30.7.2009 | 23:14
Óðagot í endurreisn
Hún er mjög skrýtin umræðan um efnahagsmál á Íslandi. Mörg síðustu ár var hún að mestu pollíönnublaður og óskyggjudrifið frigðarrugl banka- og útrásarmanna. Með örfáum undantekningum. Eftir bankahrunið hefur hún hafist á flug, en geldur verulega fyrir æfingar- og gagnrýnisleysið hin síðustu ár. Það er e.t.v hrokafullt viðhorf en mín skoðun engu að síður.
Minn vegvísir hefur verið að lesa gagnrýna umræðu um bandarísk efnahagsmál, t.d þá hagfræðinga sem ekki teljast til main-stream og ennfremur einkafjárfesta eins og þá sem rita og spjalla á vefsíðunni financialsense Með því að reyna síðan að yfirfæra það sem þeir hafa haft um bandarískt viðskipta- og efnahagslíf að segja - t.d löngu fyrirséða hlutabréfa- og húsnæðisbólu sem báðar sprungu fyrir fáeinum misserum - yfir á ástandið á Íslandi; fékk maður nokkuð góða tilfinningu fyrir því sem hér var að gerast síðustu ár. Vandinn var að yfirfæra aðstæðurnar frá þessu voldugasta hagkerfi veraldar og yfir á okkar. Ótrúlegt en satt var margt furðu líkt, en annað ekki. Þetta gaf verulega mun betri raun en að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum eða umræðu að ekki sé minnst á ruglið í greiningardeildum bankanna eða viðskiptablöðum eigenda þeirra. Reyndar var talsvert átak að þora að yfirfæra bölsýnisspárnar yfir Atlantshafið og heimfæra þær upp á aðstæður hér - svo fjarri var umræðan og hugarfarið hér raunveruleikanum. Það borgaði sig hinsvegar mjög vel.
Ég ætla því að halda því áfram. Hér er mjög löng en stórmerkileg grein um "endurreisn" bandaríska hagkerfisins sem heitir því lýsandi nafni; No return to normal. Höfundur hennar er;
James K. Galbraiths new book is The Predator State: How Conservatives Abandoned the Free Market and Why Liberals Should Too. He holds the Lloyd M. Bentsen Jr. Chair in Government/Business Relations at the LBJ School of Public Affairs, University of Texas at Austin, and is senior scholar with the Levy Economics Institute.
Hann er vel að merkja sonur hins fræga John Kenneth Galbraith þannig að ætternið spillir ekki fyrir.
Í greininni rekur James fyrirhugaða örvunarpakka Obama stjórnarinnar og aðferðir hennar við að endurreisa bankakerfið - frá toppi og niður úr. Sú aðferð byggist einmitt á þeirri hugmynd að takist að koma á fót heilbrigðu einkareknu bankakerfi þá lagist hagkerfið af sjálfu sér. Nokkuð sem er ansi kunnugleg stef úr umræðunni hér á Íslandi síðustu mánuði. Talið vera lykill að svokallaðri "endurreisn" Fyrir utan augljósa siðferðislega og praktíska ágalla á þeirri hugmynd að dæla gríðarlegum fjármunum í ónýta stórbanka í bandaríkjunum til að kaupa af þeim verðlitla ruslpappíra með skattfé og "endurreisa" þá þannig telur James að með því vinnist afar lítið fyrir hagkerfið sem slíkt. Þar vísar hann á bug hefðbundinni líkingu bankakerfisins við stíflaða pípulögn sem þurfi að hreinsa og lagfæra. Þvert á móti bendir hann á að til að lán (peningar) fari að flæða aftur um æðar hagkerfisins þurfi tvo til. Einhver verði að geta og vilja taka lán.
Hann bendir á að þegar almenningur sitji í dýru húsnæði sem hefur stórfallið í verði séu margir komnir með neikvæða eiginfjárstöðu. Að auki hafi hlutabréfaeign almennings minnkað verulega og hafi að auki glatað lífeyrissparnaði os. frv. Margir hafi því neikvæða eiginfjárstöðu og séu því hvorki í skapi né aðstöðu til að taka lán. Við bætist síðan atvinnuleysið og neikvæðar horfur sem geri að verkum að fólk sitji á reiðufé eins og ormar á gulli, og sé ófúst til að fórna öryggi með því að kaupa nýjan bíl eða fara í framkvæmdir. Fyrirtækin finna síðan fyrir þessu enda um 70% bandaríska hagkerfisins byggt á einkaneyslu sem dregst saman. Þetta er sannkallaður kreppuspírall sem heilbrigt bankakerfi læknar ekki á nokkurn hátt. Vandinn sé ekki sá að kúnnarnir mæti á bílasölurnar og sé vísað frá af því að engin lán séu í boði, þvert á móti er vandinn sá að kúnnarnir mæta ekki á bílasölurnar yfirleitt af fyrrgreindum ástæðum.
James telur aðstæðurnar í bandaríkjunum ekki eiga sér neina hliðstæðu nema í kreppunni miklu sem hófst 1929 og leiddi til hruns á hlutabréfum og fasteignum ásamt þúsunda banka sem fóru í þrot. Því leitar hann þar fanga til að átta sig á umfangi þeirra örvunnarpakka sem Rosevelt setti inn í hagkerfið í the New Deal, sem voru hreint rosalegir. Þar sem risavirkjanir, flugmóðurskip, skólar, vegir, garðar og opinberar byggingar voru byggðar. T.d voru lagðar 700 þúsund mílur af vegum. Þegar Rosevelt hóf aðgerðir 1933 var atvinnuleysið 25%, en hann náði því niður í 10% á árinu 1935 með þessum aðgerðum sem stóðu fram að þáttöku bandaríkjamanna í seinni heimstyrjöldinni en þá tvöfaldaðist framleiðsla í bandaríkjunum, hvorki meira né minna. Það sem náðist ekki í gang við þessar aðgerðir var hið einkarekna bankakerfi og eftirspurn einkageirans. Ekki fyrr en að loknu stríðinu.
Niðurstaðan er þessi að mati James: Með því að skoða söguna og núverandi aðstæður er ljóst að endurreisn einka-fjármálageirans tekur langan tíma. Það gerist eftir að fjárhagur heimila hefur verið endurreistur. Af því leiðir að endurreisn bankakerfis með því að troða þá fulla af reiðufé virkar ekki! Virk stefna getur einungis virkað á hinn veginn. (hér er það ekki einungis almenningur sem er í kröggum heldur líka 2/3 hlutar atvinnulífsins)
Og hvað á þá að gera?
James telur að í kjölfar örvunarpakkanna hans Obama þurfi að koma aðrir og miklu stærri í kjölfarið. Efla þurfi hagkerfið með öllum ráðum og beina kröftunum að innviðum af ýmsu tagi. Efla þurfi heilbrigðis og eftirlaunakerfi, menntakerfi, huga að listum, menningu, félagsstarfi, viðhaldi opinberra mannvirkja. Átak í orkumálum og yfirleitt hvað sem vera skal til að finna verkefni fyrir þá sem hafa tapað vinnunni. Breyta þurfi húsnæðisfyrirkomulagi þannig að fólk geti leigt hús sín í stað þess að skila lyklunum eða verða gjaldþrota. Og þannig mætti áfram telja. Hann telur að lánadrottnar bandaríkjanna sýni því jafn mikið umburðarlyndi að fjármagna slík verkefni og að tapa peningum á kreppunni sem hlýst af því að gera þetta ekki.
Lokapunktur James er athyglisverður. Hann segir að kerfið verði ekki endurreist á fáeinum árum eins og tókst í síðari heimstyrjöldinni með framleiðslusprengingunni sem þá varð. Ekkert slíkt sé nú í boði og því engar skyndilausnir til að komast aftur í "eðlileg" ástand þar sem einkareknir bankar keyra hagkerfið. Eina leiðin sé langtímaplönum og ferðalagið geti tekið um 20 ár, eða rúmlega það.
Ég mæli með þessari athyglisverðu grein og skora á fólk að velta fyrir sér samhenginu við ástandið hér þar sem allir eru á öndinni yfir því að endurreisnarstarfið tefjist um vikur eða mánuði til eða frá. Enn er samt samanburður erfiður við bandaríkin og sumt er e.t.v skárra hér en þar en annað verra. Lánstraust íslands erlendis er t.d ólíkt verra en bandaríkjanna, og skuldastaða atvinnulífsins einnig mun verri en þar. Meginstef þessarar hugleiðingar James passar við álit margra annarra (t.d hins íslenska Gunnars Tómassonar hagfræðings) sem álíta að viss vatnaskil séu í hag- og peningakerfi heimsins.
Góðir hlutir gerast líklega mjög hægt í þessu ástandi.
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.