Færsluflokkur: Bloggar
31.5.2009 | 14:46
Banka-svikamylla
Hér eru brögð í tafli af hálfu bankans sem platar útgerðarmenn til að fremja fjárhagslegt harakiri. Fáir vissu betur um eigin fjárþurrð en Landsbankinn. Eftir litlu bankakreppuna 2006 tóku þeir sem eitthvað vissu í sinn haus til fótanna frá íslensku bönkunum. Það sást t.d á skuldatryggingarálaginu á þá. Sá viðburður sýndi glöggt hversu veikar og vitlausar stoðir voru reistar undir ísl. bankakerfinu og að á íslenska hagkerfið var búið að hlaða óviðráðanlegu erlendu skuldafjalli sem var í engu samræmi við gjaldeyristekjur landsins. Það eina sem var þá eftir voru gjaldeyristekjur af erlendri starfsemi bankanna en þær voru að breytast hratt enda var hagnaður þeirra að mestu tilkominn vegna þenslubólu og hækkandi markaða. Bankarnir voru að lána eignarhaldsfélögum og allskonar jólasveinum til að kaupa/yfirtaka margvíslegar eignir og það gekk ágætlega á meðan markaðir gerðu ekki annað en að hækka af því að svo margir voru einmitt við sömu iðju. Öðru máli gegnir þegar kúrfan snýst við eins og blasir við t.d hér heima. Bankarnir voru því líklegast gjaldþrota fyrir löngu síðan, jafnvel strax árið 2005 af því að lánasöfnin voru til svona hluta.
Í kjölfar litlu bankakreppunnar réðist bankinn í að auka innlán sín, einkum erlendis með t.d IceSave til þess að þurfa ekki að treysta á skammtímafjármögnun af alþjóðamörkuðum sem voru að lokast. Íslensku bankarnir voru komnir í kapphlaup við við að endurfjármagna risavaxinn skammtímalánahaug - kapphlaup sem þeir töpuðu að sjálfsögðu af því að rekstrarmódelið gekk ekki upp.
Þegar þessi viðskipti eiga sér stað var því búið að prufukeyra hvað mundi gerast hér þegar alþjóðlega þenslubólan færi að dragast saman. Hér voru stýrivextir afar háir og ekkert vitrænt plan til um hvernig ætti að lækka þá með hagkerfið yfirfullt af erlendu skammtímalánsfé í allskonar ruslpappírum - án þess að krónan félli mjög hressilega. Þetta hljóta jafnvel forsvarsmenn Landsbankans að hafa vitað þegar var farið að líða á árið 2007. Til viðbótar voru þá strax komnar fram vísbendingar um það sem síðar varð að lausafjárkrísunni sem opinberaðist síðan í ágúst sama ár.
Þeir ákveða samt að lána útgerðarfyrirtæki í erlendum gjaldmiðlum til að kaupa hlutabréf í sjálfum sér og fleiri pappíra á sínum vegum sem allir eru háðir styrk bankans - sem á þessum tíma var kominn í miklar kröggur. Vitandi um áhættuna vegna krónunnar og vitandi um eigin vandamál. Fólk sem stundar svona viðskipti til að bjarga eigin rassi á í mínum huga bara heima bak við lás og slá.
Enn og aftur leiðir þetta hugann að því hversu gjör-rotið viðskiptasiðferðið var kringum bankana og sem aftur sýnir svart á hvítu hversu vitlaust það er að blanda saman almennri bankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi. Víst voru þeir gráðugir og heimskir sem gerðu þessa samninga af hálfu útgerðarfyrirtækisins - en fyrst og fremst varð þeim það á að treysta bankanum sínum. Þeir voru ekki einir um það á síðustu árum.
Vonandi hafa þeir Grundfirðingar góða lögmenn sem fara rækilega ofan í saumana á því hvort að lög hafi verið brotin í þessum viðskiptum. Það gæti jafnvel skapað fordæmi.
![]() |
Milljarða skuldir umfram eignir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2009 | 20:39
Samfylking birtir styrki - en hvar er restin af púslinu?
Nú er ljóst að bæði sjálfstæðisflokkur framsókn og samfylking hafa þegið verulegar fjárhæðir frá oligörkum íslands. Það kemur út af fyrir sig ekki verulega á óvart og er líklegast framhald á langri hefð, en það vantar botninn í söguna. Hvernig fóru stjórnmálamenn að því að reka milljóna prófkjörsbaráttu mörg síðustu árin. Voru ekki einhverjir þeirra með einkahlutafélög kringum sjálfa sig í prófkjörunum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2009 | 15:05
Fátt sem kemur á óvart lengur
Í gær bárust fregnir af því að íslenskir bankamenn átu gullhúðað pasta þegar stemmingin var hvað best í góðærinu - eða voru það svið? Í dag er lögð fram tillaga á alþingi um að ganga inn í ESB. Þetta sérkennilega fyrirbæri sem hluti íslendinga virðast halda að sé rétt einn hraðbankinn sem bíði þess að vera tæmdur af velmenntuðum her innangylltra íslenskra viðskiptavíkinga. Aðrir eru þó betur upplýstir eins og gengur.
Maður skyldi ætla að það hefði verið einhver vísbending hér um árið þegar samið var um EES að þetta væri ekki einfaldur hraðbanki en sem kunnugt er þá fórnuðum við hálfu sjálfstæðinu fyrir aðgöngumiðann að innri markaði sambandsins. Þessu hefur verið lýst þannig að við fengum allt fyrir ekkert. Viðskiptahliðin þá væntanlega allt og sjálfstæðið ekkert?
Á sínum tíma þótti ekki við hæfi að bjóða þjóðinni upp á kosningar um EES samninginn enda var mikið í húfi fyrir efnahag landsins, svo mikið að þjóðinni var líklegast ekki treystandi til ákveða örlög sín í málinu. Ekki er minnsti vafi á því að EES samningurinn var efnahagslega mikilvægur, íslendingar hafa t.d notað farvegi hans til að gera sig gjaldþrota á ótrúlega skömmum tíma. Nokkuð sem hlýtur að teljast til afreka fyrir fámenna þjóð í stórri náttúru með vel menntaða stjórnmálamenn.
Þrátt fyrir gjaldþrotið hefur fólk enn dálæti á samningnum og þeim ávinningi sem hann hefur skilað þjóðinni - sem er að sögn mjög verulegur. Má þar nefna frjálsa fjármagnsflutninga til og frá meginlandinu sem voru mjög til þæginda til að flytja fjármagn úr landi. Þess ber e.t.v að geta að það eru ætíð sigurvegararnir sem rita söguna og erfitt að meta EES samninginn m.v ímyndað samhliða ferðlag landsins í tíma og rúmi, án hans yfir síðustu ár.
Sem betur fer fylgdi ýmislegt með í pakkanum af nothæfu regluverki, jafnvel réttarbætur sem þó voru líklegast ekki ástæðan fyrir því að stjórnmálamenn þess tíma sömdu til að byrja með, efnahagslegur ávinningur var megin forsendan. Nú virðist sagan vera að endurtaka sig og enn er efnahagslegur ávinningur settur á oddinn, nú sem fortaksröksemd fyrir því að ísland eigi að ganga inn í ESB. Til huggunnar er því skeytt aftanvið - að við fáum nú áhrif- væntanlega gegn því að tapa enn meira af sjálfstæðinu og fullveldinu.
Maður sér þó ýmis sjónarmið á bloggsíðum varðandi ESB, algengt sjónarmið er að íslenskir séu svo lélegir í stjórnsýslu að þeir ráði ekki við verkið og því betra að láta ESB um stjórnvölinn. Skiljanlega er þessu sjónarmiði ekki hátt hampað meðal stjórnmálamanna. Þeir vita líka sem er að við losnum ekki svo glatt við þá þó að við göngum inn í evrópusambandið. Ekki fremur en ýmislegt annað sem er okkur fjötur um fót í dag kjósi menn að líta þannig á hlutina.
En þjóðin er uppgefin. Hún er búin að fá nóg af ruglinu og skal engan undra. Nú er það spurningin hvort að hún er tilbúin til að taka farmiðann aðra leiðina -einhvert- með evrópu til framtíðar í þeirri von að aðild lækni íslenskt rugl. Eða hvort að það tekst að sannfæra hana um að aðrar leiðir og betri séu færar. Fyrsta vers í þeim leiðangri hlýtur að vera að minnka íslenskt rugl. Það kemur í ljós hvernig það gengur.
![]() |
Hægt að ná samstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.10.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar