. Hún náði þó ekki til Þýskalands, Sviss eða Frakklands svo heitið geti. Okkar fasteignabóla er óvenju eitruð vegna fyrirkomulags íslenskra fasteignalána - sem veldur áhyggjum um framhaldið.


Og eftir standa heimilin með skuldirnar
skuldir-heimila.jpg

Eftir verðbólguskeið á níunda áratugnum voru íslensk heimili mjög lítið skuldsett. En þarna sést merkilega samfelld þróun sem hófst greinilega löngu fyrir útrásarævintýri.Þetta graf sýnir hlufallslegar skuldir og eins og áður sagði er þak á því hversu háar þær geta oriðið. Skuldir fyrirtækja, sjávarútvegsins (t.d út á óveiddan fisk) líta vafalaust eitthvað svipað út, sama þróun þar - skuldirnar allt of miklar.

 

 

 

 

  Önnur hlið á skuldum eru eignirnar

Hér eru síðan eignir landans, sem eru jú hin hliðin á skuldunum. Hætti einstaklingar og fyrirtæki að borga - eða geta ekki borgað skuldir sínar þá minnkar þessi kaka að sama skapi. Ríkið er þó viss milliliður sem eigandi bankanna. Verðtrygging og háir vextir stækka þessa köku stöðugt og auka um leið skuldir einstaklinga og fyrirtækja - öðrum er ekki til að dreifa að borga þær. Í þessu er eins dauði annars brauð.

Þetta gríðarlega ójafnvægi í hagkerfinu sem birtist hér í formi of mikilla skulda, eða of mikilla eigna eftir því hvernig á málið er litið, endurspeglar líka mikla tilfærslu auðs upp aldursskalann.   Almennt séð ætti verðbólga að vinda ofan af þessu ójafnvægi, en hér gerist það ekki vegna verðtryggingar og gengistryggingar á lánum. Ástandið versnar bara við verðbólgu. Þetta ójafnvægi er síðan mjög alvarlegt fyrir alla atvinnustarfsemi. Verðmætasköpunin í hagkerfinu er ekki næg til að borga allar skuldirnar/eignirnar. 

Yfir allmörg síðustu ár virðist vera sem íslenska hagvélin hafi verið knúin áfram með sívaxandi erlendum lántökum. Meiri lán þurfti stöðugt til að viðhalda veislunni. Lengi vel hefði verið hægt að snúa við blaðinu en eftir því sem á leið leit það sífellt verr út. Nú hefur það hinsvegar gerst og það á sama tíma og flestir mælar virðast vera fullir.  Það er því ekki skrítið að ríkisstjórnin leggi hart að sér við að útvega meira erlent lánsfé og að íslenskt atvinnulíf telji sig þurfa mikið af því.  Ég er geri athugasemdir við að kalla slíkt endurreisn, ég sé fátt sjálfbært á þessum myndum hér ofar og finnst það glórulaust að ætla að reyna að viðhalda þessu skuldasöfnunaræði.

Mér líst illa á að taka risalán til að auka gjaldeyrisvaraforðann bara til að reyna að falsa upp krónugengið til að halda aftur af verðbólgu. Slíkir sjóðir eiga það til að gufa upp afar skyndilega og nýtast einkum sem meðgjöf með þeim krónum sem vilja flýja landið. Að auka erlendar skuldir er síðan að auka á vandann en ekki leysa hann.

Það sem er síðan dapurlegast af öllu er að þessi skuldasöfnun var hreinn óþarfi. Ísland hefur alla burði til að vera í fremstu röð hvað snertir lífsgæði og óþarfi að reyna að taka þau að láni.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sitt lítið af hverju

Höfundur

Ólafur Eiríksson
Ólafur Eiríksson
Óbreyttur
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • hjólhýsi
  • ...dsc00019
  • ...dild_888966
  • ...thusundkall
  • ...slit_877880

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband