Íslensk þýðing á grein Ellen Brown frá 4. ágúst 2010.: Hvað getur ríkið gert með sínum eigin banka: Hið eftirtektarverða módel Ástralska Commonwealth bankans

Hvað getur ríkið gert með sínum eigin banka: Hið eftirtektarverða módel Ástralska Commonwealth bankans 

Virg Bernero  borgarstjóri Lansing, Michigan, sigraði tilnefningu Demókrata til ríkisstjóra Michigan. Það gerir að verkum að banki í eigu fylkisins er nú raunverulegur möguleiki. Bernero er einn af að minnsta kosti tylft kandídata sem hvetur til lausnar af því tagi gegn slæmu efnahagsástandi. Það er framsækin hugmynd án tíðra fordæma í bandaríkjunum. Það vill svo til að Norður Dakota, sem er eina fylkið sem rekur sinn eigin banka, er líka eina fylkið sem státar af afgangi í rekstrinum, og þar er atvinnuleysi minnst í landinu; en þeir sem efast geta haldið því fram að þessi góða staða sé tilviljun. Frekari gögn þarf og sem betur fer eru til fordæmi úr öðrum löndum.

Eitt það dramatískasta er Commonwealth bankinn í Ástralíu sem starfaði með góðum árangri í ríkiseign megnið af tuttugustu öldinni allt þar til hann var einkavæddur 1990. Hinir skapandi stofnendur bankans sýndi að bankar í ríkiseigu geta búið til lán án fjármagns. Fyrsti bankastjórinn Dennison Miller sagði stoltur að bankinn þyrfti ekkert kapítal af því að hann væri bakkaður upp af gjörvöllum auði og fé allrar Ástralíu. 

Afrek Commonwealth bankans voru mögnuð þegar haft er í huga að á fyrstu átta árunum þá hafði hann ekki völd til að gefa út þjóðargjaldmiðilinn -- ólíkt seðlabanka bandaríkjanna Federal Reserve, sem öðlaðist það vald 1913. Commonwealth bankinn var því í sömu stöðu og fylki í bandaríkjunum eða sem aðildarríki í Evrópusambandinu (hugsaðu Grikkland) sem einnig skortir völd til að gefa út sinn eigin gjaldmiðil. Án þessa valds og án þess að hafa fjármagn í upphafi þá fjármagnaði bankinn bæði umfangsmikil verkefni í uppbyggingu innviða samfélagsins og þátttöku landsins í fyrri heimstyrjöldinni. Samkvæmt David Kidd, sem skrifaði grein árið 2001 undir heitinu; "Hvernig peningar eru búnir til í Ástralíu":

Banki sem ríkisstjórn Ástralíu stofnaði og var í ríkiseigu náði eftirtektarverðum árangri á meðan hann var "banki fólksins", áður en hann varð lamaður af síðari ríkisstjórn og loks seldur. Á þeim tíma þegar einkabankar kröfðust 6% vaxta fyrir lán þá fjármagnaði Commonwealth bankinn þátt Ástralíu í fyrri heimstyrjöldinni frá 1914 til 1919 með láni upp á 700 milljónir dollara á vöxtum upp á brot úr prósentu, og sparaði með því Áströlum einar 12 milljónir dollara vaxtagreiðslur. 1916 veitti hann fjármagn í London til að kaupa 15 gufuknúin flutningaskip til að styðja við vaxandi útflutning Ástralíu. Allt til 1924 hagnaðist Ástralska þjóðin á bankanum sínum. Hann fjármagnaði mauk og ávaxta farma upp að $3 milljónir, hann fann $8 milljónir fyrir Áströlsk heimili og á meðan $18.72 milljónir fyrir sveitarstjórnir til lagningu vega, byggingu: hafna, gasveita, raforkuvera os. frv. Hann borgaði $6.194 milljónir til ríkisins á tímabilinu frá Desember 1920 til júní 1923 - sem var hagnaðurinn af myntútgáfunni- og 1924 veitti hann hagnaði af annarri starfsemi $9 milljónir til niðurfellingar á skuldum. Hinn sjálfstætt þenkjandi bankastjóri Dennis Miller notaði lánagetu bankans eftir fyrri heimstyrjöldina til að bjarga Áströlum frá kreppuástandinu sem hrjáði önnur lönd ... Með sameiningu við aðra banka varð Commonwealth bankinn stærsta innlánastofnun Ástralíu með 60% allra innlána árið 1931.

 

Að beisla hið leyndardómsfulla afl bankastarfsemi í þágu almennings.


Commonwealth bankinn gat áorkað svo miklu sem raun ber vitni af því að fyrsti bankastjórinn Denison Miller og helsti hvatamaður að stofnun hans King O'Malley voru báðir bankamenn og þekktu leyndardóma bankastarfsemi: að bankar búa til einfaldlega til "peningana" sem þeir lána út með bókhaldsfærslum inn á reikninga lánþeganna.

Þetta leyndarmál bankastarfseminnar var staðfest af nokkrum fyrri tíðar innherjum. Í ritgerð frá 1998 sem heitir Framleiðsla peninga (“Manufacturing Money,”) vitnaði Ástralski hagfræðingurinn Mike Mansfield í Reginald McKenna,  fyrrum fjármálaráðherra, sem sagði hluthöfum Midland Bankans þann 25 janúar, 1924: "Ég er hræddur um að hinum almenna borgara mundi ekki líka það ef honum væri sagt að bankar gætu búið til og eyðilagt peninga og að þeir gerðu það. Upphæð þeirra peninga sem eru til breytist einungis með aðgerðum bankanna til að auka eða minnka innistæður og með kaupum þeirra." Við vitum hvernig þetta virkar. Hvert lán, yfirdráttur eða kaup banka býr til innistæðu og sérhver endurgreiðsla af láni, yfirdrætti eða banka sala eyðir innistæðu.

Dr. Coombs, fyrrum Bankastjóri seðlabanka Ástralíu sagði í ávarpi við Queensland Háskóla þann 15. september 1954. "Þegar banki lánar út peninga þá fær sá sem tekur lánið þá í hendur án þess að einhver annar eigi minna. Þessvegna er það sem að í hvert skipti sem banki lánar út peninga þá eykst heildarmagnið af peningum sem eru til."

Ralph Hawtrey sem var aðstoðarmaður fjármálaráðherra Bretlands á þriðja áratugnum skrifaði í Trade Depression and the Way Out (Viðskipti Kreppa og leiðin út): "Þegar bankar lána þá búa þeir til peninga úr engu" í bók sinni; The Art of Central Banking, (listin að seðla-bankast); "Þegar banki lánar út þá býr hann til kredit. Á móti aukningunni sem hann skráir sem eign kemur innlögn sem er skráð sem skuldbindingar. En aðrir sem lána fé hafa ekki hið dulúðuga vald til að búa til greiðslugetu úr engu. Það sem þeir lána út er fé sem þeir hafa öðlast með eigin efnahagslegu umsvifum."

Bankar geta það sem enginn annar getur: að búa til greiðslugetu úr engu. Hinir framsýnu stofnendur Commonwealth bankans beisluðu þetta vel varðveitta leyndarmál bankastarfseminnar til að þjóna almannahagsmunum.  

 

Bankahrunið 1893 elur af sér nýtt bankamódel


Commonwealth bankinn var stofnaður undir svipuðum kringumstæðum og nú ríkja: gríðarlegt bankahrun hafði riðið yfir landið. En árin upp úr 1890 þá var engin innistæðutryggingasjóður, engar almannatryggingar og engar atvinnuleysisbætur til að milda höggið. Fólk sem hélt að það væri vel sett komst skyndilega að því að það átti ekkert. Það gat ekki tekið sparifé út úr bönkum, skrifað ávísanir á reikninga sína eða selt framleiðslu sína né heimili, þar sem það voru engir peningar í umferð til að kaupa þau. Örvæntingarfullt fólk var farið að stökkva fram af brúm eða kasta sér á brautarteinana fyrir framan járnbrautarlestir. Eitthvað varð að gera.

Viðbrögð ríkisstjórnar verkamannaflokksins voru lagasetning árið 1911 sem lagði drög að banka í almannaeigu sem hefði að bakhjarli allar eigur ríkisins. Bankinn átti að vera bæði sparisjóður og almennur banki sem var mjög sjaldgæft á þeim tíma. Hann var líka fyrsti banki Ástralíu sem öðlaðist ríkisábyrgð.

Jack Lang var fjármálaráðherra ríkisstjórnar verkamannaflokksins 1920-21 og ríkisstjóri New South Wales á meðan kreppan mikla reið yfir (1929-) Hann var umdeildur maður og var látinn hætta störfum þegar hann hafnaði endurgreiðslum á lánum frá bönkum í London. Í bókinni : The Great Bust: The Depression of the Thirties  lýsir hann afrekum og hörmungum Commonwealt bankans á upplýsandi hátt. Hann skrifaði:

"Verkamannaflokkurinn ákvað að lands-banki, bakkaður upp með eignum ríkisins, gæti ekki fallið á tímum umróts í fjármálakerfinu. Hann gerði sér einnig grein fyrir því slíkur banki tryggði að til væru peningar til að fjármagna byggingu heimila og til annarra þarfa. Eftir hrun bygginga-samlaganna var mikill skortur á fé til slíkra nota.

".....Helsti hvatamaður að stofnun Commonwealth bankas var King O'Malley sem var litríkur maður, Kanadísk-Bandarískur. Áður en hann kom til Ástralíu hafði hann unnið í litlum banka í New York, sem frændi hans átti... Hann hafði orðið mjög hrifinn af því hvernig frændi hans framleiddi kredit. Bankinn gat búið til kredit og á sama tíma framleitt debit til að jafna bækurnar. Þetta var hin stóra uppgötvun á bankaferli O'Malley's. Sem fæddur sviðsmaður, þá klæjaði hann í fingurna að reyna þetta á stórum skala. Hann hóf sinn pólitíska feril í Suður Ástralíu með því að hvetja til stofnunnar viðskiptabanka í eigu fylkisins. 1901 fór hann á þing sem eins manns þrýstihópur fyrir stofnun Commonwealth bankans og gekk í verkamannaflokkinn með það fyrir augum."


King O'Malley krafðist þess að Commonwealth bankinn stýrði útgáfu eigin gjaldmiðils en tapaði þeirri orrustu - þar til 1920, þegar bankinn tók yfir útgáfu þjóðargjaldmiðilsins, rétt eins og bandaríski seðlabankinn gerði 1913. Þetta var upphafið að seðlabankavaldi Commonwealth bankans. En jafnvel áður en hann öðlaðist það vald þá var bankinn samt fær um að fjármagna gríðarleg samfélagsleg verkefni og varnarmál, og gerði það án fjármagns í byrjun. Þetta tókst fyrst og fremst vegna innsýnar og hugrekkis fyrsta bankastjórans Denison Miller.

Hinir banksterarnir, sem óttuðust samkeppni, héldu að með því að "einn af þeim" væri bankastjórinn þá gætu þeir haldið honum á mottunni. En þeir höfðu ekki reiknað rétt út þennan sjálfstæða mann sem þeir tilnefndu sjálfir, sem sá tækifærið sem fólst í banka með ríkið sem bakhjarl og var ákveðinn í því að búa til bestu stofnun landsins. Eins og Lang segir söguna:

"Fyrsta prófið kom þegar taka þurfti ákvörðun um hversu mikið grunnfé þyrfti að leggja til nýs banka af þessari tegund. Samkvæmt lögum þá hafði ríkið heimild til að gefa út skuldabréf að upphæð einni milljón breskra punda. Sumir töldu að sú upphæð nægði ekki og höfðu í huga það sem gerðist 1893...
"Þegar Denison Miller heyrði af þessu svaraði hann að það þyrfti ekkert grunnfé."

Miller vildi forðast að sækja fé til pólitíkusanna. Hann kæmist af án fjármagns. Eins og King O'Malley þá vissi hann hvernig bankar virka. (Þetta var að sjálfsögðu fyrir nútíma kröfur um eigið fé sem koma erlendis frá gegnum seðlabanka seðlabankanna BIS bankann í Sviss) Lang heldur áfram:

"Miller var eini starfsmaðurinn. Hann fann litla skrifstofu .... og bað fjármálaráðuneytið um 10.000 pund fyrirfram. Það var líklega fyrsta og líka síðasta skiptið sem samveldið lánaði bankanum einhverja peninga. Upp frá því var það allt í hina áttina.

"....Í janúar, 1913 hafði Miller lokið skipulagningu við opnun banka í hverju fylki samveldisins og einnig útibús í London... Þann 20. janúar, 1913 hélt hann ræðu og tilkynnti að nýi Commonwealth bankinn væri opinn fyrir viðskipti. Hann sagði: "Þessi banki byrjar án fjármagns, þar sem þess þarf ekki í augnablikinu, en hann er studdur öllum auði og kredit gjörvallrar Ástralíu"

"Í þessum fáu einföldu orðum var stofnsáttmáli bankans og trú Denison Miller, sem varð seint þreyttur á að endurtaka þau. Hann lofaði að skaffa umgjörðina til að nýta náttúruauðlindir landsins og að bankinn yrði alltaf banki fólksins. "Það er lítill vafi á því að með tíð og tíma þá verður hann flokkaður sem einn af bestu bönkum veraldar" bætti hann við spámannslega."

" ....Hægt og bítandi fór að renna upp fyrir einkabönkunum að þeir höfðu alið nöðru við brjóst sér. Þeir höfðu verið svo niðursokknir í áhyggjur af þjóðnýtingu bankanna að þeir höfðu ekki áttað sig á því að þeim stafaði miklu meiri hætta af samkeppni frá óhefðbundnum bankamanni sem hafði auðlindir landsins að baki sér.

"..... Eitt af fyrstu skiptunum þegar hann sýndi vöðvana var þegar framkvæmdasvið Melbourne borgar fór á stúfana á fjármálamarkaðnum til að endurfjármagna gömul lán en einnig til að afla nýrra fjármuna. Fram að þessum tíma, urðu fylkisstjórnirnar að reiða sig á lán frá London, ef frá eru taldir ríkisvíxlar og þeirra eigin sparisjóðir. Til viðbótar stífum tryggingakröfum þá komust þeir að því það besta sem þeir gætu búist við væru ein milljón punda á 4% vöxtum upp á 97.5 net.

"Þeir ákváðu því að ræða við Denison Miller sem hafði lofað að veita veita góð lán til slíkra stofnana. Hann bauð þegar í stað lán upp á þrjár milljónir punda með 4% vöxtum upp á 95 net. Þeir tóku boðinu snarlega. Aðspurður hvar þessi ungi banki hefði aflað alls þessa fjár svaraði Miller "út á kredit þjóðarinnar, Það er ótakmarkað."

Annað stórt próf kom 1914 með fyrri heimsstyrjöldinni:
"Fyrstu viðbrögð voru ótti við að fólk mundi þyrpast í bankana til að taka út peninga. Bankarnir gerðu sér grein fyrir að þeir væru enn viðkvæmir ef það gerðist. Þeir óttuðust að svarti föstudagurinn kynni að endurtaka sig.

"Haldinn var skyndifundur lykil bankamanna. Sumir þeirra tilkynntu að þegar sæjust merki um að bankaáhlaup væri í startholunum. Denison Miller sagði þá að Commonwealth bankinn mundi, fyrir hönd samveldisins, styðja hvaða banka sem væri í vandræðum.... Það var endir uppþotsins. En þetta setti Miller í bílstjórasætið. Nú na í fyrsta skipti þá tók Commonwealth bankinn forustu. Hann gaf fyrirmæli, í stað þess að lúta þeim...

"Denison Miller ... stjórnaði í raun og veru fjármögnun stríðsins. Ríkisstjórnin vissi ekki hvernig hún ætti að fara að því. Miller vissi það."

Og þannig heldur þessi áhugaverða saga áfram. Miller dó árið 1923 og 1924 komust banksterarnir aftur að stjórnvelinum og hindruðu umsvif Commonwealth bankans og komu í veg fyrir að hann bjargaði Áströlum úr hremmingum kreppunnar miklu á þriðja áratugnum. 1931 komu upp deilur milli stjórnar bankans og ríkisstjórnar verkamannaflokks James Scullin. Bankastjórinn neitaði að auka lánveitingar sem viðbragð við kreppunni miklu nema ríkisstjórnin skæri niður lífeyri, sem Scullin neitaði að gera. Átök kringum málið leiddu til þess að ríkisstjórnin féll og þar með kröfur verkamannaflokksins um endurskipulagningu bankans og beinni stjórn ríkisins á peningamálastefnunni.

Commonwealth bankinn öðlaðist nærri öll völd seðlabanka í neyðarlögum sem sett voru í síðari heimsstyrjöldinni og í lok hennar notaði hann afl sitt til að knýja mikinn vöxt efnahagslífsins. Á einungis fimm árum opnaði hann hundruð útibúa um gjörvalla Ástralíu. 1958 og 1959 skipti ríkisstjórnin honum upp og flutti seðlabankahlutann í 'Resverve Bank of Australia, en viðskiptabankastarfsemin sat eftir. Báðir bankarnir voru í opinberri eigu.

Að síðustu hafði Commonwealth bankinn útibú í hverjum bæ og hverju úthverfi; og úti í dreifbýlinu var hann í hverju pósthúsi eða sveitaverslunum. Sem stærsti banki landsins þá stjórnaði hann vaxtastiginu og markaði stefnu, sem aðrir urðu að fylgja af ótta við að tapa viðskiptavinum. Commonwealth bankinn var víða talinn einskonar tryggingafélag gegn misnotkun einkabanka, sem þjónaði til þess að allir hefðu aðgang að sanngjarnri og hlutlausri bankaþjónustu. Hann var alfarið í ríkiseign allt til síðasta áratugar tuttugustu aldarinnar en þá var hann einkavæddur. Þá breyttust áherslurnar yfir í að hámarka gróðann af starfseminni, með sífelldri fækkun útibúa, fækkun starfsfólks, skertu aðgengi að hraðbönkum os. frv. Hann er nú ekkert meira en hluti af einkabankakerfinu , en hvatamenn segja að hann hafi eitt sinn verið lífsblóðið í æðum landsins.

Í dag er endurvakinn áhugi á að endurreisa banka í eigu hins opinbera í Ástralíu eftir forskrift Commonwealth módelsins. Bandaríkin og önnur lönd gerðu vel í því að íhuga þann valkost líka. Allar tillögur að löggjöf í þá veru ætti að innihalda stífa varnagla um upplýsingaskyldu og ábyrgð. Commonwealth bankinn þjónaði Ástralíu frábærlega fyrstu 11 árin undir handleiðslu eins heiðarlegs manns. Denison Miller. Þegar hann féll frá 1923 þá var bankinn færður undir stjórn viðskiptamanna sem höfðu meiri áhuga á eigin hagsmunum en þjóðarinnar. Löggjöf þyrfti að setja til að hindra að það gæti gerst aftur.

<o>

Greinin er hér á frummálinu.


Ellen Brown þróaði rannsóknarhæfileika sína sem lögmaður í Los Angeles. Í Web of Debt, sem er sú síðasta af ellefu bókum hennar þá snýr hún þessum hæfileikum sínum í að greina seðlabanka Bandaríkjanna og "the money trust" Hún sýnir hvernig þessi einka-hringur hefur hrifsað til sín valdið til að búa til peninga frá þjóðinni og hvernig hún getur náð þeim aftur til baka. Vefsíður hennar eru:
www.webofdebt.comwww.ellenbrown.com www.public-banking.com.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sitt lítið af hverju

Höfundur

Ólafur Eiríksson
Ólafur Eiríksson
Óbreyttur
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • hjólhýsi
  • ...dsc00019
  • ...dild_888966
  • ...thusundkall
  • ...slit_877880

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband