29.8.2010 | 14:56
Viðrar vel til kattasmölunnar inn í ESB?
Það er athyglisvert að Þorsteinn Pálsson, Mörður Árnason og Sigurður Kári Kristjánsson skuli vera orðnir sammála um að kjósa þurfi sem fyrst á um tillögu þess efnis að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þessir menn eru nú ekki vanir að deila skoðunum um eitthvað sem viðkemur því.
Eins og ég skil málið hefur umræða síðustu daga skilað fram þeirri vitneskju að leggja verður fyrir alþingi - trekk í trekk - breytingar á stjórnsýslunni sem fylgja aðildarferlinu. Málið snýr ekki þannig að samninganefndir hjúfri sig í lokuðum herbergjum næstu misserin á meðan lífið gengur sinn vanagang á alþingi. Og skili að því loknu út "samningi" sem lagður verður í þjóðaratkvæði. Nei, alþingi verður að vera með í aðildarferlinu. Það þýðir að andstæðingar aðildar munu fá mörg tækifæri til að hindra það, sem og vonda samvisku yfir því að veita því framgang kjósi þeir svo. Útlit er fyrir að Jóhanna verði því að stunda meiriháttar kattasmölun meðal stjórnarflokkanna aftur og aftur þegar kemur að atkvæðagreiðslum til að keyra breytingar gegnum þingið eftir því sem ferlinu vindur fram. Jón Bjarnason Landbúnaðar- og Sjávarútvegsráðherra er mótfallinn aðild að ESB og kveinkar sér yfir því að þurfa að vinna aðildarferlinu framgang, sér þvert um geð. Það er skiljanlegt ef hann hefur ekki fyrr gert sér grein fyrir því hvernig þetta virkar.
Tillagan sem slík er einföld og afdráttarlaus. Samþykkt hennar yrði að sjálfsögðu sigur fyrir andstæðinga aðildar. Fullnaðarsigur. En hvað gerist ef hún verður felld - fær þá Jóhanna í hendur verkfærið sem hana vantar til að knýja VG til að klára með sér aðildarferlið? Verði tillagan felld má líta á það sem stuðningsyfirlýsingu alþingis við ferlið, óbeint að vísu. Það er spurning hvort að hér sé ekki gullið tækifæri fyrir Jóhönnu. Að taka eina alvöru kattasmölun strax í stað þess að þurfa að rekast í sífelldum smalamennskum fram eftir öllu kjörtímabilinu. Hið síðara er raunar dæmt til að mistakast.
Einhverja kosti sjá þeir Mörður og Þorsteinn við að afgreiða þessa tillögu sem fyrst. Kannski viðrar vel til kattasmölunnar einmitt núna?
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.