7.4.2016 | 00:07
Sjávarháski í stjórnarráðinu
Á fallegum degi í slettum sjó sást skyndilega röst eftir sjónpípu í fjarska. Áður en áhöfnin vissi hvaðan á sig stóð veðrið kvað við sprengjugnýr. Jóhannes aflandseyjabani var mættur á miðin!
Fyrsta skotið afgreiddi skipstjórann á stjórnarskútunni og hann mun dvelja í sjúkrarými neðan þilja á næstunni, þó ekki utan kallfæris. Fyrsti stýrimaður tognaði illa í framan í atlögunni og tók því ekki við stjórn, þess í stað var kokkurinn munstraður við stjórnvölinn. Helsta ástæðan fyrir því er að hann ku vera skotheldur og ekki viðkvæmur í framan.
Seglin eru rifin og skútan hefur tekið á sig talsverðan sjó. Stímt er til lands með allar dælur á fullu undan veðrinu, samt verður reynt að kasta veiðarfærum þegar komið er fyrir Horn til að reyna nú að bjarga róðrinum. Óvíst er með gæftir á þessari slóð.
Vitað er af kafbáti Jóhannesar í grendinni sem er drekkhlaðinn skotfærum. Fyrsta skot hans var beint í mark, hvar lendir næsta bomba frá honum?
Skipverjar eru uggandi yfir stöðunni og ekki bætir uppgangur sjóræningja á íslandsmiðum úr skák. Siglingin heim verður ekki tíðindalaus, svo mikið er víst!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2016 | 21:54
Einmitt það sem vantaði
Eftir að heimspressan hefur fjallað um afsögn íslenska forsætisráherrans í allan dag kemur þessi dæmalausa yfirlýsing.
Setja verður upp rústabjörgunarteymi til að losna við manninn áður en egótripp hans veldur enn meiri skaða.
![]() |
Segir Sigmund ekki hafa sagt af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2016 | 15:08
Nú væri gott að hafa alvöru ríkisstjórn
Í Kastljósi gærkvöldsins komu fram margvíslegar upplýsingar sem bregðast þarf við. Við blasir að myndarlegur hópur íslendinga hefur stofnað til aflandsfélaga í hundraðavís. Félaga sem að öllu jöfnu miðast að því að forðast skattgreiðslur, dylja eignarhald og fleira í þeim dúr. Skyndilega liggja nú fyrir verulegar upplýsingar um þessi félög og eigendur þeirra.
Nýgengnir dómar sýna að stórkostlegt misferli átti sér stað í fjármálakerfinu árin fyrir bankahrun og stórar fjárhæðir fóru á milli félaga í vafasömum viðskiptum. Þó nokkuð hafi verið gert fer því fjarri að sú saga hafi verið gerð upp til fulls. Mjög líklegt er að hinn stóri gagnaleki frá lögfræðifirmanu á panama gæti fyllt út í þá mynd að einhverju leyti. Upplýst um frekara misferli eða varpað skýrara ljósi á það sem þegar er vitað, hugsanlegt er að þarna dúkki upp eitthvað af þeim fjármunum sem rötuðu á svokallaða peningahimna og svo eru það náttúrulega skattamálin sem eru brýnt réttlætismál.
Sæmileg ríkisstjórn í lýðræðisríki, ríkisstjórn sem starfar fyrir þorra umbjóðenda sinna - almenning. Svoleiðis ríkisstjórn mundi varla bíða boðanna heldur einhenda sér í að afla þessara gagna og hefja starfið tafarlaust.
Höfum við þannig ríkisstjórn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2016 | 20:35
Vertu blessaður Sigmundur
Á þessu örbloggi er bæði sjaldan og lítið fjallað um pólitík. Nú er hinsvegar tilefni til að kveðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráherra og þakka honum unnin störf.
Málið byrjar þannig að Sigmundur er spurður af sænskum fréttamanni út í aflandsfélög almennt og síðan hreint út um hans eigið félag Wintris. Svörin hljómuðu sannarlega eins og ósannindi og svo undansláttur samhliða fáti áður en hann sleit viðtalinu.
Í kjölfarið birtir eiginkona hans færslu á facebook til að svara "gróusögum". Já hún sagði gróusögum. Málsvörn forsætisráherra síðan hefur byggst á því að hann hafi gefið allt upp til skatts annarsvegar. Hinsvegar að um sé að ræða pólitíska aðför að sér af hálfu RÚV og fleiri aðila. Og svo eru þeir sem hafa gagnrýnt hann ýmist klappstýrur útrásarinnar og fjármálaóreiðu eða eitthvað þaðan af verra.
Viðbrögðin eru semsé: Ósannindi, hálfsannindi og svo það versta af öllu, ómálefnalegt skítkast og óhróður um saklaust fólk.
Aflandseyjamálið hefði hugsanlega mátt fyrirgefa Sigmundi undir öðrum kringumstæðum. En viðbrögð hans við málinu eru ófyrirgefanleg.
Farvel Sigmundur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar