16.3.2010 | 18:36
Styður þessi uppgötvun Herúlakenningu Barða Guðmundssonar?
Sjá t.d; hér
Og svo meira hér
Þegar stórt er spurt.. ...
Keltneskt blóð í víkingaæðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2010 | 14:35
Óhreinu börnin hennar Evu
Ég set spurningamerki við þetta framtak. Hér eru nemendur tækniskólans meðhöndlaðir eins og réttlausar rollur. Hvort sem þeim líkar það betur eða verr þá verða þeir að sæta fíknifefnaleit. Fyrir langflesta þeirra er þetta gert án nokkurs tilefnis. Þetta eru niðurlægjandi aðfarir gagnvart nemendum svo ekki sé meira sagt.
Sjáið þið - lesendur góðir - fyrir ykkur hóp broddborgara sem sætta sig við fyrirvaralausa fíkniefnaleit á vinnustað, já eða bara einhversstaðar þar sem fólk kemur saman. Ég er ansi hræddur um að það mundi heyrast hljóð úr horni ef viðlíka leit yrði gerð á alþingi svo dæmi sé tekið. Ég ætla ekki að ganga svo langt að vitna bók Orwells, 1984. En við að verða vitni að þessu hvarflar hugurinn sem snöggvast til hennar.
Þegar ég var í þessum skóla, sem þá hét Iðnskólinn í Reykjavík var virðingarleysi gagnvart nemendum nokkuð ríkjandi í skólanum. Einkum af hálfu stjórnenda. Stundum þurfti að beita langvinnum fortölum og þrasi til að fá í gegn smáviðvik af hálfu skólans. Stífni, hroki og valdmennska voru því miður allt of einkennandi fyrir hann. Steininn tók úr þegar skólayfirvöld ákváðu að framlengja vorönn fram á mitt sumar vegna verkfalls kennara. Fyrir marga nemendur hefði þetta þýtt lok skólavistar því að þeir þurftu að stóla á sumartekjur til að kljúfa næsta vetur í skólanum. Þetta var ekki lánshæft nám. Að lokum sauð uppúr og nemendur fóru í verkfall og skólayfirvöld neyddust til að gefa eftir.
Nemendur þessa skóla eru líklega enn óhreinu börnin hennar Evu. Það virðist lítið hafa breyst.
Fíkniefnaleit í Tækniskólanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.2.2010 | 15:51
Réttlæti (andskotans?)
Það er hluti af starfi sjúkraflutningamanna að víkja til hliðar hefðbundnum umferðarreglum. Það er kallað forgangsakstur. Þetta er gert til að koma veikum og slösuðum sem allra fyrst undir læknishendur og það er beinlínis krafa á sjúkraflutningamenn að þeir gegni þessu hlutverki. Regluverkið heimilar þetta með dæmigerðum klausum um sérstaka aðgæslu, varúð o.s.frv.
Með öðrum orðum segir samfélagið við sjúkraflutningamenn. Keyrið eins hratt og þið mögulega getið af því að það hentar okkur vel - en farið varlega.
Þegar síðan eitthvað fer úrskeiðis - eins og það gerir alltaf öðru hvoru - þá eru sjúkraflutningamenn dregnir fyrir dómstóla og dæmdir af eftiráspekingum á þeim forsendum að þeir hafi ekki sýnt nægilega varúð, eins og virðist hafa verið raunin hér.
Ef litið er til almennra hugmynda um refsingar þá er ágætt að beita þeim vangaveltum á meint brot þessa ökumanns. Hverjum gagnaðist hraðaksturinn? Hagnaðist maðurinn af brotinu? Hefur dómurin forvarnargildi og þá fyrir hverja? Verðskuldar ökumaðurinn refsingu sakir mistaka sem hann virðist hafa gert við það eitt að sinna starfi sínu? Það er eitthvað dæmigert við þær ömurlegu starfsaðstæður sem sjúkraflutningamönnum eru búnar með dómum af þessu tagi. Öruggt má telja að viðkomandi missi starf sitt neiti hann að aka oftar gegn rauðu ljósi, eða yfir hámarkshraða.
Með lögum skal land byggja og ólögum eyða. Sé þetta mál sett í samhengi við nýlina atburði og dómhörku og refsingar það sem af er þá flokka ég þetta undir réttlæti andskotans. Ekkert minna.
Braut umferðarlög í neyðarakstri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.2.2010 | 09:37
Upplagt að rannsaka ákvörðun um stuðning við innrás í Írak
Engar blikur eru á lofti í efnahags- eða atvinnumálum landsmanna; rekstur hins opinbera, fyrirtækja sem og einstaklinga gengur vel og góður friður á vinnumarkaði. Ekki eru heldur neinar milliríkjadeilur sem orð er á gerandi. Almennt má því segja að það sé góður gangur í samfélaginu og því engin sérlega aðkallandi verkefni fyrir stjórnmálamenn. Að því sögðu er ekkert því til fyrirstöðu að vekja upp þessar deilur um Íraksmálið með tilheyrandi ræðuhöldum og vopnaskaki. Það gefur alþingismönnum og öðrum stjórnmálaskörungum kærkomið tækifæri til að skerpa á einbeitingunni og hvessa ræðubrandinn. Litlu skiptir þó þetta kunni að leiða til sundurlyndis, síst þurfum við meiri sættir í lognmollunni sem nú ríkir.
Nú er lag!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2010 | 19:53
Misvísandi fregnir af vígi ísbjarnar
Sem kunnugt er þá var ísbjörn felldur í gær í Þistilfirði. Talsvert gekk á í fjölmiðlum á meðan bjössi lék lausum hala. Umhverfisstofnun var m.a í kastljósinu og meðal fregna sem komu í gær voru t.d. þessar klausur.
Þetta er úr frétt mbl.is
[...]Ágætlega hafi gengið að fella dýrið, sem hafi verið komið í námunda við sauðfé rétt áður en það var skotið. Það var fellt um kl. 15:40 að sögn Umhverfisstofnunar. [...] Umhverfisstofnun segir, að ákvörðun um að fella björninn hafi verið tekin á grundvelli niðurstöðu starfshóps [...]
Hér frétt af visir.is
[..]Ekki er ljóst hvaða skytta það var sem felldi birnuna en hún var felld um leið og Umhverfisstofnun tók ákvörðun um að það væri það besta í stöðunni.
[...]Jón Stefánsson varðstjóri segir að hvítabjörninn hafi síðan verið felldur rétt fyrir fjögur í dag, nokkur hundruð metrum norðan við eyðibýlið Ósland. Björninn hafi verið lítill og hafi verið kominn í fé sem var á beit í nágrenninu. Hann hafi þó ekki valdið neinu tjóni, segir Jón. Þrjár skyttur voru kallaðar út til að fella björninn. Um leið og leyfi hafi fengist hafi hann verið felldur. [...]
Það var bóndi nærri Óslandi í Þistilfirði sem skaut hvítabjörninn í gær en hann hafði enga hugmynd um að ísbjörn væri í sveitinni. Lögreglan í Þórshöfn hafði áður hringt í alla bændur á því sem svæði sem birnan var. Aftur á móti náðist ekki í tvo bændur, sá sem felldi birnuna var annar þeirra.Hann var að með sauðfé nærri Óslandi þegar dýrin trylltust skyndilega. Skýringin kom fljótlega þegar Birnan kom aðvífandi. Sjálfur var bóndinn vopnaður veiðiriffli. Hann skaut birnuna tvisvar sinnum og felldi hana í öðru skotinu.
Þrjár skyttur eltu dýrið auk Jóns Stefánssonar, lögreglumanns á Þórshöfn. Þegar þeir komu á vettvang var birnan dauð.
Aðspurður hvort bóndinn hafi ekki orðið steinhissa á því að hafa fellt ísbjörn í sveitinni svarar Jón einfaldlega: Þú getur rétt ímyndað þér."
Það er augljóst að bóndi mætir birni og fellir hann umsvifalaust eins og vera ber. Einhverjar ákvarðanatökur hjá Umhverfisstofnun höfðu engin áhrif á þann gerning þar sem bóndi fékk ekkert veður af þeim. Hann vissi ekki einu sinni að bjarndýr væri á ferli í sveitinni. Ekki er einu sinni ljóst hvort að stofnunin hafði tekið ákvörðun fyrir eða eftir að bjössi var skotinn. Í því ljósi eru fréttir gærdagsins undarlegar og þessum frásögnum ber alls ekki saman. Hvers vegna skyldi það nú vera, féll bjössi í leyfisleysi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2010 | 16:55
Einn á móti hundrað eru hlutföllin
Það telst líklega til smámunasemi að benda á; að þetta glæsilega líkan af Titanic er í hlutföllunum 1:100 -ef marka má myndina - fremur en 1:1000 eins og segir í fréttinni.
Titanic var 269m á lengd og líkan í 1:1000 væri þá um 27 cm langt. Myndin sýnir mun lengra líkan, ég giska á tífalt lengra.
Smíðaði líkan af Titanic | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2010 | 15:24
Gott mál- notið Windows!
Því lengur sem Friðrik og aðrir vírusvarnasmiðir veita góða þjónustu því lengur tolla almenningur og fyrirtæki í Windows stýrikerfinu sem verður þá áfram skotmark; hakkara, netsvindlara, fikt-barna, glæpamanna, og jafnvel ríkisstjórna. Sem er gott að því leyti að þá fáum við sem notum alls ekki Windows, heldur t.d Linux áfram að vera í friði fyrir þessu liði og þurfum engar áhyggjur að hafa af vírusvörnum eða öðru netsorpi sem gerir Windows-notendum lífið leitt.
Fari fólk og fyrirtæki í stórum stíl að hópast yfir í Linux er hættan sú að árásir á það kerfi stóraukist með tilheyrandi vandræðum. Í guðanna bænum haldið því áfram að nota Windows!
Að allri kaldhæðni slepptri gekk MicroSoft hálfa leið í dag og varaði við notkun vefráparans IE6. Ég bíð spenntur eftir stund sannleikans hjá Microsoft, en hún kemur þegar þeir vara alfarið við notkun Windows í heild sinni.
Friðrik Skúlason lækkar verð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.1.2010 | 08:06
Er ekki nóg komið af þambi ógeðsdrykkja?
Almennt séð er ég afar hlynntur tímasóun. Þegar öllu er á botninn hvolft er lífið sjálft tímasóun í vissum skilningi. Tímasóun verður þó að fylgja viss metnaður að mínu mati. Það er þessvegna sem ég hef ekki getað horft á sjónvarp svo nokkru nemur síðustu árin. Þó að ég hafi að mestu sleppt því þá hef ég orðið þess áskynja að sú tíska hefur orðið til í sjónvarpi - einhversstaðar í helvíti geri ég ráð fyrir- að fá fólk til að mæta og þamba allskonar drullumall fyrir framan sjónarpsmyndavélar. Svokallaða ógeðsdrykki. Nú er það út af fyrir sig rannsóknarefni hvað er í hausnum á þeim sem þetta stunda, ennfremur hvort eitthvað sé í hausnum á þeim sem nenna að horfa á þetta aftur og aftur og finnst fyndið, en látum það vera.
Það versta í málinu er að þetta er að breiðast út og er orðið að íþrótt. Fremstur meðal jafninga hlýtur að vera Steingrímur J Sigfússon sem hefur náð slíkum tökum á ógeðsdrykkjaþambi að það sem honum er rétt hverfur eins og dögg fyrir sólu. Verri dæmi um menningarmengun úr sjónvarpi þekki ég ekki á síðari tímum. Svo er komið að ég hef orðið þungar áhyggjur af Steingrími og mér er alveg hætt að lítast á blikuna. Steingrímur er vissulega vel íþróttum búinn og vaskur maður; en þetta helvíti ætti enginn maður að gera að íþrótt sinni. Ekki fremur en brennivínsþamb eða dópneyslu. Steingrímur getur enda verið sallarólegur sem óskoraður meistari kjósi hann að líta á þetta sem íþróttakeppni. Ég veit ekki um neinn sem ógnar honum á toppnum, eftir að hann hefur þambað IMF, ESB og IceSave án þess að ropa að ráði milli skammta. Ég mæli með því að Steingrímur, og aðrir stjórnarliðar, lesi grein Hallgríms Helgasonar í Fréttablaðinu og hugsi mál í stað frekara ógeðsdrykkjaþambs. Til viðbótar legg ég til að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin í fullu samræmi við stjórnarskrá og þar hafni þjóðin brottnámi nauðsynlegra fyrirvara úr icesave samningunum með tilheyrandi bravör í boði forseta Íslands. Þegar búið er að nýta allan vind úr því ævintýri er hægt að setjast að samningaborðinu á ný.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2010 | 07:23
Þúsundasta greinin um Icesave eftir Hallgrím Helgason
Hallgrímur kemur með breiðsíðu í Fréttablaði dagsins um icesave málið. Og viðrar þar skoðanaskipti sín og þörfina á skoðanaskiptum annarra. Margt er gott í grein hans - sem er ákall til pólitískra samherja um endurmat á stöðunni.
Ég mæli með þessari grein Hallgríms fyrir þá sem ekki eru leslatir. Hún er í lengri kantinum, en líklega hefur Hallgrímur ekki mátt vera að því að hafa hana styttri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2010 | 18:24
Batnaði staðan við að losna víð Svía úr forsvari ESB?
Með því að sækja um aðild að ESB og leggja á það mál höfuðáherslu voru bretum og hollendingum afhentar þumalskrúfur á okkur í icesave deilunni. Til viðbótar þrýstingi á IMF virðast þeir einnig hafa notfært sér þetta - ella teldist efni fréttarinnar vart til tíðinda og óþarfi fyrir Össur að garfa þetta núna. Tengingin við ESB umsóknina lá síðan e.t.v gegnum Svía sem voru í forsvari ESB fram til áramóta en þá tóku Spáverjar við.
Svíar eru með stórt bankakerfi sem hefur mikil umsvif í Eystrasaltslöndunum, t.d Lettlandi. Sænsk/Lettnesku bankarnir lánuðu gríðarlega fjármuni í Lettland og sáu um að kynda upp þarlendan hluta hinnar alþjóðlegu fasteignabólu, fjármagna umsvifamikið brask með fyrirtæki og neyslu. Ekki ósvipað ævintýri og gekk yfir hér. Lánin voru að miklu leyti í evrum á meðan Lettland er með sjálfstæðan gjaldmiðil. Rétt eins og hér gerðust þau undur og stórmerki í Lettlandi að vandamálin hlóðust upp þegar sneyddist um gjaldeyri í hagkerfinu. Munurinn er þó sá að Lettland er að reyna að komast inn í myntbandalag Evrópu og er í gjaldeyrissamstarfi við ESB gegnum svokallað ERMII fyrirkomulag.
Lettar hafa fengið lán bæði hjá ESB og IMF með ströngum fyrirvörum um að þeir fjármunir renni einvörðungu til að efla gjaldeyrisvaraforða og styrkja bankakerfið. Almenningur í Lettlandi fær því gríðarlega feitan reikning þegar kemur að því að ríkið þarf að endurgreiða IMF og ESB þessi risalán, þar er nú blóðugur niðurskurður á ríkinu og mikið atvinnuleysi. Þar eins og svo víða annarsstaðar er feiknarlega mikið í húfi að almenningur taki möglunarlaust við reikningnum sem bankahyski og viðskiptaglæpamenn sáu um að hrúga upp á liðnum árum með braski sínu.
Einkavæddur gróði og ríkisvætt tap er alþjóðlegt stef í dag sem stjórnmálastétt flestra landa hefur sameinast um. Af mismiklum áhuga þó. Það er mjög vont fordæmi og hættulegt fyrir t.d sænska bankaeigendur ef sú hefð myndast að almenningur hafi eitthvað um það að segja hvort hann borgi skuldir óreiðumanna eða ekki. E.t.v skýrir það afdráttarlausa afstöðu Svía gagnvart íslendingum í icesave málinu!? Og í því ljósi er e.t.v þægilegra fyrir Össur að eiga við Spánverjana í forsvari ESB. Öfugt við Svía gætu þeir haft gagn og gaman af því að fá okkur sem fyrst inn í ESB.
ESB og Icesave aðskilin mál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.1.2010 kl. 04:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar