27.5.2023 | 01:56
Leikrit um eyðileggingu Nord Stream gasleiðslanna enn á fjölunum
Líkurnar á því að Bandaríkin hafi staðið að baki þessum skemmdarverkum á Nord Stream 2 gasleiðslunum eru yfirgnæfandi.
Bandaríkin börðust gegn þeim frá upphafi og beittu meðal annars viðskiptaþvingunum á framkvæmdaaðila og stöðugum pólitískum þrýstingi á Þjóðverja að hætta við verkefnið. Það er auðvitað ákveðin vísbending. En þær eru fleiri: Sjálfur forseti Bandaríkjanna sagði í viðtali fyrir rúmu ári að ef Rússar færu með her inn í Úkraínu þá yrði engin Nord Stream gasleiðsla og aðspurður hvernig það mundi gerast þar sem leiðslan væri í Þýskri lögsögu sagði hann; ég lofa þér að við getum gert það!
Svo þetta er ansi skýrt hjá forsetanum. Fleiri háttsettir embætissmenn í stjórn hans sögðu þetta líka hreint út á þessum tíma. Þar á meðal Victoria Nuland sem er aðstoðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna og hefur haft mikið að gera með málefni Evrópu, einkum Úkraínu t.d. í stjórnartíð Obama og nú Bidens. Hér er hlekkur á hennar skilaboð í þessa veru
Þetta hlýtur að teljast mjög afgerandi afstaða hjá Biden stjórninni á þessum tíma! Eftir að gasleiðslurnar voru síðan sprengdar upp lýsti áðurnefnd Victoria Nuland mikilli ánægju með að þær væru nú 'hrúga af brotajárni á hafsbotni'. Utanríkisráðherran Antony Blinken sagði að skömmu síðar að eyðilegging leiðslanna skapaði mikilvæg tækifæri fyrir útflytjendur á Bandarísku gasi til Evrópu.
Seymour Hearsh er gamalreyndur blaðamaður. Fyrir um hálfri öld vann hann til Pulitzer verðlauna fyrir blaðamennsku þegar hann afhjúpaði fjöldamorð Bandarískra hermanna í My Lai í Vietnam stríðinu. Í kjölfarið átti hann glæstan feril á stórblaðinu The New York Times og tímaritinu New Yorker og átti hverja stór-fréttina á fætur annarri, meðal annars afhjúpaði hann njósnir Bandarísku leyniþjónustunnar innanlands, og hryllinginn í Abu Grahib fangelsinu sem varð alþjóðlegur skandall fyrir Bandaríkin. Fyrir vikið fékk hann fjölda viðurkenninga og hefur traustan sess sem einn öflugasti blaðamaður síðari tíma í Bandaríkjunum, með fjölda heimildamanna innan stjórnkerfis og stofnana Bandaríkjanna.
Fyrir nokkrum mánuðum braut Hearsh blað í sögunni um skemmdarverkin á Nord Stream þegar hann birti langa og ítarlega grein á vefnum Substack um rannsókn sína á málinu.
Þar rekur hann söguna um það hvernig æðstu ráðamenn í utanríkismálum Bandaríkjanna véluðu um að sprengja upp gasleiðslurnar.Samkvæmt Hearsh voru Bandaríkin búin að koma sprengjunum fyrir nokkru áður en Rússar réðustu inn í Úkraínu og sprengdu þær síðan upp nokkrum mánuðum seinna eftir að stríðið var hafið. Yfirlýsingar forsetans í klippunni hér að ofan voru því ekki út í bláinn , þegar hann segir þetta höfðu Bandaríkin þegar komið fyrir sprengihleðslunum.
Hér er viðtal Amy Goodman á Democracy Now við Seymour Hearsh um Nord Stream málið og fl.
Merkilegt sem það er, þá hefur grein Hearsh ekki komist í umferð í þeim fjölmiðlum sem dóminera fréttir á vesturlöndum. Þannig hefur stórblaðið The New York Times, hvar Hearsh starfaði um árabil og gerði garðinn frægan á árum áður, ekki birt grein hans eða tekið hann í vital! Né heldur öll hin sem við treystum á til að flytja okkur fréttir af því sem er að gerast í veröldinni. Það er áleitin spurning hvernig stendur á því þegar hafður er í huga ferill og tengingar Hearsh innan Bandaríkjanna, að ekki sé nú talað um sprengifimt innihald greinar hans.
Nei, það sem gerðist nokkru eftir að grein Hearsh flaug um allan heim á jaðarmiðlum, og að sjálfsögðu í fjölmiðlum utan 'vesturlanda' var að í vestrænu fréttapressunni kom fram þessi saga um einhverja útlaga á seglabáti sem sprengdu upp gasleiðslurnar!? Einhverra hluta vegna virðist sú saga hafa verið fréttnæmari en ítarleg grein Hearsh? Þegar sagan af seglbátnum er skoðuðu er hún með miklum ólíkindum á allan hátt, og ennfremur ekki studd nokkrum haldbærum heimildum. Hvers vegna í veröldinni er henni hampaði í vestrænum fjölmiðlum, en ekki sögu Hearsh, sem hefur þó hans trúverðugleika á bak við sig og margvísleg efnisatriði sem unnt væri að kanna betur.
Hearsh og raunar fleiri hafa sagt þá sögu að í persónulegum samtölum við blaðamenn á stóru fjölmiðlum vesturlanda segi þeir að það viti allir að það voru Bandaríkin sem sprendgdu upp gasleiðslurnar, en það megi bara ekki fjalla um það. Þar virðist vera einhver pólitískur ómöguleiki á ferðinni.
Hér verður ekki rakið það galna hagsmunamat að Rússar hafi sjálfir sprengt upp sínar eigin gasleiðslur. Ég tel það með öllu óþarft og það fólk sem trúir því mun varla taka neinum röksemdum frá mér um það. Í því samhengi er samt rétt að árétta að þegar leiðslurnar voru sprengdar upp, var mikilvægi þeirra líklega aldrei meira pólitískt séð. Á þeim tíma voru risin upp hávær mótmæli í Þýskalandi, einkum vegna hækkandi orkuverðs. Gasleiðslurnar sem gátu borið gnótt af Rússnesku gasi til Þýskalands hefðu getað orðið meiriháttar vogarstöng fyrir Rússa í samningum við Þýskaland. Með því að taka þær úr leik voru Bandaríkin að koma í veg fyrir að Þjóðverjar féllu í þá freistni að semja við Rússa um eitthvað í tengslum við stríðið í Úkraínu í skiptum fyrir gas, nokkuð sem gæti dregið úr svokölluðum stuðningi við hernaðinn í Úkraínu. Mögulega voru Bandaríkin líka að senda þjóðverjum skilaboð um það hverjir það eru sem ráða lögum og lofum á vesturlöndum og móta stefnuna gagnvart restinni af heiminum. Aumkunarverð skrif Der Spiegel sem rakin eru í viðhengdri frétt benda til að þjóðverjar hafi móttekið skilaboðin.
Sködduðu Úkraínumenn gasleiðsluna? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2022 | 23:36
Bellingcat stundar ekki rannsóknarblaðamennsku, heldur áróður.
Yfir mörg ár, á mörgum jaðarmiðlum hafa höfundar velt fyrir sér þessu undarlega fyrirbæri Bellingcat, sem er apparatið bak við tengda frétt. Niðurstaða margra er sú að þetta sé áróðurstæki í tengslum við Bresku leyniþjónustuna. Þessi saga nær nokkur ár aftur, eftir að fyrirbærið birti margar furðufréttir um ástandið í Sýrlandi sem reyndust vera ósannindi, ýkur og eða rangfærslur. Það þykir sérkennilegt að þessi meinti rannsóknarblaðamennskuhópur skuli ávallt spila sömu laglínur og yfirvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum í hernaðarbröltinu.
Hafandi lesið margt í þessum dúr legg ég mjög takmarkaðan trúnað á það sem stendur í þessari frétt. Áhugasamir geta smellt á eftirfarandi vefslóð og skoðað margskonar umfjöllun TheGrayZone um Bellingcat: https://thegrayzone.com/?s=bellingcat
Hér er brot úr einni þeirra, sem er æði sláandi:
While vehemently insisting that it is independent of government influence, Bellingcat is funded by both the US governments National Endowment for Democracy and the European Union. CIA officials have declared their love for Bellingcat, and there are unambiguous signs that the outlet has partnered closely with London and Washington to further the pairs imperial objectives.
Now that the media consortium has obtained access to high-tech satellites capable of capturing 50cm resolution imagery of any place on Earth, it is time to place these connections under the microscope.
To explore the relationship between Bellingcat and centers of imperial power, look no further than its officially published financial accounts from 2019 to 2020. According to these records, Bellingcat has accepted enormous sums from Western intelligence contractors.
Furðulega einhliða og áróðurskenndur fréttaflutningur af stríðsátökum í Úkraínu veldur mér þungum áhyggjum. Verst er að það heyrast eða sjást hvergi raddir friðar í vestrænu fréttapressunni. Það er engu líkara en að friður sé ekki á dagskránni. Að það standi ekki til að það verði nokkurskonar friður, að þessum hræðilegu átökum ljúki einungis með fullnaðar sigri yfir Rússum. Slíkur sigur er líkast til fullkomlega óraunsæ hugmynd og allar tilfæringar í þá veru munu kosta Úkraínu skelfinga í bráð og lengd.
Það er engu líkara en verið sé að selja íbúum vesturlanda þá hugmynd að friður sé ekki mögulegur og að samningaviðræður séu tilgangslausar, ef ekki hreinlega siðferðislega rangar!
Fyrir skemmstu birti lítill hópur Demókrata í Bandaríkjunum opinbera áskorun um friðarviðræður til að binda enda á stríðsátök í Úkraínu. Það gerðist eftir að nokkrir þáttakenda höfðu sætt hraðri gagnrýni meðal eigin stuðningsmanna. Sólarhring síðar dró þessi hópur áskorunina til baka og baðst forláts fyrir yfirsjónina. Það gerðist eftir hatrammar árásir stórra kanóna í Demókrataflokknum og úr stóru Bandarísku pressunni. Það er æði magnað að staðan sé þannig að það sé landráðum líkast að óska eftir friðarviðræðum.
Fullyrðingar nokkurra fræðimanna vestanhafs um að Úkraínustríðið sé Proxy stríð Bandaríkjanna við Rússa verða sífellt trúlegri. Það eru ekki sérlega góðar fréttir fyrir Úkraínu né heldur restina af heiminum, sem virðist vera að klofna í tvennt.
Slíkum átökum hefur sögulega séð alltaf fylgt gríðarlegu áróður af hálfu þeirra sem um véla. Í dag er okkur sagt að vara okkur á Rússneskum áróðri, ég sting upp á að við gætum okkur líka á vestrænum lygaáróðri. Það er nóg af honum þessa dagana.
Pútín er orðinn klikkaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.8.2021 | 18:10
Hver eru svo rökin fyrir bólusetningu barna?
Bólusetning við Covid, eins og hún hefur verið útskýrð hingað til gegnir tvíþættu hlutverki.
Hið fyrra er að bóluefni hindra smit og þar með smitun annarra og stuðla þannig að hjarðónæmi sem er vörn fyrir alla. Samfélagsleg vörn. Í ljós hefur komið að bóluefnin, bæði hér og t.d. í Ísrael eru nær algerlega gagnslaus í þessi tilliti. Enn er á reiki hvort finna megi tölfræðilega marktækni á Íslandi sem lyftir þessari gagnsemi upp af núllinu. Svo varla stendur til að bólusetja börn og ungmenni til smitvarna? Eins og stendur er ekkert sem bendir til að það geri nokkurt gagn.
Hið seinna er að draga úr áhrifum þeirra einkenna eða sjúkdóms sem fylgir Covid smiti. Nú vill svo vel til að börnum og ungmennum stafar nánast engin hætta af covid, alls engin í neinum samanburði í raun. Og samkvæmt rannsóknum er skýringin einfaldlega sú að ung ónæmsikerfi slátra þessari veiru tiltölulega létt. Iðulega án þess að eigandinn verði var við það. Svo varla er brýn þörf á að vernda blessuð börnin, sem hreinlega þurfa hana alls ekki.
Ofan í kaupið er komið í ljós að besta vörnin fyrir einstaklinga og samfélag er náttúrlegt ónæmi þeirra sem hafa sýkst af veirunni án bólusetningar (minna vitað um bólusetta). Fyrir utan örfáar lítt staðfestar flökkusögur um endursmit, er það nærri skothelt og langvirkt. Þessi hópur smitast ekki aftur, smitar ekki aðra og er að öllum líkindum með fjölvirkt mótefnasvar sem ræður við stökkbreytt afbrigði veirunnar næstu áratugi. Berið þetta saman við gagnsemina af bóluefnum þegar full-bólusett fólk hrúgast nú inn á spítala.
Því ekki að bólusetja börn gæti einhver spurt, svona just in case? Nei, með bóluefni enn á tilraunastigi og með þegar þekktar aukaverkanir og minna þekktar langtímaverkanir er það áhættumat ekki upp á marga fiska. Vafinn er ekki bólusetningum í vil. Mögulega ráðþrota heilbrigðisyfirvöldum en ekki börnunum.
Ég skora á yfirvöld og foreldra að leita eftir röksemdum í þessu efni og vega þær vandlega. Það er talsvert undir, ekki satt?
Stefna á að bólusetja börn í lok ágúst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.8.2021 | 19:58
Hvert er hlutfall bólusettra af innlögðum sjúklingum?
Þegar löngu, leiðinlegu og erfiðu ferðalagi þjóðarinnar gegnum covid virtist lokið og hjarðónæmi væri náð með bólusetningum þá blossar upp rétt ein smitbylgjan eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Í ljós virðist komið að bóluefnin gera lítið gagn í því að búa til hið langrþáða hjarðómæmi. Nokkuð sem er vondur skellur fyrir þreytta þjóð.
Ljóst er að við erum ekki komin á leiðarenda eins og margir héldu. Nú vitum við ekki einu sinni hvað er í raun framundan. Og ég heyri á fólki að þolinmæðin er heldur á undanhaldi.
Mitt mat á stöðunni er að aldrei hefur verið meiri þörf á gagnsæi og hispursleysi af hálfu heilbrigðisyfirvalda - ef hugmyndin er að þau og þjóð haldi áfram að ganga í takt. Þetta er orðin spurning um traust.
Núna er ekki tíminn til að fara að halda aftur upplýsingum sem margir bíða óþreyjufullir eftir. Stóra spurningin er vitaksuld, hver er verndin af bóluefnunum. Ég vil fá að vita það og vil sjá tölurnar héðan yfir það. Hráar og ómengaðar.
Svo, hvert er hlutfall bólusettra af innlögðum covid sjúklingum á Landspítalanum?
Einn á gjörgæslu í öndunarvél | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2020 | 17:27
Stjórnvöld vantar upplýsingar sem tæki tvo daga að afla.
Til að meta þá fordæmalausu stöðu sem er komin upp og ekki síður til að plana aðgerðir er algerlega nauðsynlegt að vita hversu margir eru smitaðir af Covid-19 á Íslandi. Eins nákvæmlega og kostur er á skömmum tíma.
Þetta væri hægt að gera með prófunum á fólki sem er valið af handahófi úr Þjóðskrá.
Ef við vissum það mætti þrengja mjög hringinn um raunverulega dánartíðni og hversu hátt hlutfall sýktra þarf heilbrigðisþjónustu. Þegar eru vísbendingar í Íslenskum tölum um að veiran sé ekki næstum því eins skæð og lengi hefur verið haldið fram. Hér eru t.d. engin 20% sýktra á spítala. Sama hvernig er metið og reiknað.
Ef við vissum það gæti vel verið að það kæmi í ljós að sú aðferð að ætla að bæla niður og hægja á smitinu sé ekki sú besta. Eftir allt þá er óljóst hversu langan tíma sú vegferð tekur enn óljósra hvað tæki við eftir það. Það er ljóst að röskun og efnahagslegur skaði af þeirri aðferð er gríðarlegur og því meiri sem tíminn lengist. Mögulega með verri heilsufarslegum afleiðingum en flensan sjálf fyrir landsmenn. Fyrir nú utan allt hitt.
Þessara upplýsinga verður að afla eins fljótt og kostur er. Hvort sem verkefnið yrði sett í hendur Íslenskrar Erfðagreiningar eða annarra. Sjónarmið um persónvernd eða vísindasiðferði hljóta að víkja fyrir nauðsyn í þetta sinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2018 | 20:09
Áróðursstríð
ÉG las fyrir nokkrum mánuðum talsvert kringum hinn alræmda tröllabúgarð í Rússlandi. "Internet Research Agency" Lauslega og eftir minni var fyrirbærið stofnað í kringum Úkraínudeiluna af fúlum minni háttar auðkýfingi í Rússlandi, sem var fjarskalega ósáttur við hvernig málsstaður Rússa var settur fram í vestrænu pressunni. Evrópska pressan fjallaði eitthvað um fyrirbærið löngu áður en það varð frægt í tengslum við forsetakosningarnar í USA.
Það var meðal annars rætt við starfsólkið og í ljós kom að þarna unnu alls 80 manns á vöktum við að hamara boðskapinn á fartölvur inn á samfélagsmiðlana. Enginn þarna virtist hafa sérstaka menntun í tölvutækni eða áróðri eða pólitískum bellibrögðum, þetta var fólk af atvinnuleysisskránni sem vann vaktavinnu fyrir 70 þús iskr á mánuði. Heilt yfir var á þessu viðvaningsbragur sem benti ekki til að um umfangsmikla aðgerð af hálfu stjórnvalda væri að ræða. Borið saman við tröllvaxnar leyniþjónustur og njósnastofnanir vestursins sem stunda viðlíka starfsemi gegn fjölda ríkja - einkum Rússlandi þessi misserin - er þetta fremur fáfengilegt, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið.
Sú hugmynd að 80 manns með takmarkað vald á ensku hafi við þessar aðstæður haft áhrif á niðurstöður forsetakosninganna í USA er hlægileg. Samanlagt hefur þessu fólki hugsanlega tekist að moka út jafn miklum áróðri yfir alla kosningabaráttuna og voldugar kosningavélar heimamanna hafa sent frá sér fyrir hádegi á meðal-degi. Þrátt fyrir gríðarlega leit tóks ekki að finna neinar tengingar milli þessa "rússa" áróðurs og aðgerða í raunheimum, nema hugsanlega 5 manns sem stóðu með mótmælaskilti á umferðareyju í Texas ríki. Aðspurð voru þau að tjá uppsafnaða óánægju áranna á undan og því líklega hreint ekki á valdi rússanna.
Tæknigeta Rússa er á mörgum sviðum óumdeild. Geimflauga og eldflaugatækni þeirra virðist vera í fremstu röð. Um þessar mundir eru þeir að selja fjölda ríkja S400 eldflaugavarnarkerfi sem þeir hafa lengi þróað og -ef marka má kaupendahópinn- það besta sem völ er á. Hernaðarsérfræðingar hvísla sín á milli að þeir séu komnir ríflega áratug framúr USA í þróun hljóðfrárra eldflauga og svo framvegis. Hinsvegar urðu Rússar tiltölulega nýverið fyrir umfangsmiklum tölvuárásum hvar innbrotsþjófar komust yfir gríðarlegt magn gagna frá stjórnvöldum, heilu gagnagrunnunum var hlaðið niður af vefþjónum þar meðtalið miklu magni viðkvæmra upplýsinga. Uppákoman var mjög vandræðaleg fyrir stjórnvöld og afhjúpaði að tölvuöryggi þarlendis var í hreinu skötulíki. Nokkuð sem bendir ekki til tæknilegra yfirburða eða sérstakrar færni Rússneskra stjórnvalda á tölvusviðinu sem gerir allar kenningar um víðækar tölvuárásir eða hökkun af þeirra hálfu ótrúverðugar.
Ef vinir vorir vestanhafs hafa áhyggjur af því að hrært sé í lýðræði ættu þeir að byrja áð því að líta í spegil. Þar næst ættu þeir að líta til Ísrael sem hrærir í innanríkismálum USA á degi hverjum.
Rússafóbía Breta og Bandaríkjamanna og grýlusmíðar gagnvart Rússum er löngu hætt að vera fyndin. Nær ekkert af því stenst skoðun.
Nýttu alla stærstu samfélagsmiðlana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2018 | 00:48
Hin fordómafullu skilaboð
Samkvæmt orðanna hljóðan og bókstaflegri merkingu er ekkert fordómafullt eða rasískt að segja sem svo; það er allt í lagi að vera hvítur. Það er nefnilega í góðu lagi að vera hvítur, svo hvert er vandamálið? Hér virðist það vera meint ætterni skilaboðanna fremur en skilaboðin sjálf. Að þau séu ættuð frá ætluðum kynþáttahöturum, svokölluðu Alt-Right í Bandaríkjunum og þá þarf ekki frekar vitnanna við, þessi saklausu skilaboð verða þar með fordómafull.
Ég hef ekki nennt að athuga ætternið sérstaklega en ég hef séð því fleygt að þessi skilaboð eigi rætur að rekja til gárunga á stórri spjallrás á netinu; 4chan. Tilgangurinn er væntanlega sá að sýna fram á að ýmsir fulltrúar hinna talandi stétta sem og menntafólks sjást ekki lengur fyrir í hatrammri baráttu sinni fyrir fullkomnum heimi.
Þeir sem ráðast harðast gegn þessum skilaboðum falla í gildruna og lenda jafnvel í þeirri vandræðalegu stöðu að verða sjálfir einskonar rasistar af því túlka má andsvör þeirra þannig að þeir telji ekki í lagi að vera hvítur. Nokkuð sem Rektor H.Í gerði ekki.
Kannski er það nostalgía, en mig grunar að fyrir nokkrum árum hefðu þessar orðsendingar verið afgreiddir með einni eða tveimur snaggarlegum setningum krydduðum af húmor. Í dag er það sennilega ekki hægt og varla óhætt að bregðast öðruvísi við en Rektor gerir hér með því að slá alla fyrirvarana og gefa út yfirlýsingar um að H.Í stefni ótrauður að fullkomnum heimi - fyrir alla. Samkór pólitískrar rétthugsunnar rúmar ekki falskar raddir í þessum efnum fremur en öðrum.
Í þessum fullkomna heimi verður vísast gott að búa; en mikið held ég að það verði leiðinleg veröld og gildir þá einu hvernig maður er á litinn. Þar sem sótthreinsa verður allt sem sagt er og hugsað.
Er til of mikils mælst að lýsa efir svolítilli kímnigáfu?
Fordómafull skilaboð á háskólasvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2018 | 21:30
Um facebook
Viðskiptamódel facebook gengur út á að safna persónuupplýsingum notenda og selja áfram til þriðja aðila. Beint eða óbeint. Þetta hefur legið fyrir frá upphafi og markaðir hafa verðlagt fyrirtækið í samræmi við það. Tröllvaxinn verðmiði fyrirtækisins grundvallast á því að persónuupplýsingar milljarða manna, nánast heilu þjóðanna eru gríðarlega mikils virði fyrir auglýsendur og fleiri eins og nýleg dæmi sanna. Notendur vefsins eru því hráefnið, einskonar búpeningur -- en fyrirtæki,stofnanir og jafnvel áróðursveitur hinir raunverulegu viðskiptavinir.
Í þessu ljósi er furðulegt að að tala um persónuvernd í sömu setningu og facebbok þar sem reksturinn snýst einmitt um hið gagnstæða. Taki fyrirtækið sig til og fari að ástunda eitthvað í líkingu við raunverulega persónuvernd er viðskipamódel þess hrunið til grunna og þar með reksturinn í heild sinni. Yfirstandandi verðfall á hlutabréfum fyrirtækisins endurspeglar þennan veruleika.
Auðvitað reynir Mark Z. forstjóri facebook hvað hann getur til að reyna að varpa ábyrgðinni yfir á Cambridge Analytica og láta líta svo út að facebook snúist um eitthvað allt annað en einmitt að safna upplýsingum um notendur sína.
Þeir sem hafa minnstu áhyggjur af eigin persónuupplýsingum - eða yfirleitt hvernig persónuupplýsingar eru meðhöndlaðar almennt ættu því að lágmarki að skrá sig út og eyða reikningum sínum á facebook. Fólk sem vill ekki blotna ætti ekki að fara í sund.
Mark Zuckerberg rýfur þögnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2016 | 23:24
Þess vegna þurfum við nýja stjórnarskrá.
Í miðri Evrópu kúrir lítið ríki sem ætla mætti að væri paradís óreiðu og átaka, uppskriftin er í það minnsta til staðar: Þetta er fjölmenningarríki með þrjá mis stóra þjóðfélagshópa sem eru um margt ólíkir og tala hver sitt tungumál. Raunar eru opinber tungumál landsins fjögur talsins. Landgæði eru misjöfn í smáríkinu milli landshluta og trúarbrögð fjölbreytileg. Ofan í kaupið er landið umlukt herskáustu stórveldum samtímasögunnar og á jaðri austurs og vesturs í álfunni.
En í stað þess að vera paradís glundroða og átaka státar þetta smáríki af efnahagslegum- og pólitískum stöðugleika, lífsgæðum, mannréttindum og friðsæld sem eiga vart sinn líka í víðri veröld. Svo stöðugt er stjórnmálaástandið að landið, eða öllu heldur stjórnmál þess rata nær aldrei í heimspressuna og stjórnmálamennirnir eru lítt eða óþekktir, af því að af þeim er mest lítið að frétta. Ég er auðvitað að tala um fæðingarland Rauða Krossins - Sviss!
Það sem er krassandi við þetta er að síðan 1874 hafa svisslendingar haft ákvæði í sinni stjórnarskrá að tiltekinn fjöldi kjósenda geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. 1891 gengu þeir enn lengra með ákvæði um að tiltekinn fjöldi kjósenda gæti haft frumkvæði að því að leggja fram lagafrumvörp á þingi sem ríkisstjórnin yrði að fjalla um. Allar götur síðan hafa svisslendingar kosið um allskonar mál ríkisstjórnarinnar og að auki lagt fram fjölda frumvarpa framhjá henni sem síðar hefur einnig verið kosið um. Þetta er ekkert vandamál, þvert á móti raunar og hið háþróaða svissneska lýðræðið tifar áfram rétt eins og úrin sem þeir smíða af fágætum hagleik.
Beint lýðræði er visst hryggjarstykki og leiðarljós í stjórnarfari svisslendinga. Það veitir stjórnmálamönnum mikið aðhald og fyrirbyggir að ríkisstjórnarmeirihluti geti troðið hverju sem er ofan í kokið á þjóðinni, gegn vilja hennar. Frumkvæðisvald almennings tryggir síðan að ómögulegt er fyrir stjórnvöld að hunsa endalaust umdeild mál. Að síðustu tryggir þetta að umdeild mál eru leidd til lykta fyrir fullt og allt og þegar dómur þjóðarinnar fellur sætta svisslendingar sig við niðurstöðuna. Þannig þurfa þeir ekki að dröslast með umdeild mál í þjóðarsálinni áratugum saman án þess að þau séu útkljáð og þeim þar með lokið.
Stjórnlagaráð hefur augljóslega horft til Sviss þegar það samdi frumvarp að nýrri stjórnarkrá Íslands árið 2011. Ákvæði þess varðandi beint lýðræði eru mjög lík þeim svissnesku og eru svona:
65. gr. Málskot til þjóðarinnar
Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi, ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.
Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.
66. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda
Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.
Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.
Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.
67. gr. Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu
Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frumvarp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.
Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.
Að mínu mati gnæfa þessi ákvæði yfir öðrum breytingum á stjórnarskrá Íslands og þau eru mjög til góðs. Tökum skrefið í áttina að Svissneska kerfinu, Íslensk óreiða þarfnast ábyrgðar og stöðugleika sem þessi ákvæði munu færa okkur, alveg eins og svisslendingum sem eru rúmri öld á undan okkur í stjórnarfari og lýðræði og árangur þeirra blasir við.
Til að byrja með má búast við ólátum og hörðum átökum verði þessi ákvæði að raunveruleika, enda eigum við í handraðanum talsverðan lista af óuppgerðum málum sem munu loks verða útkljáð í krafti nýrrar stjórnarskrár. Það er ekki eftir neinu að bíða, er ekki komið nóg af ruglinu hér annars?
