21.10.2012 | 12:07
Vátryggingarákvæði gegn trúarbrögðum
Stundum er skynsamlegt að borga litla fjárhæð á ári til að tryggja sig gegn skakkaföllum. Í gær gerði ég það þegar ég kaus með þjóðkirkju í stjórnarskrá.
Sjónarmiðið er einfalt; Ríkisrekin einokun á trúfélagskmarkaði virðist tryggja veraldlegt áhrifaleysi trúarsafnaða. Farsælla gerist það varla.
Mig grunar að ég sé ekki sá eini sem kaus með þetta bak við eyrað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2012 | 14:04
Uppfærsla stjórnarskrár er tímabær
Fyrir nokkrum árum varð mér það á að lesa íslensku stjórnarskrána. Líklega var það kringum fyrstu synjun forseta á lögum frá alþingi, en þá var einmitt deilt um málskotsréttinn sem margir töldu að væri einungis táknrænn.
Plaggið vakti furðu mína því þar er í sífellu tönnlast á forseta, rétt eins og hann væri sjálfur sveifarásinn í stjórnkerfisvél landsins. Þetta þótti mér skrítið enda vanur því að forseti væri til friðs sem settlegur veislustjóri á hátíðisdögum og gróðursetti tré þess á milli.
Stjórnarskráin fannst mér lýsa öðru stjórnarfyrirkomulagi en því sem var við lýði og þurfti ég að lesa langar sögur og elta uppi lögskýringar; alla leið upp í Sigurð Líndal til að fá heillega brú milli plaggsins og veruleikans!
Við synjun forseta á fjölmiðlalögunum frægu kom síðan í ljós að þessi brú var byggð út í loftið, annar endinn hafði enga landfestu. Þegar á hólminn var komið var það bókstafur stjórnarskrárinnar sem gilti. Málskotsréttur forseta var þarna skýr hvað sem öllum hefðum og túlkunum leið.
Það kom mér því ekki á óvart að alþingi, eða öllu fremur stjórnmálaflokkarnir settust á rökstóla eftir synjun og þrefuðu um breytingar á stjórnarskránni. Það var reyndar gert fyrir luktum dyrum og krafist var trúnaðar um viðhorf flokkanna til breytinganna. Fátt hefur lekið um þessa vinnu sem engu skilaði. Vinnubrögð af þessu tagi vitna ekki um neitt annað en grundvallar misskilning, eða gagngera fyrirlitningu á samfélagssáttmála þjóðarinnar.
Þrátt fyrir ýmsar hrakfarir og óljósa framvindu - eru vinnubrögðin kringum þær breytingar sem er kosið um í dag vægast sagt gífurleg framför frá þeim ósköpum sem stjórnmálaflokkarnir buðu upp á síðast.
Tillögur stjórnlagaráðs eru dæmigerð málamiðlun, ganga mun skemur á ýmsum sviðum en ég kysi og lengra á öðrum. Öfugt við það sem sumstaðar er haldið fram er þó gamla stjórnarskráin hryggjarstykkið í nýja plagginu og því fráleitt að tala um "byltingu" eða "atlögu" að stjórnskipan landsins sem er nær óbreytt.
Nægilega margt er þar betra og skýrara en í þeirri gömlu til að mæta á kjörstað og segja JÁ við þeirri spurningu hvort leggja skuli tillögurnar til grundvallar "nýrri" stjórnarskrá.
Hvaða skoðun sem fólk kann að hafa á tillögunum er mikilvægt að mæta á kjörstað, sinnuleysi um stjórnarskrá er ekki í boði þegar traust á alþingi er við frostmark.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2012 | 11:06
Furðulegur sprengjufarsi
Hjálpsemi bandarísku alríkislögreglunnar er viðbrugðið. Hún útvegaði hinum 21 árs gamla Quazi 1000 pund af óvirkum sprengjuefnum. Engra annarra samverkamanna er getið, þannig að flugumaður alríkislögreglunnar hefur ekki bara verið sætasta stelpan á ballinu, heldur jafnvel eina stelpan á ballinu sem Quazi gat boðið upp í dans.
Kannski hefur alríkislögreglan líka verið svo vinsamleg að útvega Quazi aura fyrir bílnum og kveikibúnaðinum í sprengjuna?
Kannski væri Quazi bara enn að röfla á netinu ef alríkislögreglan hefði ekki tekið hann upp á sína arma? Án samverkamanna, án sprengiefna og hættulaus með öllu.
![]() |
Hótaði einnig að myrða Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2012 | 03:20
Íþróttafólk sem fyrirmyndir
Einhversstaðar og einhverntímann fæddist sú hugmynd að íþróttamenn væru góðar fyrirmyndir. Sú hugmynd er í takt við kenninguna; "Heilbrigð sál í hraustum líkama" Þessi hugmynd lifir enn mjög góðu lífi, raunar svo góðu að ætla mætti að íþróttafólk sé einhverskonar æðri stofn - í flokki með kóngafólki og kvikmyndastjörnum.
Nú er nokkuð þekkt hvað þarf til að verða topp íþróttamaður: heppilegar erfðir, góða heilsu, viðunandi atlæti, gríðarlega ástundun og loks andleg geta til að skila árangri á réttum stað á réttum tíma.
Án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr þessu, þá er greinilegt að þetta nægir ekki til að vera góð fyrirmynd upp á nútíma kröfur. Dagleg birtingarmynd þess er sífellt japl og jaml og fuður í fjölmiðlum um misgjörðir íþróttafólks utan vallar og jafnvel alla leið inn í innstu kima einkalífs. Þannig er íþróttafólk orðið að sífelldri hneykslunarhellu.
Þetta er semsé eins og allir vita; að íþróttafólk jafn misjafnt og það er margt og ef frá er talið líkamlegt atgervi, engu betri fyrirmyndir en aðrir.
Í þessu ljósi eru kröfur um hegðun íþróttafólks utan vallar fremur skringilegar. Krafan virðist vera að það eigi að vera kurteisar og andlega ferkantaðar íþróttavélar sem styggja engann og halda sig kyrfilega innan ramma félagslegs réttrúnaðar og viðurkenndra skoðana. Að vera settlegir auglýsingastandar fyrir kostendur.
Skammt er að minnast þess þegar fjölmiðlar fóru hamförum yfir golfaranum Tiger Woods sem stundaði framhjáhald í heildsölu. Slíkt þótti varpa afar slæmu ljósi á "sportið". Einn keppinauta Tiger sagðist aðspurður(af lafmóðum fréttahauk) ekki átta sig á því hvað einkalíf Tigers kæmi sér eða sportinu við! Ég man að mér þótti tilsvarið gott og afhjúpa skemmtilega innihaldsleysið í málinu sem var alfarið persónulegt fyrir meistarann og hans fjölskyldu.
Kannski væri upplagt fyrir fjölmiðla að hætta að hefja íþróttafólk á aðra stalla en það verðskuldar og einbeita sér að því sem gerist á keppnisvellinum!?
![]() |
Hvað mega enskir landsliðsmenn gera? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2012 | 12:30
Eins og til var sáð á fasteignamarkaði
Útlán í fjármálakerfinu fóru úr böndunum í góðærisblöðrunni. Vopnaðir gnótt lánsfjár börðust Íslendingar sín á milli um fasteignir, sem olli ósjálfbærri verðhækkun. Gríðarlega hár kostnaður lánanna var falinn í verðtryggingunni og gengistengingum. Greiðslumatið var slappt og krafa um útborgun engin í mörgum tilvikum. Þetta er hið íslenska sub-prime.
En það er ekki nóg með að þessi mikla útlánaþensla þrykkti fasteignaverði í ósjálfbærar hæðir heldur kynti hún líka undir neyslu langt umfram getu hagkerfisins. Sem olli miklum og langvarandi hallarekstri á gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar og rýrði þar með verðgildi krónunnar stórkostlega. Afleiðingarnar eru að sjálfsögðu gengisfall og verðbólga.
Jafnvel án helstu ævintýra útrásar- og hringrásarvíkinga og án hrikalegs brasks bankavina hefði fjármálakerfið íslenska hrunið í fjármálakreppunni. Alveg eitt og óstutt. Í þessum efnum mun ekkert breytast fyrr en fókusinn er settur á rétta hluti.
![]() |
Höfum ekki lengur efni á meðalíbúð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sitt lítið af hverju
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar