2.12.2010 | 10:23
Engin óskráð gæludýr?
Ef ég man rétt þá er það réttarfarsleg regla í BNA -og e.t.v. víðar- að húsleit beinist einungis að því sem snýr að efni ákærunnar. Þetta þykir góð regla og miðar að verndun friðhelgi heimilis og persónu. Hér á landi er þessi regla ekki til staðar og nú gerist það að ákæra frá Smáís leiðir til þess að fíkniefni finnast og vafalaust verða hlutaðeigandi ákærðir fyrir vörslu þeirra. Óvíst er hvort að meintur lögbrjótur höfundaréttar sé sá sami og á fíkniefnin. Það gæti þess vegna verið meðleigjandi eða gestur á heimili, þannig verður til nýtt sakamál alls óháð því sem lagt var upp með.
Þetta vekur upp spurningar um það hversu langt lögregla gengur í húsleit yfirleitt. Ef engin afmörkun er á því að hverju þeir eru að leita þá opnast sá möguleiki að þeir umsnúi heimilum fólks í leit að mögulegum sakarefnum og ákæri síðan að geðþótta. Ætli þessar húsleitir hafi einskorðast við leit að tölvugögnum og fíkniefnum? Hvað með skotvopn, bókhaldssvindl, óskráð gæludýr.. os frv?
Í þessu samhengi rifjast upp Baugsmálið. Upphaflega heimilaði dómari húsleit í höfuðstöðvum fyrirtækisins á grundvelli framburðar Jóns Geralds og framlagningar hans á reikningum. Söguna þekkja flestir, ákæruvaldið komst þannig yfir öll gögn fyrirtækisins og næstu ár rigndi ákærum yfir forsvarsmenn fyrirtækisins fyrir allt aðra og óskylda hluti af ýmsu tagi, þar kom líka til að ákæruvaldið getur ákært aftur og aftur fyrir sömu brot. Án þess að fullyrða um það þá sýnist mér að það sama gæti gerst hjá hvaða fyrirtæki sem er og á hvaða heimili sem er. Þannig er friðhelgi heimilis og persónu ofurseld duttlungum ákæruvaldsins ef það kemur fæti inn fyrir dyr í krafti húsleitarheimildar.
Níu húsleitir vegna ólöglegs niðurhals | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hmm, þetta finnst mér sérstakt hugarfar hjá þér.
Ef þeir opnuðu skáp og það dettur lík út úr honum, eiga þeir þá bara að skófla líkinu aftur inn í skápinn og loka, bara af því að þeir voru ekki að leita að líkum?
Gísli Sigurður, 2.12.2010 kl. 15:45
Það má nú eitthvað á milli vera, annarsvegar að lögregla hafi heimild til að leita að hverju sem er og ákæra fyrir hvað sem er -- eða hinsvegar að binda hendur hennar þannig að líkinu verði að skila aftur upp í skáp.
Ólafur Eiríksson, 2.12.2010 kl. 16:24
Ég skil hvað þú meinar, Ólafur, og er algjörlega sammála--eins undarlega og það hljómar er margt sem íslenskt réttarkerfi gæti lært af því ameríska, sérstaklega þegar kemur að friðhelgi einkalífsins. Það er samt spurning hvernig efnin ólöglegu fundust... ég hefði t.d. haldið að lögreglan mætti ekki leita að neinu öðru en tölvubúnaði en ef hinir mætu laganna verðir sjá eitthvað ólöglegt uppi á borðum geta þeir trauðla hunsað það.
Homolka-málið í Kanada er gott dæmi um hvernig góðar reglugerðir, sem gera sitt í að vernda saklausa borgara, geta því miður virkað í hina áttina. Það mál endaði með því að Karla Homolka fékk bara 12 ára dóm fyrir allsvakalega glæpi sína, og er víst bara nokk sátt með lífið og tilveruna í dag, frjáls eins og fuglinn og funheit þó fertug sé.
Pössum okkur allavega á því að geyma dópið okkar ekki inni í netþjóninum og vonum það besta
Durtur, 2.12.2010 kl. 20:55
Góður kunningi minn lenti fyrir allmörgum árum með fyrirtæki sitt í 'tékki' hjá skattinum. Skatturinn hafði af því miklar áhyggjur að eitthvað af einkaneyslu gæti hafa ratað inn í bókhald félagsins og krafðist allra gagna. Í kjölfar þess fóru að berast bréf frá skattinum með kröfum um skýringar og jafnvel frekari gögn með tilheyrandi svarfresti og hótunum um álögur ef ekki yrði svarað os. frv. Þessi prósess tók nærri tvö ár og þá var vinurinn orðinn gráhærður á reikningunum frá endurskoðandanum sem þurfti að svara öllu klabbinu og ónæðinu og tímanum sem fór í þetta. Lokaniðurstaðan var sú að skatturinn hafnaði einni eða tveimur nótum að andvirði eins ölkassa. Í raun má líta þannig á að eftir að bókhaldið var afhent skattinum þá var vinurinn lentur í stöðu sakbornings sem stöðugt þurfti að sanna sakleysi sitt fyrir allskonar furðu- og rugl ásökunum.
Þetta dæmi minnir svolítið á Baugsmálið og gefur vísbendingu um hvað gæti gerst hjá fólki sem fær duglegar löggur í glæpamannaleit inn á gafl hjá sér vegna húsleitarheimildar.
Ólafur Eiríksson, 2.12.2010 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.