9.5.2016 | 13:04
Forsetakosningar í undralandi
Nú hefur Davíð Oddson bætt sér í hóp frambjóðenda til forseta. Hann segir hugmyndina hafa kviknað á síðustu dögum, ef marka má lofgrein Hannesar um Davíð í Morgunblaðinu fyrir nokkru eru "síðustu dagar" teygjanlegt hugtak. Framboð Davíðs á sér líklega lengri aðdraganda.
Helstu rök Davíðs fyrir framboði eru þau að Ólafur Ragnar sé kominn fram yfir síðasta söludag á forsetastóli. Búinn að sitja of lengi. Þar vísar Davíð í viðtekin sannindi um að slímusetur valdhafa séu ekki heppilegar lýðræðinu. Gallinn við þessa skýringu er náttúrulega sá að sé Ólafur vanhæfur eftir langa valdasetu gildir nákvæmlega það sama um Davíð sjálfan. Þar fór það fyrir lítið.
Bæði Davíð og Ólafur bjóða sig fram til að standa vaktina á Bessastöðum. Spurningin er hvað þeir ætla að vakta þar? Varla eru það álftir og gæsir í túni Bessastaða, það hlýtur að vera alþingi sem nú þarf sérstakan vaktmann á Bessastöðum og einkar skemmtilegt að það séu þeir tveir sem vilja taka að sér verkið -Ólafur fann upp vakthlutverkið og Davíð fór nánast af hjörunum þegar vaktmaðurinn ræsti eldvarnarkerfið í fyrsta skipti. En nú vill Davíð líka.
Fáir menn á Íslandi hafa oftar rætt um þingræðisregluna en þeir Davíð og Ólafur, báðir eru andsnúnir breytingum á stjórnarskrá en vilja nú taka að sér að vakta þingið fyrir þjóðina. Þeir vilja ekki að hún geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um lagasetningar milliliðalaust (sennilega ekki treystandi fyrir því sakir reynsluleysis). Nei þeir vilja gerast einskonar hliðverðir sem ýmist samþykkja eða synja kröfum um þjóðaratkvæðagreiðslur eftir eigin geðþótta. Líklega er þetta hugsað hjá þeim til að verja þingræðið? ha?
Nú tekur Davíð sérstaklega fram að einungis þeir tveir séu færir um vakthlutverkið á Bessastöðum og ríður þar baggamun gríðarleg reynsla þeirra. Hvaða reynsla skyldi það nú vera? Þó báðir hafi vissulega mikla reynslu er sú reynsla harla ólík. Annar hefur sannarlega staðið umrædda "vakt" og farist það ágætlega úr hendi en hinn hefur á meðan hamast í pólitískum grjótburði og hagsmunavörslu sem gerir hann líklega vanhæfasta mann landsins til starfsins nema í huga lítils hóps hörðustu stuðningsmanna.
Talandi um harða stuðningsmenn þá er það svo skemmtilegt að þeir Ólafur og Davíð eiga sér sameiginlegan stuðningsmannahóp. Helstu einkenni þessa hóps er að hjá honum er IceSave málinu alls ekki lokið og ESB umsókn vofir enn yfir ásamt ýmsum vofum fortíðar. Ofan í kaupið steðjar síðan að óviss framtíð. Skiljanlega metur þessi hópur frambjóðendur til forseta alfarið eftir þessum línum og fær nú talsvert fyrir sinn snúð með þá Davíð og Ólaf báða í framboði. Nokkuð sem líklega tryggir að hvorugur verður næsti forseti.
Það er þetta sem er skrítnast af öllu við framboð Davíðs Oddsonar. Mátuleg yfirskrift þess er; sælt er sameiginlegt skipbrot.
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 38965
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Og viti menn, þessi færsla var tæpast fædd þegar Ólafur Ragnar dregur sig í hlé. :)
Ólafur Eiríksson, 9.5.2016 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.