20.5.2016 | 23:24
Þess vegna þurfum við nýja stjórnarskrá.
Í miðri Evrópu kúrir lítið ríki sem ætla mætti að væri paradís óreiðu og átaka, uppskriftin er í það minnsta til staðar: Þetta er fjölmenningarríki með þrjá mis stóra þjóðfélagshópa sem eru um margt ólíkir og tala hver sitt tungumál. Raunar eru opinber tungumál landsins fjögur talsins. Landgæði eru misjöfn í smáríkinu milli landshluta og trúarbrögð fjölbreytileg. Ofan í kaupið er landið umlukt herskáustu stórveldum samtímasögunnar og á jaðri austurs og vesturs í álfunni.
En í stað þess að vera paradís glundroða og átaka státar þetta smáríki af efnahagslegum- og pólitískum stöðugleika, lífsgæðum, mannréttindum og friðsæld sem eiga vart sinn líka í víðri veröld. Svo stöðugt er stjórnmálaástandið að landið, eða öllu heldur stjórnmál þess rata nær aldrei í heimspressuna og stjórnmálamennirnir eru lítt eða óþekktir, af því að af þeim er mest lítið að frétta. Ég er auðvitað að tala um fæðingarland Rauða Krossins - Sviss!
Það sem er krassandi við þetta er að síðan 1874 hafa svisslendingar haft ákvæði í sinni stjórnarskrá að tiltekinn fjöldi kjósenda geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. 1891 gengu þeir enn lengra með ákvæði um að tiltekinn fjöldi kjósenda gæti haft frumkvæði að því að leggja fram lagafrumvörp á þingi sem ríkisstjórnin yrði að fjalla um. Allar götur síðan hafa svisslendingar kosið um allskonar mál ríkisstjórnarinnar og að auki lagt fram fjölda frumvarpa framhjá henni sem síðar hefur einnig verið kosið um. Þetta er ekkert vandamál, þvert á móti raunar og hið háþróaða svissneska lýðræðið tifar áfram rétt eins og úrin sem þeir smíða af fágætum hagleik.
Beint lýðræði er visst hryggjarstykki og leiðarljós í stjórnarfari svisslendinga. Það veitir stjórnmálamönnum mikið aðhald og fyrirbyggir að ríkisstjórnarmeirihluti geti troðið hverju sem er ofan í kokið á þjóðinni, gegn vilja hennar. Frumkvæðisvald almennings tryggir síðan að ómögulegt er fyrir stjórnvöld að hunsa endalaust umdeild mál. Að síðustu tryggir þetta að umdeild mál eru leidd til lykta fyrir fullt og allt og þegar dómur þjóðarinnar fellur sætta svisslendingar sig við niðurstöðuna. Þannig þurfa þeir ekki að dröslast með umdeild mál í þjóðarsálinni áratugum saman án þess að þau séu útkljáð og þeim þar með lokið.
Stjórnlagaráð hefur augljóslega horft til Sviss þegar það samdi frumvarp að nýrri stjórnarkrá Íslands árið 2011. Ákvæði þess varðandi beint lýðræði eru mjög lík þeim svissnesku og eru svona:
65. gr. Málskot til þjóðarinnar
Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi, ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.
Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.
66. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda
Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.
Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.
Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.
67. gr. Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu
Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frumvarp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.
Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.
Að mínu mati gnæfa þessi ákvæði yfir öðrum breytingum á stjórnarskrá Íslands og þau eru mjög til góðs. Tökum skrefið í áttina að Svissneska kerfinu, Íslensk óreiða þarfnast ábyrgðar og stöðugleika sem þessi ákvæði munu færa okkur, alveg eins og svisslendingum sem eru rúmri öld á undan okkur í stjórnarfari og lýðræði og árangur þeirra blasir við.
Til að byrja með má búast við ólátum og hörðum átökum verði þessi ákvæði að raunveruleika, enda eigum við í handraðanum talsverðan lista af óuppgerðum málum sem munu loks verða útkljáð í krafti nýrrar stjórnarskrár. Það er ekki eftir neinu að bíða, er ekki komið nóg af ruglinu hér annars?
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.