Stjórnmálafræðingur eða stjórnmálamaður!?

Ég sé að mbl.is lætur þess getið að Stefanía er stjórnmálafræðingur. Lesendum gæti því dottið í hug að hér sé á ferðinni hlutlaust álit fræðimanns í stjórnmálum. Og e.t.v. er það einmitt þannig.

En það er til kona sem heitir Stefanía Óskarsdóttir sem var formaður félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, gaf kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokkins og hefur einnig setið á Alþingi sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Sú Stefanía er reyndar líka stjórnmálafræðingur, nánar tiltekið "doktor í stjórnmálafræði frá Purdue-háskóla í Bandaríkjunum". Ég velti því fyrir mér hvernig hlutlaus fjölmiðill mundi kynna hana til leiks sem álitsgjafa um íslensk stjórnmál. Stjórnmálafræðingur eða stjórnmálamaður?

 


mbl.is Þægileg lausn fyrir Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumurinn um góða hirðinn.

Það virðist loða við sum trúfélög að því meir sem fjarar undan kennisetningum þeirra þá eflast þau í trúboðinu. Enn er SUS gikkfast í nýfrjálshyggjumöntrunni og gefur frelsi einstaklingsins langt nef. Það ber vott um vondan bókmenntasmekk eða afburða einhæfa innrætingu.

Hugmyndin um einkavæðingu OR steinliggur strax þegar haft er í huga að fyrirtækið hefur einokunaraðstöðu. Enginn frjálslyndur frjálshyggjumaður getur sætt sig við einokun einkaaðila á heitu vatni. Þó vont sé að sætta sig við stjórn pólitíkusa þá má þó kjósa þá burtu. Nokkuð sem að hluta til hefur verið gert í Reykjavík.

Af yfirlýsingu SUS má ráða að þeir telji að væntanlegir fjárfestar í OR geri enga ávöxtunarkröfu á eigið fé. Eða að lágmarki mun minni en lánadrottnar fyrirtækisins. Komi ekki til afskrifta skulda verður ávöxtunarkrafan að lækka - öðruvísi verður gjaldskrá OR ekki lækkuð enda er orkusalan til stóriðju niðurnegld í langtímasamningum. Að senda almenningi verðhækkun og hagræða í rekstri eru einu sýnilegu úrræðin í bili.  Nú kemur í hugann sagan af góða hirðinum. Hann virðist ganga aftur úr biblíunni og lóðbeint í kokkabækur fjárfrelsishyggjunnar. Þessi steríótýpa er í reynd afar sjaldgæf og sinnir vanalega sínu, en tekur ekki þátt í skuldsettum yfirtökum. Það er því heldur ólíklegt að Reykvíkingar yrðu svo heppnir að fá góða hirða sem hluthafa í OR. Mun líklegra - nær öruggt - er að kaupendur ætli sér verulega ávöxtun á sitt fé og nýti fákeppnis- og einokunaraðstöðu fyrirtækisins til þess. Almennir notendur OR munu finna fyrir því í buddum sínum þegar fjárfestar hafa plantað sér í hliðvörslu veitukerfisins. Og þeir verða ekki kosnir á brott. Góðu fréttirnar yrðu þó helstar þær að ekki væri um dulbúna skattheimtu að ræða.


mbl.is SUS vill einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugum að stjórnlagaþingi meðan fjórflokkurinn engist í landsdómsmálinu

Frestur til að skila inn framboði til stjórnlagaþings rennur út þann 18. október.

það nægir að fylgjast með landsdómsmálinu skamma hríð til að rifja upp af hverju stjórnlagaþingið er mikilvægt. Óvinafagnaður fjórflokksins um eigin sakir hefur þegar tekið á sig helstu einkenni íslenskra stjórnmála. Innihaldslaust þvaður og karp um ekkert úr botni skotgrafarinnar. Hver sem niðurstaðan verður úr því þá mun umtalsverðum hluta þjóðarinnar þykja sem réttlætisgyðjan liggi illa spjölluð og klæðlítil í vegkantinum að ferðalaginu loknu. Hugtök á borð við: iðrun, yfirbót, réttlæti, sanngirni, betrun -- verða flestum gleymd. Eftir mun standa enn aukin misklíð, flokkadrættir, sundrung og særindi. Almenningur verður engu nær og ágætir stjórnmálamenn áfram fastir í vondum hefðum okkar úr sér gengna stjórnkerfis.

Í stað þess að dvelja við þennan farsa ætti athygli fjölmiðla og bloggara að beinast að stjórnlagaþingi. Einungis þannig verður eitthvað úr því máli, ella drukknar það í dægurþrasi stjórnmálanna. Það er tækið til breytinga og úrbóta. Mas fjórflokksins um eigin sakir mun engu skila nema meira eldsneyti á þrasbálið.


Landeyjahöfn er skemmtilegt nafn.

Höfnin er kennd við Landeyjar, nafnið lýsir landsvæðinu til forna þegar Markarfljót og fleiri vatnsföll þvældust um sandana og skiptu því í eyjar.

Höfnin er síðan samgöngumannvirki sem tengir (eða á að tengja) landið og Vestmannaeyjar. Land-eyja-höfn. Þetta heiti gæti staðið eitt og sér burtséð frá því hvar hún er staðsett. 

Og nú virðist hin forna merking líka geta passað við ástandið í höfninni sjálfri þar sem sandur hleðst upp og gæti með tíð og tíma myndað eyjar í henni sjálfri. Þá mætti e.t.v skíra hana upp sem: Sandeyjahöfn.

 


Elizabeth Warren er rétt kona á réttum stað

Þegar ísland brann í glórulausu góðæri þá leitaði ég víða að skýringum og hliðstæðum til að skilja hvað var að gerast hér enda mest fátæklegar og fádæma vitlausar skýringar í boði á íslenska málsvæðinu. Í þeirri leit rakst ég á kvikmyndina Maxed Out (2006) þar sem Elizabeth Warren lýsir af mikilli þekkingu - og jafnvel af ástríðu - því sem kallast á enskunni: predatory lending. Þar fer hún yfir þær aðferðir sem stundaðar voru við svokallaða undirmáls- lánastarfsemi í bandaríkjunum. Hennar þáttur í myndinni gleymist seint.

Hún hélt sínu striki og hér má sjá fyrirlestur hennar  - þar sem hún lýsir útrýmingu bandarískrar millistéttar.

The Coming Collapse of the Middle Class

Distinguished law scholar Elizabeth Warren teaches contract law, bankruptcy, and commercial law at Harvard Law School. She is an outspoken critic of America's credit economy, which she has linked to the continuing rise in bankruptcy among the middle-class. Series: "UC Berkeley Graduate Council Lectures" [6/2007] [Public Affairs] [Business] [Show ID: 12620]

Obama fær stóra stjörnu í kladdann fyrir að setja hana í forustu neytendaverndar. Vonandi að hennar sjónarmið fái framgang en ekki wall street liðsins. Næsta skref hjá Obama ætti að vera að losa sig við það hyski úr stjórnkerfinu. Ég held að við íslendingar eigum fáa ef nokkra jafnoka þessarar konu. Því miður. Gaman væri að heyra hana taka létta yfirferð yfir íslenska verð- og gengistryggða glæpalánastarfsemi.

 


mbl.is Varðhundur bandarískra neytenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það væru landráð að plögga ekki þennan fyrirlestur

Ég hef séð net-fyrirlestra Chris Martenson og þeir eru mjög athyglisverðir. Þeir fjalla um erfiðasta viðfangsefni samtímans. Samspil mannfjölgunnar, hagvaxtar, peningakerfisins og takmarkaðra náttúruauðlinda. Einkum orkuauðlinda. Hann er nú staddur á landinu og ætlar að halda fyrirlestur um þessi mál. Þetta er efni sem allt áhugafólk um stjórn- og efnahagsmál ætti að kynna sér.

Frekari upplýsingar eru á bloggi Hjálmars Gíslasonar.

Smellið hér.


Rétt hjá Jóhönnu

Hugmyndin um að alþingi sinni ákæruvaldi gegn ráðherrum  hlýtur að byggjast á því að alþingi sé sjálfstæð valdastofnun óháð framkvæmdavaldinu. Svo hefur alls ekki verið hér þar sem megin reglan er að sama fólkið fer með framkvæmda- og löggjafavaldið. Afleiðing af þessu samkrulli sést nú í niðurstöðu þingmannanefndar sem er klofin eftir flokkslínum. Það er rétt hjá Jóhönnu að þetta er óheppilegt.

Ný og/eða endurbætt stjórnarskrá inniheldur vonandi skýrari aðskilnað valdsins en blasir við í ríkjandi skipulagi sem er hefðartúlkun á stjórnarskránni. Þessi vandræðalega uppákoma nú varpar einnig ljósi á hversu burðugt alþingi er að sinna eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdavaldinu. 

En þó að þetta sé svona þá er það engin afsökun fyrir alþingi að hunsa allskýr tilmæli frá rannsóknarnefndinni. Þetta er jú lögformlegur farvegur til að úrskurða um álitamál varðandi ráherraábyrgð. Sá eini líklegast. Ef alþingi ákærir ekki þá er erfitt að túlka það öðruvísi en að ráðherrar séu ábyrgðarlausir að lögum að áliti sitjandi alþingis. Það alþingi verður þá að leita umboðs þjóðarinnar afar fljótlega.


mbl.is Áfall að ekki náðist samstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikahönnun og viðburðaframleiðsla fjölmiðla!?

Þessi prestlingur er örverpi á alla skala. Einungis með hjálp fjölmiðla gat bókabrenna hans vakið nokkra athygli. Það er mikið umhugsunarefni hvers vegna heimspressan tók að sér að búa til stórmál úr því að karlskröggur í hempu ætlaði að kveika í fáeinum bókum - þannig að úr varð "stórkostleg" krísa. Þeir sem snúa fjölmiðlahringekjunni hljóta að vera ánægðir með gott spinn. Hér er á ferðinni veruleikahönnun og viðburðaframleiðsla af flottustu gerð.

Það er víst til kvikmynd sem heitir; Manufacturing consent.

Hér er stutt brot úr umfjöllun wikipedia um hana.

The film presents and illustrates Chomsky's and Herman's propaganda model, the thesis that corporate media, as profit-driven institutions, tend to serve and further the agendas of the interests of dominant, elite groups in the society.

Einhverra hluta vegna datt mér hún í hug við gerð þessarar bloggfærslu.


mbl.is Hættur við Kóranabrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabær rannsókn

Það hefur ávallt lagt illan daun af þessari aðgerð. Peningamarkaðssjóðirnir voru reknir á landamærum hins löglega hvað samsetningu snerti eins og afskriftir þeirra sýna. Grunur leikur á að bjarga hafi þurft "góðu" fólki sem átti stórar eignir í sjóðunum og jafnvel stjórnendum þeirra sem sumir hverjir eru vélaðir inn í íslensk stjórnmál.

Frasarnir eru kunnuglegir - sá klassískasti í fréttinni er að "það hafi þurft að eyða óvissu". Flumbrugangurinn kringum bankahrunið getur vel mögulega hafa kostað skattgreiðendur fúlgur fjár. Jafnvel svo háar fjárhæðir að samfélagslegur kostnaður af rofi á greiðslukerfinu yfir nokkurra daga, eða jafnvel vikna, tímabil eru smáaurar við hliðina á því.

Eftir situr almenningur með bitrar grunsemdir um að hagsmunir fjármagnseigenda hafi verið settir fremstir allra og skattgreiðendur axli mislukkaðar áhættufjárfestingar þeirra. Beint eða óbeint.


mbl.is ESA rannsakar bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rugl í upphafi Staksteina

Ég er ekki áskrifandi að Morgunblaðinu en sé í bloggyfirliti upphafið á Staksteinum dagsins, það er svona;

Kosningar geta haft miklu meiri þýðingu en Staksteinar og aðrir nytsamir kjósendur ná upp í. Þegar borgarbúar kusu Jón Gnarr Kristinsson gerðu þeir það til að kanna hvort brandari gæti verið fyndinn í fjögur ár. Eða það héldu þeir að minnsta…

Ef marka má umfjöllun á netinu fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar er hér rangt með farið. Hluti borgarbúa vildi refsa stjórnmálaflokkunum (fjórflokknum). Þeir gripu því Jón Gnarr þegar hann gafst með þeim rökum að hann yrði síst verri aðrir. Jón var verkfærið sem vantaði. Markmiðið var refsing - 4. ára frí fyrir þá sem standa sig illa. Að viðbættri þeirri niðurlægingu sem því fylgir að tapa í kosningum fyrir grínista.


Næsta síða »

Um bloggið

Sitt lítið af hverju

Höfundur

Ólafur Eiríksson
Ólafur Eiríksson
Óbreyttur
Sept. 2010
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • hjólhýsi
  • ...dsc00019
  • ...dild_888966
  • ...thusundkall
  • ...slit_877880

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 39158

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband