Viðrar vel til kattasmölunnar inn í ESB?

Það er athyglisvert að Þorsteinn Pálsson, Mörður Árnason og Sigurður Kári Kristjánsson skuli vera orðnir sammála um að kjósa þurfi sem fyrst á um tillögu þess efnis að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þessir menn eru nú ekki vanir að deila skoðunum um eitthvað sem viðkemur því.

Eins og ég skil málið hefur umræða síðustu daga skilað fram þeirri vitneskju að leggja verður fyrir alþingi - trekk í trekk - breytingar á stjórnsýslunni sem fylgja aðildarferlinu. Málið snýr ekki þannig að samninganefndir hjúfri sig í lokuðum herbergjum næstu misserin á meðan lífið gengur sinn vanagang á alþingi. Og skili að því loknu út "samningi" sem lagður verður í þjóðaratkvæði. Nei, alþingi verður að vera með í aðildarferlinu. Það þýðir að andstæðingar aðildar munu fá mörg tækifæri til að hindra það, sem og vonda samvisku yfir því að veita því framgang kjósi þeir svo. Útlit er fyrir að Jóhanna verði því að stunda meiriháttar kattasmölun meðal stjórnarflokkanna aftur og aftur þegar kemur að atkvæðagreiðslum til að keyra breytingar gegnum þingið eftir því sem ferlinu vindur fram. Jón Bjarnason Landbúnaðar- og Sjávarútvegsráðherra er mótfallinn aðild að ESB og kveinkar sér yfir því að þurfa að vinna aðildarferlinu framgang, sér þvert um geð. Það er skiljanlegt ef hann hefur ekki fyrr gert sér grein fyrir því hvernig þetta virkar.

Tillagan sem slík er einföld og afdráttarlaus. Samþykkt hennar yrði að sjálfsögðu sigur fyrir andstæðinga aðildar. Fullnaðarsigur. En hvað gerist ef hún verður felld - fær þá Jóhanna í hendur verkfærið sem hana vantar til að knýja VG til að klára með sér aðildarferlið? Verði tillagan felld má líta á það sem stuðningsyfirlýsingu alþingis við ferlið, óbeint að vísu.  Það er spurning hvort að hér sé ekki gullið tækifæri fyrir Jóhönnu. Að taka eina alvöru kattasmölun strax í stað þess að þurfa að rekast í sífelldum smalamennskum fram eftir öllu kjörtímabilinu. Hið síðara er raunar dæmt til að mistakast.

Einhverja kosti sjá þeir Mörður og Þorsteinn við að afgreiða þessa tillögu sem fyrst. Kannski viðrar vel til kattasmölunnar einmitt núna?


Skiptir framtíðin máli?

Saga peningakerfis sem byggir á vöxtum er saga hörmunga og ósálfbærni. Litlu skiptir hvort gjaldmillinn eru skeljar, gull eða pappír.  Eftir hvert "stöðugleikaskeið" tekur við niðursveifla og kreppa. Um þetta má lesa í gjörvallri mannkynsögu síðustu árhundraða. Í kapítalískum fræðum skilst mér að þetta heiti hreinsun markaðarins. En þetta er ekki markaðslegt fyrirbæri, heldur er þetta bein afurð vaxtaknúins peningakerfis. Ósjálfbærnin og óstöðugleikinn byggjast  á því að samfélög manna vaxa og dafna einungis um skamma hríð í veldisvexti, nokkuð sem reiknaðir vextir á peninga gera alltaf. Skuldir vaxa því hagkerfum ávallt yfir höfuð fyrr eða síðar nema reglulega komi fyrir niðurfelling skulda í kerfinu. Dæmi um slíkt má finna í trúarritum löngu horfinna kynslóða. (Vöxtur talinn í prósentum er hlutfallslegur vöxtur og kallast veldisvöxtur á máli stærðfræðinnar)

 Peningakerfi sem reikna vexti á peninga VERÐA að vaxa ella verða ekki til nýir peningar í ár til að borga afborganir og vexti frá því í fyrra. Rofni þessi keðja fer stjórnmálaástand viðkomandi hagkerfis í uppnám vegna óhjákvæmilegra gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja sem hafa ekki fjármagn til að greiða skuldir sínar - með tilheyrandi ólgu og óánægju í samfélögunum og kröfum um úrbætur (meiri hagvöxt eins og t.d fleiri virkjanir eða stóriðju í okkar tilfelli). Stjórnvöld bregðast síðan við niðursveiflunni á þann eina hátt sem þau kunna og geta - föst í hringavitleysunni - og gera hvað þau geta til að hefja nýjar framkvæmdir þannig að nýir peningar í formi útlána úr bankakerfum fái að hringsóla um hagkerfin og lina þjáningarnar. 

Þetta kerfi hefur aldrei virkað almennilega til lengri tíma og að tala um stöðugleika í sömu setningu og minnst er á þetta kerfi er í besta falli vanþekking eða gálgahúmor. Þetta fyrirkomulag, hins endalausa vaxtar, virkar einungis í umhverfi þar sem rými og tækifæri til (hag)vaxtar eru óendanleg. Séu þau það ekki kemur það óhjákvæmilega niður á vextinum, og þar með kerfinu.  Besta dæmið um góðan hagvöxt er eftir síðari heimstyrjöldina þar sem tvennt fór saman- Gríðarlegar framfarir í þekkingu og tækni ásamt feikilegum verkefnum við að byggja upp heim sem heimstyrjöldin hafði lagt í rúst. Þetta tvennt endaði kreppuna sem hófst 1929 og dugði til að kerfið virkaði yfir nokkra áratugi - nánar tiltekið þar til bandaríkin sprungu á limminu og aftengdu dollar frá gulli 1971. Síðan þá hefur leiðin legið niður á við og að óhjákvæmilegu hruni þessa ósjálfbæra kerfis. Kjalfestan undir því er jú hagvöxtur. Enda predika allir stjórnmálamenn - allstaðar- að það verði að vera hagvöxtur. Hagvöxtur er samt í eðli sínu ósjálfbær og til lengri tíma litið er hinn endalausi hagvöxtur fullkomið rugl. Vonlaus í takmörkuðum heimi, stenst engin rök.

Ekkert fyrirbæri í efnisheimi getur vaxið endalaust, ytri skilyrði hamla alltaf. Fátæklegar þeóríur fabúlera um að alheimur sjálfur geti vaxið endalaust og verði þá í restina dimmur og kaldur. Þetta eru Nota Bene. einu heimildirnar um eitthvað sem getur vaxið endalaust! Efnahagsumsvif manna sem ávallt þarfnast enn hraðari nýtingar á takmörkuðum náttúruauðlindum geta það alveg örugglega ekki. Hinn ótakmarkaði vöxtur gildir sem sé ekki um hagkerfi þar sem menn eru háðir takmörkuðum náttúruauðlindum.  Sjálfbært líf þeirra manna sem gengu út úr Afríku fyrir 90 þúsund árum - og hafa sannarlega þrifist allar götur síðan- á ekkert skylt við líf þeirra tæpu 7 milljarða sem nú byggja plánetuna í skjóli iðnbyltingarinnar. Forfeður okkar lifðu á þeirri orku sem náttúran færði þeim jafnharðan - við lifum á orku sem náttúran hefur byggt upp á óralöngum tíma og erum því að nýta gamalt forðabúr sem gengur til þurrðar fyrr eða síðar t.a.m. kol, olía og jarðgas, sem leika lykilhlutverk í fæðuöflun okkar, hnattvæðingu, framleiðslu o.s. frv. Án þessara orkugjafa væri samfélag manna gjörólíkt því sem við þekkjum. Flest bendir til þess að þeir muni ganga til þurrðar á komandi áratugum með áframhaldandi vexti í nýtingu þeirra. Afleiðingarnar fyrir nútímasamfélög eru ólýsanlegar að ekki sé talað um áhrfin á "hagkerfin" sem þrífast á sífelldri aukningu í hagnýtingu þessara auðlinda ( hagvexti). Vissulega eru til aðrir orkugjafar sem geta mögulega fleytt mannkyni langt inn í framtíðina EF finnst tækni til að nýta þá. En orka er ekki nóg til að knýja áfram milljarðamannkyn og hagvöxt í veldisfalli. Hráefni þarf líka og þrátt fyrir endurvinnslu hráefna gengur reikningdæmið alls ekki upp. Engan veginn og ekki næstum því.