Bloggar | Breytt 21.5.2016 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2016 | 23:59
Gott að búa á Íslandi
Íslendingar hafa lengi verið meðvitaðir um að styrkir og framlög til stjórnmálamanna eru ekki sérlega góð latína fyrir lýðræðið. Þessi skoðun fékk ákveðna staðfestingu í hruninu og margir hafa sem betur fer áttað sig á því að fé auðmanna eða fyrirtækja á nákvæmlega ekkert erindi inn í stjórnmálin. Uppskeran er einfaldlega hagsmunapot og spilling.
Þessu er alveg öfugt farið í Bandaríkjunum enda eru stjórnmál stórveldisins löngu orðin leikhús fáránleikans. Tveir flokkar sem eru sitt hvor höndin á sama skrokki slá upp leiktjöldum og eru sammála um það eitt að vera ekki sammála um neitt -þrátt fyrir að stefnan sé nánast sú sama. Starf þingmanna þar vestra snýst nær alfarið um fjáröflun, ýmist fyrir flokkinn eða fyrir þá sjálfa svo að þeir nái nú kjöri næst. Við síðustu talningu voru 113 þúsund lobbýistar skráðir í Bandaríkjunum -já þetta er sérstök starfsgrein en þeim er víst skylt að skrá sig hjá yfirvöldum. Þeirra hlutverk er að múta þingmönnum til að knýja fram stefnumál kostendanna. Magnað fyrirkomulag svo ekki sé fastar að orði kveðið!
Það sem einna helst virðist sameina bandarísku þjóðina í pólitík er alger fyrirlitning á alríkisstjórninni og öllu klabbinu í Washington. Traust á þinginu og kerfinu í heild er við frostmarkið. Vitaskuld nálgast þó fólk þetta frá ólíkum sjónarhornum eftir smekk og geðþótta. Þannig telja sumir kerfið sokkið í sósíalisma og aðrir telja að kostendur ráði öllu. Menntaelíta vs fjármálaelíta. Hvorugt útilokar þó hitt. Heilt yfir er bandaríkjamönnum mjög uppsigað við skatta og það er líklega mjög skiljanlegt ef maður veltir því fyrir sér í hvað skattfé er notað þar vestra.
Nú steðja að forsetakosningar og það sem hæst rís er andúð þorra þjóðarinnar á frambjóðendum tvíflokksins. Bæði virðast hafa þröngan hóp stuðningsmanna sem nægir þeim til framboðs fyrir flokkinn á meðan restin af þjóðinni beinlínis hatar þau. Það væri auðvitað bara gaman að þessu ef ekki væri fyrir þá staðreynd að annað þeirra mun að öllum líkindum verma sæti valdamestu fígúru heims sem stýrir meðal annars 5000 kjarnorkusprengjum og hefur herdeildir á fæti um víða veröld í ólíklegustu ríkjum. Að auki er forseti bandaríkjanna það eina sem stendur á milli hagsmuna hernaðariðnaðarins heimafyrir og heimsfriðar yfirleitt. Gæfuleg staða það!
Sitjandi forseti fékk hvorki meira né minna en friðarverðlaun Nóbels í þann mund sem hann tók við embættinu - en samt standa nú bandaríkin fyrir viðamiklu vopnaskaki við bæjardyr Rússa. Sá leiðangur hefur verið stimplaður sem einskonar geðbilun af ýmsum bandarískum sérfræðingum í utanríkis- og varnarmálum og þeir velta fyrir sér hvort að markmiðið sé að knýja Rússa til átaka. Fyrst þetta gerist á vakt friðarverðlaunahafans þá vaknar spurningin hvað gerist ef aðrir taka við?
Við Íslendingar ættum að sýna þakklæti fyrir að Íslenska forsetaembættið er harla valdalítið og að allir frambjóðendur til kjörs forseta Íslands eru miklu betri valkostir en þeir sem bandaríkjamenn þurfa að kjósa um í nóvember.
Trump ekki hæfur til að vera forseti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.5.2016 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 38999
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar