11.6.2009 | 01:16
Skilaboð Evu Joly voru hálfgert ísbað
Glæpir og refsingar eru mér afar neðarlega í huga, líklega vegna þess að ég las upp kvótann af glæpasögum sem barn og unglingur. Til viðbótar bætist síðan við endalaus síbylja glæpa- og réttarfarsþátta í sjónvarpi sem er svo yfirgengileg að ég hef oft velt því fyrirmér hvort að það sé einhverskonar meðvitað plan í gangi að dæla því yfir landann eða vestrænar þjóðir yfirleitt - í uppeldisskyni. Þetta hefur haft þau áhrif á mig að ég nenni sjaldnast að hugleiða lengi meint afbrot eða annað slíkt sem snýr að glæpum og refsingu, ekki fremur en ég tolli yfir imbakassanum. Og ég er lítið reiður út í svokallaða útrásarvíkinga eða annað fólk sem missti vit sitt og skynsemi síðustu árin í dansinum kringum gullkálfinn. Einhverskonar réttlætisdoði kannski?
Eftir viðtalið við Evu situr í mér einhver vangavelta sem ég næ ekki alveg utanum í bili. Ég var svo óheppinn að fá vísir að dellu fyrir hagfræði og peningamálum fyrir tæpum áratug eða svo og hef því fylgst nokkuð með ástandinu bæði hér heima og erlendis síðustu ár. Þegar nýir eigendur einkavæddu bankanna -sem þeir keyptu að hluta með lánsfé - þustu út á íslenska "markaðinn" strax eftir kaupin og keyptu upp flest stærstu fyrirtæki landsins og hófu síðan að bjóða 100% húsnæðislán áttaði ég mig á því að það var eitthvað verulega bogið við hlutina. Ég get því ekki sagt að ég hafi notið góðærisins fremur má segja að það hafi kostað mig hluta geðheilsunnar að reyna að botna í því sem var hér að gerast, nærri viss lengst af að við værum að brenna niður húsið í veislunni. Það sem var ótrúlegast við þetta tímabil var fréttaflutningurinn og gagnrýnisleysið. Svo sterk var sefjunin í landinu - almennt séð- og svo gjörólík því hvernig maður skildi hlutina sjálfur að erfitt er að lýsa því í fáum orðum.
Ég vaknaði því ekki upp við vondan draum í bankahruninu. En ég lái engum sem vaknaði þá upp við vondan draum því að ég veit það manna best hversu sterk glansmyndin var. Ég man líka eftir því hversu erfitt var fyrir leikmenn að átta sig á stöðunni, hversu erfitt var að spyrja spurninga ef mann grunaði eitthvað og hversu hraustlega viss mannskapur sló niður allar kenningar um að eitthvað væri bogið við hlutina. Ég man að ég var sammála Danske Bank þegar hann gagnrýndi íslenska módelið en samt -hálfpartinn- sannfærðu bankamenn og stjórnvöld mann um að hér væri þrátt fyrir allt í góðu standi. Svipaða sögu má segja um aðra gagnrýni sem hingað rak á land erlendis frá.
Í kvöld mætir þessi norsk-franska kona í Kastljósið og stillir íslenskum ráðamönnum upp við vegg. Hún segist ekki ætla að staldra hér við eða leggja nafn sitt við rannsókn á málunum nema hún verði gerð af fullum krafti. Í þokkabót segist hún þurfa einn saksóknara á hvern banka og her endurskoðenda. Hún sendi þeim lögmönnum sem hafa efast um hæfi hennar og yfirlýsingagleði afar skilmerkilega kveðju og útskýrði að þeir væru að bjóða sig upp sem lögmenn fyrir mögulega sakamenn. Hún hefur áður látið þess getið að þetta sé líklega stærsta (mögulega) sakamál evrópu síðari tíma. Þessi kona lítur ekki út eins og grínisti og ég held að það sé varasamt að gera eins og margir að túlka framkomu hennar í sjónvarpi í kvöld sem pólitískt trikk til að ganga í augu landsmanna til að halda djobbinu. Ég sé ekki að hún hafi neina þörf á slíkum sýningum hér út í ballarhafi og hafi nóg annað að sýsla.
Hingað til hef ég gert ráð fyrir því að afbrot mætti finna eftir bankaveisluna og við gætum fengið svipaðar niðurstöður eins og urðu t.d í Baugsmálinu. Fjármálaheimurinn hefur þrátt fyrir allt verið giska seigur að planta ýmiskonar þægilegum hraðbrautum inn í lagaumhverfi vesturlanda síðustu áratugi og því komist upp með margt sem kalla má löglegt en siðlaust. Mér sýnist Eva Joly ekki á sama máli varðandi ísland og nú spyr maður sig hvort að réttarfarsmyndin hér hafi verið sambærileg glansmynd og sú hagræna síðustu ár. Kannski er það rétt eftir allt að hér hafi verið framdir stórglæpir sem spanna viðskipti, stjórnmál og e.t.v embættismannakerfið. Hvað veit maður, sagan á til að endurtaka sig.
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.