Nær ekkert í okkar samfélögum er sjálfbært og allra síst orkunotkun okkar sem hefur með aukinni tækni gert okkur kleyft að auka mjög matvælaframleiðsluna. Óleystar eru margar gátur og sú sem er augljósust er að við erum að nota mjög takmarkaðar náttúruauðlindir (olíu og gas) til að keyra áfram okkar ósjálfbæru hagvaxtardrifnu samfélög. Eða eigum við að segja okkar hagvaxtarfrifna efnahagslíf sem fjötrar og skilgreinir okkar samfélag út í horn. Horn skuldadrifinna og ófrjálsra neysluþræla sem keppast við að hraða sem mest eigin endalokum með því að nýta takmarkaðar náttúruauðlindir sem fljótast í þágu hagvaxtar - algerlega án tillits til komandi kynslóða eða möguleika þeirra- undir þeirri hugmynd að tæknin muni redda þeim. Þ.e við hlýjum okkur við þá vitneskju - ef við á annað borð hugsum svo langt- að þeim mun takast það sem við gátum ekki og þau munu leysa þau verkefni sem við kusum að horfast ekki í augu við. Ábyrgt sjónarmið?

Sjálfbær framvinda mannkyns á engan stærri óvin en hagvöxt. Með hagvöxt (veldisvöxt) að leiðarljósi er engin framtíð fyrir mannkyn í þróuðum og tæknivæddum menningarsamfélögum - litið til lengri tíma. Engin!

Samfélög manna í dag eru ósjálfbært rugl. Hagvaxtartrúin er versta krabbameinið og undan henni sleppum við aldrei nema upphugsa peningakerfi sem virkar án hagvaxtar. Það er fyrsta skref inn í framtíðina. Ekkert af þessum einföldu sannindum á farveg í stjórnmálum nútímans. Þessvegna skiptir pólitískt raus dagsins harla litlu máli í hinu stærra samhengi.

Spurningin er hvort að hin lengri framtíð afkomenda okkar skipti okkur máli? Sumar trúarkreðslur predika að endalokin séu skammt undan og því óþarft að velta fyrir sér (ó)sjálfbærni manna eða framtíð mannkyns yfir lengri tíma - við munum verða frelsuð áður en þetta verður vandamál. Slíkar hugmyndir þykja mér sorglegri en tárum tekur og það fólk sem aðhlyllist þær er að mínu mati andlegir vesalingar. Hugmyndir seðlabankastjóra evrópusambandsins eru hvatning til áframhalds á ósjálfbæru rugli. Hugmyndir gjaldþrota hugmyndakerfis sem kaupir trúarmýtuna - hagvöxt- algerlega burstéð frá nokkru öðru.

Flest- ef ekki öll- viðfangsefni íslenskra stjórnmála s.l ára hverfa í skuggann fyrir mikilvægi þeirra þátta sem hér hafa verið rakin. Þau eru öll aukaatriði í þessu samhengi og varða framtíð okkar og afkomenda okkar litlu. 


mbl.is Ríki verða að draga úr skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brosa Jón, brosa!

Ég hef lítið fylgst með borgarstjórnarferli Jóns en það er gleðilegt að hann skuli samhliða huga að félagslegum þroska borgarstjórnarfulltrúa. Hér er á ferðinni einskonar "first contact situation" þar sem lýstur saman ólíkum hugarheimi. Réttur og sléttur grínisti reynir að nálgast atvinnustjórnmálamenn sem eru hertir í íslenskri stjórnálahefð og víðlesnir í þrætubók. Frá þeirra bæjardyrum séð notar Jón alls ekki réttu verkfærin í leiknum. Hvernig var nú annars frasinn: aldrei að mæta með hníf í skotbardaga? Sem mætti kannski hnoða upp á nýtt í tilefni dagsins: ekki mæta með bros og einlægni inn í íslensk stjórnmál.

Vona að Jón brosi út allt kjörtímabilið. Annað væri uppgjöf.


mbl.is Sýni auðmýkt en fæ töffaragang á móti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andvana aðildarferli

Ég hélt að ég fylgdist sæmilega með en það er ljóst að ég skildi ekki hvernig aðildarferli að evrópusambandinu gengur fyrir sig. Og kannski skil ég það ekki enn.

Í gær hélt ég að Samfylkingin gæti duddað sér í aðildarviðræðum við ESB næstu misseri þó svo að VG og stjórnarandstaðan væru andsnúin aðild. Þannig yrði til aðildarsamningur  sem síðan yrði borinn undir þjóðaratkvæði. Reyndar væri þörf á breytingum og lagfæringu á íslenskri stjórnsýslu á meðan á þessu stendur. Og ég gat alveg séð það fyrir mér að þetta gæti gengið eftir.

Í dag sé ég þetta ekki svona.  

Það sem hét í gær "uppfærsla á stjórnsýslunni" heitir í dag að við tökum upp regluverk Evrópusambandsins í áföngum og hrindum því í framkvæmd. Þegar það er nokkurn veginn búið þá verður kosið um aðild.  Að mati ESB er þetta þriggja ára plan. En hér stendur hnífurinn í kúnni. Til að gera þetta þarf styrkan þingmeirihluta með aðild enda um viðamiklar breytingar að ræða í umdeildum málaflokkum eins og t.d landbúnaði og sjávarútvegi. Þessi þingmeirihluti er hvergi sjáanlegur og mér sýnist því ómögulegt að ríkisstjórnin nái svo mikið sem að hefja þetta ferli - hvað þá að ljúka því.

Nú er rétt að setja alla fyrirvara á að ég skilji þetta eins á morgun en í dag sýnist mér ferlið komið ofan í skurð áður en það hófst. Ekkert útlit er fyrir að aðildarsamningur verði til nema staðan gjörbreytist á alþingi og ekkert verður til að kjósa um að þremur árum liðnum eins og stefnt er að. 

 

Málið er dautt.

 

 


Samningaviðræður eða aðlögunarferli að ESB?

Ég tek undir með Hans Haraldssynibloggfærsla Egils Jóhannssonar þarfnast umfjöllunar. Mikið væri nú gott að fá einhverja niðurstöðu í þessar vangaveltur þannig að ekki fari milli mála hvernig aðildarferli Íslands að Evrópusambandinu vindur fram.

Óheiðarleiki eða óskhyggja kringum meintan krónustuðning evrópusambandsins?

Það sem helst hvetur íslendinga til að sækja um aðild evrópusambandinu er upptaka evrunnar, sem lausn frá krónuvanda, verðbólgu, okurvöxtum -- þið þekkið þessa umræðu.

Á blómaskeiði bankanna óx henni fiskur um hrygg enda ísland orðið að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Við fall bankanna og krónunnar náðu evruhugnmyndir nýjum hæðum og fleiri en áður töldu að við svo búið yrði ekki unað. Nú yrðum við að sækja um aðild að ESB og taka upp evru. Þetta var vissulega mikill byr í segl þeirra sem vilja ganga í evrópusambandið.

Á þessu var þó einn galli og hann praktískur. Staðan í fjármálum Íslands var þannig að að við vorum (og erum) ekki í nokkru standi til að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir upptöku evrunnar, ekki fyrr en eftir nokkur ár. Aðildarumsókn - til þess að geta tekið upp evruna sem fyrst - var því alls ekki knýjandi og ljóst að við yrðum að komast upp úr kreppuinni með öðrum leiðum. Upptaka evrunnar var og er framtíðarmúsík og réttlætti því ekki sem slík skyndilegan umsóknarleiðangur. 

Hvort sem það var af vanþekkingu eða beinlínis pólitískum refsskap þá fundu talsmenn aðildar svar við þessu; Þó svo að við getum ekki strax tekið upp evruna við aðild þá fáum við stuðning frá evrópska seðlabankanum við krónuna og því er ekki eftir neinu að bíða. 

Þetta segir Árni Páll Árnason þann 6. ágúst 2008 skömmu fyrir fall bankanna.

Ákvörðun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er mikilvægur þáttur í að endurheimta stöðugleika. Hún hefur þann ótvíræða kost að skapa fyrirsjáanleika og auðveldar þar með Seðlabankanum hraðari lækkun stýrivaxta í kjölfarið. „Fljótlega í aðildarferlinu komumst við inn í ERM-II gengissamstarfið og fáum þar með möguleika á stuðningi frá Evrópusambandinu til að verjast gengisóstöðugleika. Þar með væri kominn aukinn stuðningur við fjármálakerfið og bankana, þannig að löngu áður en við værum búin að taka upp evruna værum við komin með þá fjármálalegu umgjörð sem þarf til að treysta við efnahagslegan stöðugleika."

 Margir fleiri hafa slegið þessa nótu eins og t.d Mörður Árnason vorið 2009:

Stóra málið er auðvitað evran. Strax og ríkisstjórnin sendir af stað póstkortið um að við viljum semja breytist afstaðan til íslensku krónunnar. Hún verður ekki lengur efniviður í næstu eða þarnæstu áramótabrennu heldur vita menn hér og heima að hún breytist að lokum í evrur, og verður innan skamms varin með vikmörkum í samflotskerfi við gjaldmiðil Evrópusambandsins.

Fleiri dæmi verða ekki tilgreind hér en þau er víða að finna. Ef við drögum þetta saman er  hugmyndin sem haldið hefur verið á lofti; að í aðildarviðræðum eða strax við aðild þá fái Íslendingar inni í svokölluðu ERM II fyrirkomulagi sem á að mynda skjól fyrir vorn ástkæra og mjög svo laskaða gjaldmiðil. Þetta hafa ekki einungis stjórnmálamenn sagt heldur líka hagfræðiprófessorar  að ógleymdum evrópufræðingum.  Á þessu er búið að japla aftur og fram s.l misseri.

En gallinn á þessu er sá að ERM II fyrirkomulagið er í reynd lokaferlið fyrir upptöku evrunnar og þangað fara einungis inn þau ríki sem sýnt þykir að uppfylli öll skilyrði fyrir upptöku evrunnar að 2 árum loknum.  N.B, þetta er ekki val heldur prófun á því hvort að viðkomandi hagkerfi virkar eðlilega á því skiptagengi sem upp er sett! Seðlabanki viðkomandi aðildarríkis ber síðan hita og þunga af því að halda genginu á réttum stað og öldungis fráleitt að evrópski seðlabankinn leiki það hlutverk.

Hér lýsir Írskur hagfræðiprófessor áhyggjum sínum af þessu ferli sem ætti að varpa smá ljósi á um hvað það snýst:

 

Under the existing rules, a country must spend two years inside the ERM II mechanism before it can enter the EMU. Recent weeks have shown that even countries with excellent macroeconomic fundamentals are vulnerable to major currency shocks. In this new environment, it seems expensive to impose a two-year currency stability test on countries that wish to join the euro.

 

Hér er síðan klippa úr blaðamannafundi þar sem bankastjóri evrópska seðlabankans var spurður út í það hvenær Búlgaría gæti komist inn í ERM II


Question: My question is very similar to the one of my Romanian colleague. What is the earliest date that you think Bulgaria can join the ERM? I remember your lecture in Sofia a year and a half ago, when you said that sportspeople should only participate in the Olympics when they are prepared enough, so what is the state of our preparedness now and what needs to be done?

Trichet: It is an important question and I would give the same response as I already gave. It is good to enter when you are as fit as possible. I know that Bulgaria has done quite a lot of good work and we have to recognise that. The reforms are being pursued and real growth has been important, so Bulgaria is certainly to be congratulated for the results that have been obtained. On the other hand, it is clear that we still have imbalances in this country, including a very large current account deficit. So all this suggests a picture with strong points and weak points and we will see when the time comes what the position of the various authorities concerned, including of course the government and the central bank of Bulgaria, would be.

 

 

Bankastjóri evrópska seðlabankans lýsir þessu sem þraut fyrir þá allra hæfustu, einskonar ólympíuleikum og telur best að þau ríki sem reyna sig séu í sem allra bestu formi eftir að hafa tekið til í sínum málum og náð vöxtum og verðbólgu niður, stöðugum fjármálum hins opinbera o.s. frv.  Það er hreint ótrúlegt að sumir íslendingar kjósi að líta svo á að þetta lokapróf fyrir upptöku evrunnar sé tilvalinn bjarghringur fyrir ríki í gjaldeyriskreppu með allt niður um sig;  sem standi okkur til boða strax við aðild, ef ekki fyrr! N.B algerlega án fordæma og fullkomlega á skjön við ferli annarra aðildarríkja við upptöku evrunnar.  Enn er þessu er þessu slegið fram í íslenskri umræðu jafnvel eftir að sambandið vísaði aðildarþjóð innan ERM II á náðir alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Lettland). S.k.v íslenska hugmyndakerfinu ætti Lettland að sjálfsögðu að fá feit lán frá evrópska seðlabankanum - að svo miklu leyti sem unnt er að skilja þennan málflutning.

 

 

Ástæða þessara skrifa er frétt vísis sem segir frá því að nú leggur Össur Skarphéðinsson þunga áherslu á það í aðildarviðræðum við sambandið að Ísland fái stuðning við krónuna frá evrópska seðlabankanum. Það sem vakti athygli mína í fréttinni var að ekki er minnst á ERM II fyrirkomulagið margrædda, hinsvegar segir Össur.

„Þá reyndu menn að komast að niðurstöðu um með hvaða hætti Evrópusambandið og Seðlabanki Evrópu geti komið að því að dýpka íslenskan gjaldeyrismarkað. Það yrði strax partur að því að styrkja stöðuna hér heima og undirbúa upptöku evrunnar," 

Hér birtist skyndilega mikill vafi á því með hvaða hætti Evrópusambandið og seðlabanki Evrópu getur komið að því að "dýpka íslenskan gjaldeyrismarkað". Það er óhugsandi að Össur hafi ekki varpað fram þeim hugmyndum sem kollegar hans og fl. hafa sett fram hér heima um að Ísland fengi inni í ERM II. Á þessu má skilja að eitthvað hafi það vafist fyrir mönnum þar ytra. E.t.v af því að þeir eru ekki vanir að hella upp á kaffi með þvottavélinni?

Íslenskt rugl er óborganlegt og nú velti ég því fyrir mér hvort að óskhyggja hafi ráðið heitingum um stuðning evrópska seðlabankans við krónuna gegnum ERM II eða það hvort að vísvitandi blekkingum hafi verið beitt til að auka fylgis við aðildarviðræður við Evrópusambandið á fölskum forsendum. Lesendum er eftirlátið að meta hvort er verra.


Og útilokar innlenda bankastarfsemi ef við göngum í ESB(?)

Samkvæmt þessum forsendum getum við heldur ekki útbúið innistæðutryggingakerfi fyrir innlenda banka ef við göngum í ESB. Sömu annmarkar eru vegna smæðar innlenda markaðarins. Munurinn yrði (eftir dúk og disk) að við tækjum upp evru. En það breytir ekki málinu á annan hátt en að þá er hugsanlegt að erlendir bankar kæmu hingað og veittu þjónustu - ef marka má Þórólf.

Sé þessi vangavelta prjónuð áfram virðist hún girða fyrir bankarekstur smáríkja innan ESB þar sem of hátt hlutfall af öllum innistæðum þarf að vera í sjóði til að standa skil á innistæðum við fall eins megin banka í viðkomandi ríki. Gaman væri að beina þeirri spurningu til Þórólfs hverskonar hagkerfi getur blómstrað sem missir virðisauka af innlendri bankastarfsemi úr landi við að leggja niður eigið bankakerfi og skipta einungis við erlenda banka? Það er jú það sem hann er að leggja til.


mbl.is Gerir ómögulegt að vera í EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin lykt af wikileaks og meintum upplýsingaleka

Fyrir nokkru las ég frásögn af því hvernig hermaður í Írak afritaði og stal leynilegum upplýsingum um stríðsrekstur bandaríkjahers -m.a myndbandi sem síðar var birt á vegum wikileaks. Það gerði hann með því að brenna gögn á geisladiska í einhverju tölvuveri í Írak á vegum hersins. Sagan var ólíkindaleg, bæði tölvuverið sem slíkt, öryggismál og fl. 

Það er líka furðulegt að stofnandi wikileaks skuli geta ferðast um heiminn nokkuð óáreittur, rabbað við fjölmiðla og leikið lausum hala sé það tilfellið að hann hafi undir höndum viðkvæmar upplýsingar um stríðsrekstur bandaríkjamanna. Hernaðarlega og pólitískt viðkvæmar upplýsingar sem kunna að vera mjög óþægilegar fyrir þarlend stjórnvöld og e.t.v fleiri ríkja. Upplýsingar sem kunna að varða öryggi hermanna og almennra borgara sem starfa fyrir herinn. Hversu líklegt er þetta?

