Óheppnir Írar og áframhaldandi fjármálakrísa - tekur stjórnlagaþing á fjármálavaldinu?

Þegar leið að vori 2008 fóru íslensk stjórnvöld á stúfana að leita að erlendu lánsfé til að styrkja gjaldeyrisvaraforða seðlabankans. Skemmst er frá því að segja að það tókst ekki utan gjaldmiðlaskiptasamninga við norrænu seðlabankana. Glitnir var raunar yfirtekinn en þegar Landsbankinn kom í höfuð landsmanna þá voru engir valkostir lengur í stöðunni:

Seðlabanki Íslands getur jú framleitt krónur eftir smekk, líklegast í ómældu magni, en íslensku bankana vantaði ekki krónur, Þá vantaði erlendan gjaldeyri til að borga af lánum og standa straum af útflæði á erlendum netreikningum og fl. í þeim dúr. Það kom í ljós eitt sinn er haldinn var landsleikur í einhverri vinsælli boltaíþrótt -á vinnutíma á virkum degi- að gjaldeyrismarkaður með krónur fór í frí á meðan og viðskipti lögðust af meðan leikurinn stóð. Íslenska krónan hefur aldrei verið annað en innlendur gjaldmiðill og umræddur markaður með hana var á vegum íslenska bankakerfisins og seðlabanka Íslands.

Með íslensku bankana án varaforða og án lánstrausts erlendis og seðlabankann í sömu stöðu þá var engan erlendan gjaldeyri að fá fyrir nýprentaðar krónur. Ekki pund, evru eða dollar. Þegar Landsbankinn kemst mjög snögglega í kröggur eftir viðbrögð Breta þá var ballið búið. Engir valkostir lengur í stöðunni. Framvinduna þekkja allir.

Írar voru ekki jafn heppnir. Þeirra bankakerfi var raunar ekki jafn stórt hlutfallslega og það Íslenska en útlánastarfsemi þess var líklegast lærð í sama skóla. Írar nota líka evru sem gerir að verkum að innlendir sjóðir samanstanda ekki af litlum innanlands gjaldmiðli heldur alþjóðlegum, sem alþjóðlegir bankar taka sem greiðslu. Stóra atriðið er síðan að þeir höfðu aðgang að bakhjarli sem er Evrópski Seðlabankinn. Írska stjórnin gat því flumbrast til að veita þeim ríkisábyrgð og í samvinnu við Evrópska seðlabankann framlengt dauðastríði þeirra umtalsvert. En um leið flutt óráðsíuna yfir á írska skattgreiðendur. Þetta plan dugði þar til nýverið að þeir féllust á með semingi að fá stuðning frá ESB og AGS.

Frá sjónarhóli ESB, Þýskalands og Bretlands var Írland orðið að púðurtunnu sem gat sprungið hvenær sem var. ESB rær nú lífróður við að halda evrunni saman og lykillinn er að viðhalda stöðugleika í farlama bankakerfi Evrópu sem í raun þyrfti að setja yfir skilanefnd að verulegu leyti. Fyrir þjóðverja eru hagsmunirnir augljóslega þeir sömu og ESB hvað snertir evruna. En við það bætist að þýskir bankar hafa lánað u.þ.b 150 milljarða evra inn í írska bankakerfið. Sama saga er með Bretland sem býður nú lán til Íra upp á um 7 milljarða evra. Það er lítið brot af útlánum breskra banka til Írlands sem er um 140 milljarðar evra. Þar fyrir utan er Írland mikilvægur útflutningsmarkaður Breta. Í því ljósi eru viðbrögð þeirra afar skiljanleg og örlæti þeirra í garð Íra þarf hvergi að koma nærri þeirri ákvörðun.

Evrópski seðlabankinn var farinn að ókyrrast enda ótrúverðugt fyrir hann að lána hátt í landsframleiðslu Írlands inn í þarlenda banka. Bankahrun á Írlandi - t.d. ef stjórnvöld þar hefðu fengið skyndilega þá flugu í höfuðið að venda um kúrsinum og keyra bankana í þrot- hefði síðan leitt til gríðarlegs taps fyrir aðra banka, t.d. í Bretlandi og Þýskalandi og þá þyrftu stjórnvöld beggja ríkja heldur betur að opna budduna til að bjarga þeim. Að ekki sé nú talað um áframhaldandi smit banka- og evrukrísunnar yfir til Portúgal, Spánar og fl. ríkja. Í bili eru Írar því skattgreiðendur til þrautavara fyrir Þýska og Breska banka!

Staðreynd málsins er að evrusvæðið er púðurtunna og þær lausnir sem boðið var upp á til að leysa bankakreppuna -sem hófst 2007- virka ekki. Í bili eru það Írskir skattgreiðendur sem fá að axla skuldaklafann. Lykil spurningin er hvort og hversu mikið Írska bankakerfið verður minnkað og hversu mikið lánadrottnar þess fá af kröfum sínum. AGS mun örugglega stilla upp greiðsluplani sem verður algerlega á ystu nöf hvað snertir mögulega greiðslugetu. Fordæmið liggur fyrir í Lettlandi, Grikklandi og víðar. Sakbitin stjórnvöld verða að skera þjóðfélögin niður við trog til að rétta af hallarekstur ríkissjóða með tilheyrandi skerðingu á allri þjónustu, atvinnuleysi, landflótta á meðan einhvert er hægt að flýja o.s. frv. Næstu skref verður síðan sala ríkiseigna og auðlinda. 

Vestanhafs er ástandið síst skárra, lausnin þar er að skíra peningaprentun því hávirðulega nafni "quantitative easing" og dæla sífellt inn í hið villta vestur Wall Street bankakerfisins. Fyrirslátturinn er að með þessu muni bandarískir bankar fara að lána út peninga inn í bandarískt atvinnulíf og til neytenda, sem á að örva hagvöxt og skapa störf. Þetta gerist að sjálfsögðu ekki af því að bandarískir neytendur eru skuldsettir upp í rjáfur, húsnæðismarkaðurinn þar er enn að hrynja og um þriðjungur fasteignaeigenda með neikvæða eiginfjárstöðu. Bankarnir hafa engan áhuga á því að lána út fjármuni við slíkar aðstæður og fjármagnið fer allt í spegúlasjónir á alþjóðamörkuðum í hrávöru, afleiður og ekki síst erlenda gjaldmiðla. Skattgreiðendur heima í BNA fá reikninginn og restin af heiminum fær verðbólguna í heimsókn þegar spegúlantarnir keyra upp gengi gjaldmiðla þeirra, eigna- og hrávöruverð. Svo rífur kaninn bara kjaft við þá sem reyna að stýra sínum gjaldmiðlum eins og Kínverjar gera.

Góðu fréttirnar eru að fjármálakerfi vesturlanda mun líklega hrynja að óbreyttu innan fárra ára og þá skapast tækifæri til að byggja upp eitthvað af viti í stað þess. Slæmu fréttirnar er lærdómur sem auðvelt er að lesa um í skýrslu RNA. og blasir við um gjörvöll vesturlönd. Fjármálakerfið er alræmt sníkjudýr sem hefur náð hrikalegu tangarhaldi á vestrænum samfélögum. Eins og öll alvöru sníkjudýr hefur það plantað sér í haus hýsilsins og stýrir honum nú í eigin þágu. Trixið er að fá hann til að trúa því að velferð hans sjálfs grundvallist á velferð þess. Fjármálavaldið er með stjórnmálin í eftirdragi eða beinlínis á spenanum og menntakerfið í vasanum þar sem það mótar sjálft "fræðin" og stýrir þeim í hentugar áttir. Þetta kemur algerlega í veg fyrir bráðnauðsynlegar og róttækar aðgerðir gegn fjármálakrísunni og jafnvel eftir að allt er komið í kaldakol.

Skyldi stjórnlagaþing horfa til fjármálavaldsins, eða mun það einskorða sig við hin þrjú? Hvers vegna skyldi það gera það þegar við blasir hversu mikil áhrif það hefur?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sitt lítið af hverju

Höfundur

Ólafur Eiríksson
Ólafur Eiríksson
Óbreyttur
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • hjólhýsi
  • ...dsc00019
  • ...dild_888966
  • ...thusundkall
  • ...slit_877880

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband