Silfrið - Eva Joly, ESB, og fl.

Silfur Egils var nokkuð gott í dag (gær).

Kveðjuviðtal Egils við hina mögnuðu Evu Joly var fróðlegt. Í fyrsta lagi rifjaðist það upp fyrir manni hversu mikil áhrif aðkoma hennar hafði á stöðu sérstaks saksóknara. Gegn ,,kennivaldi" Evu máttu íslenskar úrtöluraddir sín lítils og þrátt fyrir andstöðu innan og utan ríkisstjórnar þá óx embætti sérstaks saksóknara margfalt. Vonandi upp í þá stærð sem nægjanleg er til að kryfja bankahrunið. Án hennar aðkomu (eða viðlíka ,,stjörnu") hefði þetta ekki gerst. Ummæli hennar um starfið vekja vonir og traust - sem er fágætt í íslensku samfélagi í dag. 

Það var athyglisvert hversu mikið var gert úr ummælum hennar -í fréttum og á bloggi- varðandi aðild Íslands að ESB sem sýnir hversu heitt það mál er orðið. Einnig var athyglisvert að rök hennar fyrir aðild Íslands að sambandinu voru fyrst og fremst af pólitískum toga. Það er ekki fráleitt að hún hafi þar nokkuð til síns máls. Á hinn bóginn ber að líta til þess að hún situr á Evrópuþinginu og hyggur á forsetaframboð í Frakklandi. Ljóst er að hennar viðhorf - sem Evrópubúa- eiga sér annan bakgrunn en okkar eyjaskeggja hér í miðju ballarhafi. 

Það sem mér þótti þó athyglisverðast voru orð hennar um sjálfbærni. Hún sagði beinlínis að finna þyrfti aðrar leiðir til að standa undir samfélagsuppbyggingu en hagvöxt. Hann gæti aldrei orðið undirstaðan eins og verið hefur. Auðvitað fór þetta fram hjá íslenskum fjölmiðlum eins og sumt annað sem miklu skiptir. Af þessu leiðir - beint eða óbeint-  að kasta verður fyrir róða úreltri hagfræðistefnu og finna nýjar leiðir. Alþjóðlega fjármálakreppan er að mínu mati skilgetin afurð þess að reyna að knýja fram hagvöxt með göldrum fjármálakerfisins þegar engin sérstök skilyrði voru til hagvaxtar. Árangurinn er fjármálakreppa og stórlaskað alþjóðlegt fjármálakerfi. Síðast en ekki síst hikar allt kerfið og tafsar því enginn veit hvaðan hagvöxtur Evrópu eða þess vegna Bandaríkjanna og Japan á að koma á næstu árum eða áratugum.Þetta er hryggjarstykkið í vanda vestrænna ríkja sem þekkja ekki aðrar leiðir en hagvöxt til að samfélögin rúlli eðlilega.  

Egill tók einnig áhugavert viðtal við helstu stjörnu kvikmyndarinnar FooD.inc. Ég sá þá kvikmynd fyrir skemmstu og naut því viðtalsins betur en ella. Bandarískur landbúnaður er orðin skelfileg hrollvekja þar sem sífellt færri og stærri fyrirtæki ráða lögum og lofum. Á kjötmarkaði eru örfá fyrirtæki með yfirgnæfandi markaðshlutdeild. Búin eru ógnarstór og þeir sem reka þau þrælar stórfyrirtækjanna sem byggja síðan vinnslu og afurðameðferð á ódýrasta vinnuafli sem til er. Þar meðtalið ólöglegum og réttlausum innflytjendum. Meðhöndlun á skepnum og fólki er eins og úr hryllingsmynd og mér, sem fyrrverandi sveitamanni, blöskraði hryllingurinn.

Eitt fyrirtæki í bandaríkjunum hefur fengið einkaleyfi á erfðabreyttum sojabaunum sem eru ónæmar fyrir gróðureyði - sem sama fyrirtæki framleiðir- og það ræður yfir 90% af soja-markaðnum. Og þrýstir sífellt fleiri bændum sem ekki vilja kaupa af þeim útsæði í þrot með málshöfðunum sem þeir gefast upp á að verjast sakir kostnaðar sem þeir ráða ekki við. Fjúki einkaleyfis-soja yfir í akra þeirra eru þeir ,,sekir" um að brjóta gegn einkaleyfi fyrirtækisins. Þetta er eins og beint upp úr sögu Orwells 1984. Til að bæta síðan gráu ofan á svart hefur þessi fyrirtækjamafía landbúnaðarins komið því í gegn að ólöglegt er að gagnrýna vörur þeirra þannig að gagnrýni er að mestu úr sögunni. Oprah Winfrey - sem er þó engin smákarakter- slapp naumlega eftir að hafa gagnrýnt hamborgara í þætti sínum. Málaferlin sem hún fékk á sig stóðu í á annað ár og eftir þau tjáði hún sig mest lítið um málið. Sjálf milljóna-dollara-konan! Þeir sem fátækari eru hafa ekki efni á slíkri gagnrýni - geta ekki varist fyrir dómstólum gegn stórfyrirtækjunum.

Í myndinni er þó vonarglæta sem felst í ,,lífrænum" búskaparháttum sem mjög eru að ryðja sér til rúms þar vestra. Sá búskapur líkist verulega íslenskum landbúnaði og staðfestir að slíkir búskaparhættir eru að mati efnaðri bandaríkjamanna mun æskilegri en hin risavöxnu verksmiðjubú. Þetta hljóta Íslendingar að þurfa að taka til greina þegar kemur að aðild að ESB.  Skuggahliðin á ódýrustu matvælum bandaríkjanna er að þau eru óhollur óverri - framleiddur við mannfjandsamlegar aðstæður. Ekki er því allt fengið með nógu og ódýrum matvælum þegar dæmið er skoðað í heild. Trúlega gildir það sama í Evrópu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sitt lítið af hverju

Höfundur

Ólafur Eiríksson
Ólafur Eiríksson
Óbreyttur
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • hjólhýsi
  • ...dsc00019
  • ...dild_888966
  • ...thusundkall
  • ...slit_877880

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband