28.5.2009 | 15:05
Fátt sem kemur á óvart lengur
Í gær bárust fregnir af því að íslenskir bankamenn átu gullhúðað pasta þegar stemmingin var hvað best í góðærinu - eða voru það svið? Í dag er lögð fram tillaga á alþingi um að ganga inn í ESB. Þetta sérkennilega fyrirbæri sem hluti íslendinga virðast halda að sé rétt einn hraðbankinn sem bíði þess að vera tæmdur af velmenntuðum her innangylltra íslenskra viðskiptavíkinga. Aðrir eru þó betur upplýstir eins og gengur.
Maður skyldi ætla að það hefði verið einhver vísbending hér um árið þegar samið var um EES að þetta væri ekki einfaldur hraðbanki en sem kunnugt er þá fórnuðum við hálfu sjálfstæðinu fyrir aðgöngumiðann að innri markaði sambandsins. Þessu hefur verið lýst þannig að við fengum allt fyrir ekkert. Viðskiptahliðin þá væntanlega allt og sjálfstæðið ekkert?
Á sínum tíma þótti ekki við hæfi að bjóða þjóðinni upp á kosningar um EES samninginn enda var mikið í húfi fyrir efnahag landsins, svo mikið að þjóðinni var líklegast ekki treystandi til ákveða örlög sín í málinu. Ekki er minnsti vafi á því að EES samningurinn var efnahagslega mikilvægur, íslendingar hafa t.d notað farvegi hans til að gera sig gjaldþrota á ótrúlega skömmum tíma. Nokkuð sem hlýtur að teljast til afreka fyrir fámenna þjóð í stórri náttúru með vel menntaða stjórnmálamenn.
Þrátt fyrir gjaldþrotið hefur fólk enn dálæti á samningnum og þeim ávinningi sem hann hefur skilað þjóðinni - sem er að sögn mjög verulegur. Má þar nefna frjálsa fjármagnsflutninga til og frá meginlandinu sem voru mjög til þæginda til að flytja fjármagn úr landi. Þess ber e.t.v að geta að það eru ætíð sigurvegararnir sem rita söguna og erfitt að meta EES samninginn m.v ímyndað samhliða ferðlag landsins í tíma og rúmi, án hans yfir síðustu ár.
Sem betur fer fylgdi ýmislegt með í pakkanum af nothæfu regluverki, jafnvel réttarbætur sem þó voru líklegast ekki ástæðan fyrir því að stjórnmálamenn þess tíma sömdu til að byrja með, efnahagslegur ávinningur var megin forsendan. Nú virðist sagan vera að endurtaka sig og enn er efnahagslegur ávinningur settur á oddinn, nú sem fortaksröksemd fyrir því að ísland eigi að ganga inn í ESB. Til huggunnar er því skeytt aftanvið - að við fáum nú áhrif- væntanlega gegn því að tapa enn meira af sjálfstæðinu og fullveldinu.
Maður sér þó ýmis sjónarmið á bloggsíðum varðandi ESB, algengt sjónarmið er að íslenskir séu svo lélegir í stjórnsýslu að þeir ráði ekki við verkið og því betra að láta ESB um stjórnvölinn. Skiljanlega er þessu sjónarmiði ekki hátt hampað meðal stjórnmálamanna. Þeir vita líka sem er að við losnum ekki svo glatt við þá þó að við göngum inn í evrópusambandið. Ekki fremur en ýmislegt annað sem er okkur fjötur um fót í dag kjósi menn að líta þannig á hlutina.
En þjóðin er uppgefin. Hún er búin að fá nóg af ruglinu og skal engan undra. Nú er það spurningin hvort að hún er tilbúin til að taka farmiðann aðra leiðina -einhvert- með evrópu til framtíðar í þeirri von að aðild lækni íslenskt rugl. Eða hvort að það tekst að sannfæra hana um að aðrar leiðir og betri séu færar. Fyrsta vers í þeim leiðangri hlýtur að vera að minnka íslenskt rugl. Það kemur í ljós hvernig það gengur.
Hægt að ná samstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 38988
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.