8.9.2009 | 04:14
Króna í hnotskurn
Mikið innflæði fjármagns inn í hagkerfi - sem hleður upp væntingadrifnu góðæri - endar gjarnan með skelfingu þegar innflæðið verður að útflæði og ballið klárast. Væntingadrifið góðæri felst þá í því að engar sérstakar aðstæður í viðkomandi hagkerfi standa undir veislunni - sem er drifin áfram af ódýru lánsfé, en ekki raunverulegri verðmætasköpun. Hagkerfi sem státar af miklum nýjungum í hagnýtingu (nýrrar) tækni og þekkingar eða möguleikum á stórauknum tekjum vegna náttúruauðlinda sem fjármagnið fer í að nýta fellur ekki undir þetta. Og gjaldmiðll viðkomandi hagkerfis sem lendir í væntingadrifnu gróðæri skiptir ekki öllu máli. Það sjáum við á Írlandi og víðar.
Hér á Íslandi réðu væntingar ferðinni mörg síðustu ár. Þó svo að Kárahnjúkavirkjun væri að bætast við í orkuflóru íslands var hún varla meira en sæmileg ástæða til að milda óhjákvæmilega niðursveiflu eftir þenslubólu síðustu ára síðustu aldar. Restin voru væntingar, bankabóla, fasteignabóla, eignabóla, hlutabréfabóla. Efnahagsleg þvæla frá a-ö.
Krónan hjálpaði ekkert á þessu tímabili sem dempari á þensluna. Verðtryggð lán, gjaldeyrislán og margt fl. gelti áhrif stýrivaxtatækis SÍ sem staðfastlega neitaði að grípa til annrra ráða sem hefðu e.t.v getað dugað. Þvert á móti var blásið í krónuhagkerfið eins og blöðru með þessu innflæði erlends fjármagns og niðurstaðan varð síst betri en ef við hefðum notað lágvaxtamynt eins og t.d evru. Í þessum skilningi nýttum við ekki kosti sjálfstæðs gjaldmiðils og stýriáhrif sem hann gerir möguleg - hann gerði eiginlega illt verra meðan á þenslunni stóð. Háir stýrivextir voru beggja handa járn og áhrif þeirra voru líklegast heilt yfir þensluhvetjandi - ótrúlegt en satt.
Hin "jákvæðu" stýriáhrif litu dagsljós eftir haustið 2007 þegar lausafjárkrísan alþjóðlega sprakk og íslensku bankarnir voru komnir á "borrowed time" - þ.e.a.s þeir fengu engin frekari lán og eina spursmálið var hversu lengi lánsfjárkrísan varaði. Glöggir menn áttuðu sig á því að ballið hjá íslensku bönkunum var þá þegar búið. Árið 2008 var tími þeirra á dauðadeildinni og pínlegt var að fylgjast með íslenskum banka- og stjórnmálamönnum við að varalita þetta dauða svín þar til að óhjákvæmilega skall á. En á þessu tímabili þurrkuðu bankarnir allan gjaldeyri sem til var í landinu upp til að reyna að mæta afborgunum skammtímalána - sem þeir skulduðu í "lange baner" - og krónan féll að sama skapi.
Þar með þjónaði hún sínu hlutverki - landið í heild var nærri gjaldþrota gagnvart útlöndum og hafði engin efni á miklum innflutningi- og innflutningur varð mjög dýr og er enn. Að sama skapi lækkaði verðlag á íslandi með falli krónunnar og gerði ísland samkeppnishæfara sem ferðamannaland, sem útflutningsland fyrir vörur og þjónustu. Náttúruleg stýriáhrif sjálfstæðs gjaldmiðils tóku völdin og leiðréttu falskt gengi krónunnar yfir langt árabil- sem var m.a falskt vegna ofurvaxta Seðlabankans sem löðuðu hingað skammtímafjármagn í leit að skjótum gróða.
Krónan hjálpaði okkur nær ekkert í fyrri hálfleik, en kemur sterk inn í þeim síðari. Vegna verð- og gengistryggingar lána hér í himnaríki lánadrottna eru skuldarar ekki sáttir. Skal engan undra. En mistökin eru til að læra af þeim. Afnám verð- og gengistryggingar lána (sem er ólögleg) er að sjálfsögðu forgangsatriði til að ná eðlilegum markaðskjörum á lánveitingar.
Við hljótum að draga lærdóm af reynslunni - ekki satt?
Sem betur fer eru málsmetandi hagfræðingar að setja fram þann augljósa sannleika í dag - að erlendar lántökur til að hækka krónugengið eru engin lausn fyrir íslenska hagkerfið sem rambar á barmi gjaldþrots gagnvar útlöndum. Bæði Jón Daníelsson og Joshep Stiglitz eru fullir efasemda um slíkar lausnir. Skal engan undra. Það er varla flókið að sjá að frekari lán lækna ekki of miklar skuldir! Við verðum að komast út úr þessari kreppu á krónunni og það væri ágætt að stjórnvöld áttuðu sig á því og hættu að velta vöngum yfir algerlega óraunhæfum flýtileiðum og draumalandsferðum yfir í evruna. Slíkt er einungis í boði í draumalandinu.
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
8. spet.2009.Þakka góð og skilmerkileg skrif Ólafur. Sendi þér skoðunar að gamni, hugleidingar. sem hrutu mér af fingrum í gær, um sömu- og skyld málefni, Frétt um að Már seðlabankastjóri sæi fyrir sér hagvöxt hér á fyrri hluta næsta árs, var það sem knúði mig að lyklaborðinu í gær.Bestu kvedjur, Andicap.7.9.2009 | 18:27Már seðlabankastjóri á von á annað hvort bata eða meiri "dýfu".Már seðlabankastjóri er staddur erlendis. Hann segir fréttaveitum þar að hann reikni með að hagvöxtur verði hér á landi strax á fyrri helmingi næsta árs. Það væri mjög uppörvandi ef seðlabankastjórinn gæti sýnt okkur eitthvað til geta deilt þessari bjartsýni með honum. Ekki verður annað séð af því sem almenningur fær að vita hér um ástand mála en að óvissa sé svo mikil að stjórnvöld og stjórnsýsla séu á þvílíku jakahlaupi, að fáir geti litið upp frá hálum ísjökunum til að finna vænlega stefnu til að ná landi, áður en svikulir jakarnir sporðreisast og steypa örvæntingarfullum hlaupurunum á kaf í krapakaldan veruleikann, sem enn er verið að reyna að afneita.Í tæpt ár hefur verið reynt að róa þá sem eru með erlendar skuldir með því að krónan muni fljótlega styrkjast. Því skyldi hún gera það? Það er búinn að vera bullandi halli á viðskiptum við önnur lönd í mörg ár. Tölur um talsverð umskipti í vöruskiptajöfnuði eru vissulega jákvæðar. Fréttaflutningur um þennan "viðsnúning" er vægast sagt villandi, því hér er einungis um að ræða hluta af utanríkisviðskiptum. Viðskiptajöfnuðurinn í heild er ennþá bullandi neikvæður. Samkvæmt tölum sem byrst hafa á seinustu vikum hefur kaupmáttur ekki rýrnað um "nema" 7-15% frá Hruni. Launalækkanir virðast ekki ætla að verða teljandi miklar, nema hjá þeim sem misst hafa vinnuna. Krónan þarf því að lækka enn frekar til að ná fram meiri rýrnun á kaupmætti. Hálffleyting Krónunnar í byrjun desember s.l. og sú hækkun á gengi sem þvinguð var fram í kjölfarið hefur kostað almenning og þjóðarbúið meira en nokkurntíma verður hægt að reikna út. Hefði gengið fengið að vera lágt (EUR. á um 200 kr.), hefði verðbólga vegna innfluttra vara hækkað skart einsog gerðist í haust en síðan lækkað verulega. Með því að ýta genginu upp, án innistæðu fyrir því í hagkerfinu, hefur verðlag sveiflast miklu meira og verðbólga haldist há mun lengur en ella. Vegna þess hve verðtrygging lána er víðtæk hefur þessi mikla verðbólga gert stjórnvöldum nánast ókleyft að hækka Virðisaukaskatt, sem annars gæti verið tæki til að laga ríkisfjármálin og minnka kaupmátt og þannig stutt við gengi Krónunnar. Heilt ár er of langur viðbragðstími þegar hamfarir dynja yfir. Talað hefur verið um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi gefið ráðamönnum hér í fyrrahaust tækifæri til að sýna fram á að stjórnvöld réðu við að marka stefnu út úr ógöngunum. Ríkisstjórn Geirs Haarde sat stjörf og lömuð af hræðslu í hálft ár á meðan vont versnaði. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, sýndi að vísu þá djörfung að skipa nefnd sem ráðast átti til atlögu við verðtrygginguna og koma með tillögur að færri leið út úr því feni. Nefndin, undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar, hafði ekki kjark til að taka málið föstum tökum. Sorglegt er, að það góða fólk sem skipaði nefndina, skuli hafa valið Gunguleiðina og skilað auðu í þessu mikilvæga máli. Ómældur skaði, sem ekki sér fyrir endann á. Aftur að viðbragðstíma. Eigum við að reikna með að sendinefnd AGS komi með Kampavín og konfekt til að hampa okkur fyrir hvað tíminn hefur verið notaður vel? Því miður á ég frekar von á að svipuhöggin fái að dynja. Seðlabankinn fer í vonlausa baráttu við að styrkja gengið og hækkar aftur stýrivextina (eins og seðlabankastjórinn er í aðra röndina að "lofa"). Fyrirtækin fá takmarkað rekstrarfé og það á háum vöxtum, uppsagnir og gjaldþrot aukast og "hagvöxtur" fyrri helmings næsta árs verður drifinn af 30-40 þúsund atvinnulausum, því varla leyfir AGS okkur að verða aftur með alvarlegan halla á ríkissjóð, eins lífsnauðsynlegt og það gæti annars orðið. Til að koma að einhverju leyti í veg fyrir þessa hörmungarþróun verður að snúa við blaðinu. Hvort heldur sem AGS slakar út einni greiðslu af lánsloforði sínu núna eða ekki, þá verður að henda prógramminu út í hafsauga strax að aflokinni næstu umfjöllun og afgreiðslu þeirra. Niður með stýrivextina, burt með verðtrygginguna, niður með gengið (lægri vaxtagreiðslur til erlendra Krónubréfaeigenda) og 180 milljarða halla á ríkisjóð á ári næstu 3-4 árin og allsekki frekari erlendar lántökur í risavaxin raforkuverkfni. Nógu tæpt eiga orkufyrirtækin eftir að fara án þess að bætt verði við þá klafa.Það þarf þor til að fara óhefðbundnar leiðir á komandi mánuðum. Ráðamenn verða að hætta að haga sér einsog þjóðin sé viðkvæmur unglingur á gelgjuskeiði, sem ekki má styggja með upplýsingum um hrollkaldan veruleikann. Tala þarf hreint út svo fólk fái að heyra tæpitungulaust að hér er flest fallvalt og að þjóðfélagslegt líf okkar hangir á bláþræði. Þannig verðum við að ná upp samstöðu og baráttuþreki fólks. Ef núverandi ríkistjórn fær "Haarde - stjarfa - syndrómið" eða ætlar að lulla með AGS áætluninni, reikna ég með að ríkisstjórnin verði farin frá völdum áður en ár verður liðið frá Bessastaðaheimsókninni.
Ólafur G. Sigurðsson, 8.9.2009 kl. 09:33
Takk sömuleiðis fyrir innlitið og pistilinn Ólafur.
Ólafur Eiríksson, 8.9.2009 kl. 17:51
Góð færsla Óli,við erum stödd í vítahring...krónan vinnur með okkur gagnvart útflutningi en á móti gagnvart innflutningi og erlendum skuldum.Sem sjómaður sit ég beggja vegna borðsins,tekjur hafa hækkað en lánin,eldsneyti og matvörur reyndar líka....semsagt bæði gott og slæmt.
Kv. Björn V.
Bon Scott (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 18:24
Það er nú málið Björn.
Kveðjur.
Ólafur Eiríksson, 13.9.2009 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.