21.3.2013 | 21:29
Sæstrengur er mjög áhugavert verkefni
Hinu megin við pollinn er stór markaður fyrir "græna" orku og greiðir fyrir hana hátt verð á álagstímum. Yfir nóttina þegar notkun er lítil er aftur í boði mjög ódýr orka, einkum þegar vindasamt er og vindmyllursvermar á meginlandinu framleiða á fullu. Verðið er semsagt mjög breytilegt sem býður upp á mikla möguleika - fyrir þá sem geta stýrt framleiðslu sinni og eru ekki háðir duttlungum vinda.
Tenging íslenska raforkunetsins við meginlandið mundi gjörbreyta því hvernig við rekum okkar virkjanir. Yfir álagstímann í Evrópu þegar öll starfsemi er í fullum gangi mundi L.V væntanlega keyra allar vatnstúrbínur á fullu til þess að selja sem mesta orku yfir strenginn til Evrópu, og líka til að anna innlendri eftirspurn.
Yfir nóttina snýst dæmið jafnvel alveg við. L.V dregur sem mest úr raforkuframleiðslu vatnsaflsvirkjananna og kaupir í staðinn ódýra orku frá Evrópu - sem er t.d framleidd með kjarnorku. Á meðan á þessu stendur hækkar (eða lækkar minna en ella) í vatnsmiðlunarlónum. Þannig má hugsa sér að stækka þurfi virkjanir, t.d. bæta við hverflum, án þess að breyta vatnsmiðlun/vatnsöflun fyrir viðkomandi virkjun. Munurinn í rekstrinum er að í stað þess að keyra viðkomandi virkjun á nærri föstum afköstum, verða þau mun breytilegri en ella.
Tenging af þessu tagi mun, ef vel tekst til, stórbæta nýtingu á því vatni sem L.V aflar með sínum miðlunum í dag. Lykillinn að öllu málinu er stórt hlutfall vatnsafls í íslenska orkunetinu.
Því er haldið fram að skynsamlegra væri að nýta orkuna hér heima til að skapa störf og styrkja innlendan iðnað. Fyrst er rétt að átta sig á því að ekki er endilega um stórkostlegan nettó útflutning á orku að ræða - væntanlega verður keypt á móti ansi mikið þegar verðið er lágt. Sæstrengur ryður því ekki út innlendum orkunotendum. En því miður er það þannig að með frekari uppbyggingu; stóriðju, iðnaðar eða jafnvel gróðurhúsarækt - þá erum við að taka slag í samkeppni við Kínverja í álinu og iðnaðinum og suður Evrópu í gróðurhúsunum. Þetta er ekki beint fýsilegur hópur að keppa við - launalega séð.
Fólk hefur áhyggjur af því að raforkuverð hérlendis muni hækka með tilheyrandi atvinnuspjöllum verði sæstrengur að veruleika. Í því samhengi er rétt að benda á að stærstur hluti heimila og fyrirtækja fær bróðurpart sinnar orku frá hitaveitu, en alls ekki raforku. Jafnvel þó svo að raforkuverð hækki eitthvað (sem þó er óljóst) þá erum við ansi vel í stakk búin að takast á við það, þökk sé hitaveitunni. Köld svæði eru augljóslega annað mál og grípa þyrfti til ráðstafana fyrir þau ef raforkuverð hækkar að ráði.
Helsti vandinn við þetta verkefni er að það er líklega ekki hægt að byrja smátt og láta reynsluna ráða framhaldinu. Fyrsta skrefið verður risastórt og eins fallegt að það verði rækilega rannsakað og vandlega undirbúið.
Fjölbreytt og góð áhrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.