8.6.2009 | 15:51
Stórabóla - myndasaga um skuldavæðingu
Eru frekari erlendar lántökur hluti af endurreisn?
Þessi spurning útheimtir skýringar á því hver vandinn er, hvernig varð hann til og þá í framhaldi hvernig er best að leysa hann? Það er fróðlegt að skoða víðara samhengi en bara útrásina. Athugið að það er hægt að stækka myndirnar með því að smella á þær. Þær eru flestar fengnar úr nýjasta hefti Peningamála seðlabankans.
Íslendingar fá hvergi lán nema fyrir tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sætta sig því við að taka ábyrgð á 650 milljarða IceSave til að komast í erlent lánsfé. Ástæðan fyrir því að enginn vil lána okkur er að öllum líkindum sú að tiltrúin á því að við getum endurgreitt er lítil. Skuldatryggingarálag ríkisins talar sínu máli, alþjóðamarkaðir heimta háa ávöxtun gegn því að tryggja skuldir ríkisins. Haustið 2007 byrjar að halla á ógæfuhliðina þegar krísan byrjaði erlendis.
Hallarekstur á viðskiptum við útlönd
Hér er mynd sem sýnir afgang af viðskiptum við útlönd frá því um seinna stríð. Íslenska hagkerfið hefur verið að vaxa gríðarlega á þessum tíma og í sjálfu sér ekkert athugavert við að það sé öðru hvoru einhver halli á viðskiptum við útlönd - t.d þegar ísland er að fjárfesta í framleiðslu sem aftur skapar auknar framtíðartekjur. Það er áberandi allra síðustu ár hvað hallinn er mikill í sögulegu samhengi og mætti ætla að hér hafi verið fjárfest gríðarlega í verkefnum til útflutnings sem skapa auknar gjaldeyristekjur til endurgreiðslu á þessum hallarekstri. Súlurnar sýna stöðuna sem hlutfall af landsframleiðslu.
Erlendar skuldir uxu hratt
Hér er erlend skuldastaða sem hlutfall af landsframleiðslu. Hreinar erlendar skuldir fara frá 20% og upp í 240% á tæpum þremur áratugum. Vorum við þá ríkari 1980 en í dag, eða vorum við nægilega dugleg við að byggja upp gjaldeyrisskapandi atvinnuvegi á móti skuldunum? Vandinn við að auka skuldirnar svo mikið sem hlufall af tekjum er augljóslega að einn góðan veðurdag duga ekki tekjurnar fyrir afborgunum og vöxtum. Það er þakið, eða e.t.v vendipunkturinn þar sem lánakjörin versna og vextir hækka og allt fer í steik. Það virðist sem það sé einhver vendipunktur í þessari þróun kringum 1996-7.
Og streymdu inn í hagkerfið gegnum bankana
Útlán bankakerfisins jukust og með sívaxandi hraða síðustu árin og þetta lítur út eins og veldisvöxtur. Hvað sem því líður þá sést að hluti þessa erlenda lánsfjár streymdi út úr bankakerfinu og inn í hagkerfið. Og margfeldisáhrif bankakerfis/seðlabanka ungaði út krónuskuldum með undraverðum og sívaxandi hraða. Þetta er þó vöxtur í hrá-krónum og ekki leiðrétt fyrir verðbólgu. Dálítið magnað að á árunum 2004-2007 skuli útlán bankakerfisins innanlands fimmfaldast á fjórum árum. Það er líka verðugt rannsóknarefni hvernig í ósköpunum fólki gat dottið í hug að verðbólga væri á undanhaldi á síðustu árum - þegar flestir vita að aukið peningamagn í umferð er uppskrift að verðbólgu! Þá er það spurningin hvert þessir peningar fóru?
Follow the money - úrvalsvísitalan
Hér er klassískt dæmi um það sem gerist þegar ofgnótt lánsfjár leiðir til spákaupmennsku í hlutabréfum, þetta er úrvalsvísitala kauphallarinnar, í dag nær þessi kúrfa niður undir botn á skala grafsins og flest fyrirtækin sem voru í þessari vísitölu eru horfin á vit sögunnar, eða til skilanefnda bankanna öllu fremur. Þeir sem bentu á að við værum í alvarlegri hlutabréfabólu höfðu furðulega lengi rangt fyrir sér, en svo á skömmum tíma breyttist það og þeir höfðu hárrétt fyrir sér. Fréttir liðinna missera sýna að þessi hlutabréfabóla var keyrð áfram af lánsfé, bæði til einstaklinga og ennfremur fyrirtækja af ýmsu tagi.
Follow the money - íbúðarhúsnæði
En þessi ofgnótt lánsfjár flæddi ekki bara í hlutabréf, heldur líka inn á fasteignamarkaðinn og keyrði þar upp verðið. Verðlag á bújörðum, sumarbústaðalandi, lóðum af ýmsu tagi - einkum á S.V horninu - fylgdi sömu þróun. Þessi húsnæðisbóla sem hér var var raunar alþjóðleg og ótrúlega svipuð gröf má skoða allt frá Ástralíu til Írlands, Spánar, Bandaríkjanna og nánast um allan heim. Hún náði þó ekki til Þýskalands, Sviss eða Frakklands svo heitið geti. Okkar fasteignabóla er óvenju eitruð vegna fyrirkomulags íslenskra fasteignalána - sem veldur áhyggjum um framhaldið.
Og eftir standa heimilin með skuldirnar
Eftir verðbólguskeið á níunda áratugnum voru íslensk heimili mjög lítið skuldsett. En þarna sést merkilega samfelld þróun sem hófst greinilega löngu fyrir útrásarævintýri.Þetta graf sýnir hlufallslegar skuldir og eins og áður sagði er þak á því hversu háar þær geta oriðið. Skuldir fyrirtækja, sjávarútvegsins (t.d út á óveiddan fisk) líta vafalaust eitthvað svipað út, sama þróun þar - skuldirnar allt of miklar.
Önnur hlið á skuldum eru eignirnar
Hér eru síðan eignir landans, sem eru jú hin hliðin á skuldunum. Hætti einstaklingar og fyrirtæki að borga - eða geta ekki borgað skuldir sínar þá minnkar þessi kaka að sama skapi. Ríkið er þó viss milliliður sem eigandi bankanna. Verðtrygging og háir vextir stækka þessa köku stöðugt og auka um leið skuldir einstaklinga og fyrirtækja - öðrum er ekki til að dreifa að borga þær. Í þessu er eins dauði annars brauð.
Þetta gríðarlega ójafnvægi í hagkerfinu sem birtist hér í formi of mikilla skulda, eða of mikilla eigna eftir því hvernig á málið er litið, endurspeglar líka mikla tilfærslu auðs upp aldursskalann. Almennt séð ætti verðbólga að vinda ofan af þessu ójafnvægi, en hér gerist það ekki vegna verðtryggingar og gengistryggingar á lánum. Ástandið versnar bara við verðbólgu. Þetta ójafnvægi er síðan mjög alvarlegt fyrir alla atvinnustarfsemi. Verðmætasköpunin í hagkerfinu er ekki næg til að borga allar skuldirnar/eignirnar.
Yfir allmörg síðustu ár virðist vera sem íslenska hagvélin hafi verið knúin áfram með sívaxandi erlendum lántökum. Meiri lán þurfti stöðugt til að viðhalda veislunni. Lengi vel hefði verið hægt að snúa við blaðinu en eftir því sem á leið leit það sífellt verr út. Nú hefur það hinsvegar gerst og það á sama tíma og flestir mælar virðast vera fullir. Það er því ekki skrítið að ríkisstjórnin leggi hart að sér við að útvega meira erlent lánsfé og að íslenskt atvinnulíf telji sig þurfa mikið af því. Ég er geri athugasemdir við að kalla slíkt endurreisn, ég sé fátt sjálfbært á þessum myndum hér ofar og finnst það glórulaust að ætla að reyna að viðhalda þessu skuldasöfnunaræði.
Mér líst illa á að taka risalán til að auka gjaldeyrisvaraforðann bara til að reyna að falsa upp krónugengið til að halda aftur af verðbólgu. Slíkir sjóðir eiga það til að gufa upp afar skyndilega og nýtast einkum sem meðgjöf með þeim krónum sem vilja flýja landið. Að auka erlendar skuldir er síðan að auka á vandann en ekki leysa hann.
Það sem er síðan dapurlegast af öllu er að þessi skuldasöfnun var hreinn óþarfi. Ísland hefur alla burði til að vera í fremstu röð hvað snertir lífsgæði og óþarfi að reyna að taka þau að láni.
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hrollvekjandi myndasaga en eins og kínverjar segja; mynd segir meira en þúsund orð.
Þetta er kýrskír sannleikur!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 8.6.2009 kl. 18:18
Takk fyrir innlitið og athugasemdina Jenný.
Og - já, þetta er svolítið hrollvekjandi því að það sem ég les úr þessum myndum er að við erum ekki í einhverju tímabundnu samdráttarskeiði, það sem er hér að gerast er uppgjör á langri þróun sem endaði með flugeldasýningu banka og útrásarvíkinga síðustu ár.
Ólafur Eiríksson, 8.6.2009 kl. 18:32
Ólafur þú gleymdir einu. Það streymdu jú peningar í hagkerfinu vegna þessarar lántöku eins og þú segir. Á sama tíma var líka verið að byggja virkjun sem enn jók peningamagn í umferð. Við þetta bætist svo að vitringarnir í sjálfstæðisflokknum lækkuðu skatta a.m.k. 3 á seinustu 6 árum og það í mestu uppsveiflu sem hefur verið á Íslandi. Þó geir h sé hagfræðingur hefur hann greinilega ekki lært mikið í þessum skóla sínum.
Hörður Valdimarsson, 10.6.2009 kl. 17:40
Sæll Hörður og takk fyrir innlitið og fína ábendingu.
Það er kannski til marks um lætin sem hér hafa verið síðustu ár að maður gleymir í þessari stuttu samantekt Kárahnjúkavirkjun í þessari samantekt, lang umfangsmestu framkvæmdum íslandssögunnar. (sem var reyndar svo stór á sínum tíma að áhöld voru á því að hagkerfið réði við hana) Já og skattalækkanir og ýmislegt fleira má fella að þessari mynd.
Kv.
Ólafur Eiríksson, 11.6.2009 kl. 00:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.