Það er líka athyglisvert að þær upplýsingar sem lekið hefur verið á vegum wikileaks um stríðsrekstur í Írak og síðar Afganistan innifela fátt nýtt ef nokkuð. Þær eru meira staðfesting á því sem flestir vissu. Nokkrir molar eru þar á meðal sem komast í fjölmiðla og valda hefðbundnu írafári og hneykslan - einkum fjölmiðlamanna sjálfra og stöku pólitíkusa sem fengnir eru til að tjá sig um málin- en engar alvöru bombur. Kannski eru þær ekki til og því ekki meðal þeirra gagna sem wikileaks hefur aflað.

Hinn möguleikinn er sá að hér sé á ferðinni einhverskonar leiksýning og wikileaks sé verkfæri til að stýra umræðu og almenningsáliti. Eða notað í þeim tilgangi. Mátulegum skammti af óþægilegum upplýsingum er lekið til að vekja traust á fyrirbærinu og koma því á kort fjölmiðlanna. T.d mætti taka drjúgan slurk af lítt merkilegum skýrslum og stimpla þær sem leyniskjöl og leka þeim síðan til hins mikla upplýsingafrelsara. Gera síðan upptækt vegabréf hans og fordæma verknaðinn opinberlega. Tilgangurinn gæti verið að fá fólk til að trúa því að það hafi séð allan óhreina þvottinn þegar raunin er allt önnur. Aðrar eins brellur hafa verið hugsaðar upp og tekist. 

Ekki veit ég hvort er tilfellið.

 


Öskufall á Selfossi-mynd.

dsc00019.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Smellið tvisvar á myndina til að stækka.

Viðbót.

hjólhýsi

 

 


mbl.is Askan fellur yfir Hvolsvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldgosið er þá ímyndarvandi eftir allt.

Skammt er að minnast þess að íslensk stjórnvöld og viðskiptalíf litu svo á að vandi bankanna -í aðdraganda hrunsins-  væri ímyndarvandi. Lagt var upp í kynningar og spunaherferðir víða um lönd; til andlitslyftingar. Sem betur fer þarf ekki lengur að deila um að þessu var öðruvísi farið og vandinn var af öðrum og mun alvarlegri toga. Ímyndarvandinn var innlendur heilaspuni og úr takti við veruleikann.

Nýverið vöknuðu evrópskir flugfarþegar upp við vondan draum þegar öskufall úr eldgosi í Eyjafjallajökli olli mestu röskun á flugsamgöngum á meginlandinu frá lokum seinna stríðs. Annað eins hefur flugbransinn ekki upplifað á friðartímum. Dögum saman voru flugsamgöngur lamaðar og sem dæmi um ástandið brugðu bretar á það ráð að ferja fólk heim með herskipaflota. Enn sér ekki fyrir endann á þeirri flækju sem eldgosið hratt af stað og ljóst að margir urðu fyrir fjárhagslegum skakkaföllum. Og enn gýs í Eyjafjallajökli. Til viðbótar komast þeir sem leita eftir upplýsingum um íslensk eldgos fljótlega að því að hérlendir vísindamenn búast hálft í hvoru við gosi úr Kötlu auk fleiri eldfjalla.

Þessu til viðbótar mætti forseti Íslands í viðtal á BBC og sagði eitthvað um eldgos og líkindi á Kötlugosi. Í kjölfar alls þessa hefur nokkuð borið á afbókunum ferðalanga hingað til lands. Einhverra hluta vegna kjósa sumir að færa þær alfarið til bókar hjá forsetanum á meðan Eyjafjallajökull sjálfur liggur óbættur hjá garði og fær engan heiður af uppistandinu. Af þessu má ráða að vandi ferðaþjónustunnar sé ímyndarvandi í boði forsetans en ekki eldfjallið í bakgarðinum sem lamaði flugsamgöngur í Evrópu eitt og óstutt í hartnær viku. Þessi frétt mbl.is endurspeglar sömu viðhorf.

Er til of mikils mælst að biðja um örlítið raunsæi - og vandaða fréttamennsku? 


mbl.is Dýrkeypt yfirlýsing forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sitt lítið af hverju

Höfundur

Ólafur Eiríksson
Ólafur Eiríksson
Óbreyttur
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • hjólhýsi
  • ...dsc00019
  • ...dild_888966
  • ...thusundkall
  • ...slit_877880

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband