Furðulegur sprengjufarsi

Hjálpsemi bandarísku alríkislögreglunnar er viðbrugðið. Hún útvegaði hinum 21 árs gamla Quazi 1000 pund af óvirkum sprengjuefnum. Engra annarra samverkamanna er getið, þannig að flugumaður alríkislögreglunnar hefur ekki bara verið sætasta stelpan á ballinu, heldur jafnvel eina stelpan á ballinu sem Quazi gat boðið upp í dans.

Kannski hefur alríkislögreglan líka verið svo vinsamleg að útvega Quazi aura fyrir bílnum og kveikibúnaðinum í sprengjuna?

Kannski væri Quazi bara enn að röfla á netinu ef alríkislögreglan hefði ekki tekið hann upp á sína arma? Án samverkamanna, án sprengiefna og hættulaus með öllu.


mbl.is Hótaði einnig að myrða Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttafólk sem fyrirmyndir

Einhversstaðar og einhverntímann fæddist sú hugmynd að íþróttamenn væru góðar fyrirmyndir. Sú hugmynd er í takt við kenninguna; "Heilbrigð sál í hraustum líkama" Þessi hugmynd lifir enn mjög góðu lífi, raunar svo góðu að ætla mætti að íþróttafólk sé einhverskonar æðri stofn - í flokki með kóngafólki og kvikmyndastjörnum.

Nú er nokkuð þekkt hvað þarf til að verða topp íþróttamaður: heppilegar erfðir, góða heilsu, viðunandi atlæti, gríðarlega ástundun og loks andleg geta til að skila árangri á réttum stað á réttum tíma.

Án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr þessu, þá er greinilegt að þetta nægir ekki til að vera góð fyrirmynd upp á nútíma kröfur. Dagleg birtingarmynd þess er sífellt japl og jaml og fuður í fjölmiðlum um misgjörðir íþróttafólks utan vallar og jafnvel alla leið inn í innstu kima einkalífs. Þannig er íþróttafólk orðið að sífelldri hneykslunarhellu.

Þetta er semsé eins og allir vita; að íþróttafólk jafn misjafnt og það er margt og ef frá er talið líkamlegt atgervi, engu betri fyrirmyndir en aðrir.

Í þessu ljósi eru kröfur um hegðun íþróttafólks utan vallar fremur skringilegar. Krafan virðist vera að það eigi að vera kurteisar og andlega ferkantaðar íþróttavélar sem styggja engann og halda sig kyrfilega innan ramma félagslegs réttrúnaðar og viðurkenndra skoðana. Að vera settlegir auglýsingastandar fyrir kostendur.

Skammt er að minnast þess þegar fjölmiðlar fóru hamförum yfir golfaranum Tiger Woods sem stundaði framhjáhald í heildsölu. Slíkt þótti varpa afar slæmu ljósi á "sportið". Einn keppinauta Tiger sagðist aðspurður(af lafmóðum fréttahauk) ekki átta sig á því hvað einkalíf Tigers kæmi sér eða sportinu við! Ég man að mér þótti tilsvarið gott og afhjúpa skemmtilega innihaldsleysið í málinu sem var alfarið persónulegt fyrir meistarann og hans fjölskyldu.

Kannski væri upplagt fyrir fjölmiðla að hætta að hefja íþróttafólk á aðra stalla en það verðskuldar og einbeita sér að því sem gerist á keppnisvellinum!?


mbl.is Hvað mega enskir landsliðsmenn gera?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og til var sáð á fasteignamarkaði

Útlán í fjármálakerfinu fóru úr böndunum í góðærisblöðrunni. Vopnaðir gnótt lánsfjár börðust Íslendingar sín á milli um fasteignir, sem olli ósjálfbærri verðhækkun. Gríðarlega hár kostnaður lánanna var falinn í verðtryggingunni og gengistengingum. Greiðslumatið var slappt og krafa um útborgun engin í mörgum tilvikum. Þetta er hið íslenska sub-prime.

En það er ekki nóg með að þessi mikla útlánaþensla þrykkti fasteignaverði í ósjálfbærar hæðir heldur kynti hún líka undir neyslu langt umfram getu hagkerfisins. Sem olli miklum og langvarandi hallarekstri á gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar og rýrði þar með verðgildi krónunnar stórkostlega. Afleiðingarnar eru að sjálfsögðu gengisfall og verðbólga.

Jafnvel án helstu ævintýra útrásar- og hringrásarvíkinga og án hrikalegs brasks bankavina hefði fjármálakerfið íslenska hrunið í fjármálakreppunni. Alveg eitt og óstutt. Í þessum efnum mun ekkert breytast fyrr en fókusinn er settur á rétta hluti.


mbl.is Höfum ekki lengur efni á meðalíbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki kaupa köttinn í sekknum - 3G er ekki bara 3G

Ef til stendur að kaupa snjalltæki, t.d síma eða tölvu, með nettengingu gegnum símkerfið er ágætt að hafa í huga;

Til þess að hafa símasamband á Íslandi þarf tækið að styðja GSM tíðnir 900 eða 1800Mhz, helst báðar. Gegnum þessar tíðnir er hægt að fá (afar) hægt netsamband t.d GPRS, EDGE.

Til þess að fá hraðara netsamband sem gerir kleyft að vafra um netið og jafnvel kíkja á youtube er 3G málið. Eftir því sem ég kemst næst eru tvær tíðnir notaðar fyrir 3G hér; UMTS-900 og UMTS-2100Mhz.

UMTS-2100MHz býður upp á hraðara samband en hefur minni drægni, sem þýðir að hún er bundin við helstu þéttbýlisstaði. Ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að flest 3G tæki styðji þessa tíðni.

UMTS-900Mhz er það sem síminn kallar 3GL, eða langdrægt 3G. Hún býður ekki upp á jafn mikinn hraða og 2100 en næst miklu mun víðar. Þessi tíðni er því einkar mikilvæg til að halda sæmilegu netsambandi utan helstu þéttbýliskjarna. Einungis hluti 3G tækja styðja þessa tíðni og sum eru því sambandalaus nema þar sem þau ná í 2100Mhz - sem er óvíða hérlendis. Ástæðan fyrir þessum pistli er einmitt sú að ég er með 3G lykil frá TAL sem styður alls ekki þessa tíðni og er því að heita má netsambandslaus utan þéttbýlis!

Seljendur tækja nota gjarnan skammstöfunina WCDMA yfir 3G tíðnir sem mér sýnist að þýði u.þ.b það sama og UMTS

Hér er dæmi um lýsingu á snjallsíma;

Connectivity Technology: GSM network & WCDMA - Standard SIM card (Dual SIM)

Network Band: GSM 850/900/1800/1900 MHz & WCDMA 850/2100MHz

Þessi sími virkar á Íslenska GSM kerfinu með bæði 900 og 1800MHZ tíðnir studdar.

Hann virkar líka á 3G, en einungis á 2100 Mhz - 900Mhz tíðnina vantar. Hann styður aftur á móti 850Mhz 3G  sem er notað vestan-hafs og víðar, en ekki hér.

Annað dæmi;

Dual SimCard Dual Standby/ Single Card
Unlocked 2G GSM 800/850/1800/1900MHz

3G WCMDA 850/1900/2100MHz 

Þessi sími styður ekki 900Mhz GSM tíðnina sem þýðir væntanlega að hann hefur takmarkaða notkunarmöguleika sem sími í dreifbýli og hann styður ekki heldur 900Mhz 3G sem útilokar langdrægt 3G hérlendis eins og áður sagði.

Loks er hér einn sem styður þær GSM og 3G tíðnir sem notaðar eru á Íslandi.

 

WCDMA 900/2100,GSM 850/900/1800/1900

 

Viðbótarupplýsingar og leiðréttingar eru vel þegnar í athugasemdum. 

 


Heimskreppan síst á undanhaldi.

Þrátt fyrir lítilsháttar flugeldasýningu kringum ákvörðun ESB; að Evrópski seðlabankinn kaupi skuldabréf kreppuríkja eru lítil efni til að fagna í álfunni. Kvaðirnar sem fylgja þessum stuðningi eru líklegar til að kollvarpa þeim ríkisstjórnum sem þyggja hann. Á ráðamönnum Spánar og Ítalíu má skilja að þá langi ekki baun. Upplausnin á evrusvæðinu er því óbreytt og engin vandamál hafa enn verið leyst.

Ein og sér væru vandræði Evrópu nægilega erfitt viðfangsefni, en það eru fleiri blikur á lofti. Rafmagnsnotkun, tölur um lestarferðir, kolanotkun, og ýmislegt fleira bendir sterklega til þess að enginn hagvöxtur sé lengur í Kína -þvert á opinberar tölur- og að fyrirsjáanleg brotlending Kínverska hagkerfisins sé á þegar hafin. Hvernig spilast úr því er engin leið að spá fyrir um en ljóst að þar í landi fjarar vindurinn úr massívri eignabólu með tilheyrandi skemmtilegheitum og áhrifum á bankakerfið.

Samdráttur í Kína eru að sjálfsögðu vondar fréttir fyrir öll önnur hagkerfi, jafnvel sterk hagkerfi á borð við Ástralíu sem selja gríðarlegt magn hráefna til landins.

Í bandaríkjunum er stefna síðustu áratuga komin að leiðarlokum. Ekki er lengur unnt að kynda upp hagvöxt með vaxtalækkunum. Ástæðan er einföld: ofurskuldsettur almenningur getur ekki lengur tekið lán fyrir neyslunni sem á að skapa hagvöxtinn. Í ræðu sinni á flokksþingi Demókrata bað Clinton fólk um að veita Obama annað tækifæri og sagði að hann hefði lagt grunninn undir efnahagsbatann sem væri byrjaður þó að fólk finndi það ekki. Sjálfur sagði Obama svipaða hluti en hann tók líka skýrt fram að breytinga væri þörf og að gamli tíminn kæmi ekki aftur. Fjármálaskríbentar hafa lengi bent á að tölur um verðbólgu í BNA séu orðnar ómarktækar vegna nýlegra aðferða við verðbólgumælingar. Ef verðbólgan þar væri rétt mæld, eins og t.d með aðferðum sem notaðar voru fyrir nokkrum árum; þá kæmi í ljós að það er alls enginn hagvöxtur í landinu.

Þessi þrjú hagsvæði glíma því öll við svipað vandamál - sem er skuldakreppa. Ofan í kaupið sitja þau uppi með bankakerfi sem er samofið í gegnum afleiðusamninga sem tryggir dómínóhrun um víða veröld falli meðalstór banki. Sem kunnugt er þá eru engar skammtímaleiðir út úr þessu ástandi. Ég velti því jafnvel fyrir mér hvort að einhverjar leiðir séu yfirleitt færar - aðrar en að bíða eftir hruni og taka til við uppbyggingu að því loknu.


Ekki rétt með farið

Ef minnið svíkur mig ekki keppti Helgi Jónsson á David Brown, myndin sem fylgir fréttinni er ekki af þeim félögum heldur af Nonna, sem ekur hraðasta Ferguson 35 vestan Færeyja.
mbl.is Heimsmeistarinn vann á David Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef norðmenn tækju upp íslensku krónuna

Nú eru uppi hugmyndir um að taka upp Kanadadollar og að sögn sendiherra Kanada hefur seðlabanki Kanada tekið jákvætt í málið. Í athugasemdahölum við fréttir af þessu er velt upp þeirri spurningu af hverju Kanadamenn ættu að vera að "splæsa fjármunum" í íslendinga?

Spurningin er; væru þeir að splæsa fjármunum ef þeir samþykktu upptöku íslendinga á sínum dollar?

Hugsum okkur að Norðmenn tækju upp íslensku krónuna. Íslenski Seðlabankinn mundi prenta seðla og mynt í stórum stíl sem þyrfti til að skipta út norskri mynt og seðlum sem yrðu brennd í kjölfarið. Í norska fjármálakerfinu yrði síðan öllum stærðum í norskum krónum breytt yfir í íslenskar krónur rafrænt. Lán til norska bankakerfisins yrðu síðan framleidd með tölvufærslum í íslenska seðlabankanum.

Spurningin er; Værum við að splæsa einhverju á Norðmenn með þessum aðgerðum?

Ég held að svarið sé nei, þvert á móti værum við að hagnast á því að útvíkka krónusvæðið og margfalda það að stærð án þess að það kostaði okkur nokkurn skapaðan hlut. Ótal greinar hafa verið skrifaðar um ávinning Bandaríkjanna af því að gefa út sparnaðarmynt (reserve currency) heimsins. Bandarískur hagfræðingur sagði eitthvað á þá leið við erlendan kollega: Ykkar skuldir, ykkar vandamál -- okkar skuldir ykkar vandamál! Þar vísaði hann í þau áhrif sem verða þegar Bandaríkin prenta dollar og þynna út verðgildi hans og um leið eigin erlendar skuldir. Áhrifin af upptöku Norðmanna á íslensku krónunni yrðu líklega svipuð.

E.t.v. skýrir þetta hversvegna forsvarsmönnum kanadíska seðlabankans er ekki á móti skapi að ræða upptöku íslendinga á þeim gjaldmiðli sem hann framleiðir?

Rétt er að taka fram að með þessari vangaveltu er ég ekki að mæla með upptöku Kandadollars.


Argentína hefur neyðst til að stóla á innlenda fjármögnun!

Niðurlag fréttarinnar segir:

En argentínska leiðin hefur þó sína galla. Þannig hafa opinber útgjöld aukist um 35% ári og í ár var verðbólgan í landinu á bilinu 25-30%. Argentína hefur einnig verið hrakið af alþjóðamörkuðum og neyðst til þess að stóla á innlenda fjármögnun frá t.d. lífeyrissjóðum og seðlabanka landsins.

Þegar litið er yfir ástandið í fjármálakerfi heimsins þessa dagana hvar alþjóðleg bankakreppa ríður húsum og fjöldi ríkja er gjaldþrota gagnvart útlöndum þá veltir maður fyrir sér hversu mikil neyð þetta er fyrir Argentínu til lengri tíma. Eða svo að maður líti sér nær og skoði þær hrikalegu vaxtagreiðslur sem Ísland þarf að reiða af hendi í skiptum fyrir útflutning á vörum og þjónustu um þessar mundir eftir gengdarlaust erlent lánasukk.  Það skyldi þó ekki vera að þetta væri einmitt aðferðin til að reka samfélag?

Sagan af Commonwealth bankanum í Ástralíu sem var gagngert stofnaður til að sporna gegn erlendri lánsþurrð sýnir að hægt er að fara aðrar leiðir. Hér er hún á Íslensku.

 


mbl.is Argentína vinnur sig út úr kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilsuferðir fyrir auðtrúa Bandaríkjamenn?

Það er ansi sérstakt að sjá íslensk stjórnvöld veita þessu framtaki "hvatningarverðlaun í heilsuferðaþjónustu". Við lestur þessarar stuttu fréttaklausu vaknar spurningin; hvað er heilsuferðaþjónusta, eða hvaða merkingu leggja stjórnvöld í hugtakið?

Fram kemur í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu að verkefnið „Heilsa og trú“ felist í að bjóða heilsuferðir fyrir trúaða Bandaríkjamenn þar sem hver hluti verkefnisins sé nátengdur heilbrigði og trú með sterkri tilvísun í íslenska náttúru og menningu. Um sé að ræða 14 daga hreinsandi meðferð, kennslu á andlega sviðinu og leiðtogaþjálfun samhliða föstu.

Án þess að vita hvað felst raunverulega bak við þessa skrautlegu frasasúpu - sem gæti sem best verið samsoðin á markaðskontór -  þá þykir mér ólíkegt að nokkur eining sé meðal heilbrigðisstétta um gagnsemi þessarar meðferðar og réttmæti eða siðferði þess að tengja hana heilsu yfirleitt. 

Sé það hugmyndin að byggja hér upp trúverðuga heilsutengda ferðaþjónustu þá hlýtur að þurfa að velta því fyrir sér hvaða kröfur skal gera til hennar þannig að hún rísi undir nafni. 

Nú er það hugsanleg, þó að mér sé ekki kunnugt um það, að heilsuþarfir trúaðra Bandaríkjamanna séu með öðru sniði en okkar hinna en við lestur fréttarinnar sýnist mér markaðshjalið fremur beinast að auðtrúa Bandaríkjamönnum en trúuðum. Kannski er það gott og blessað - en vinsamlegast ekki gera það undir gæðastimpli Íslenskra stjórnvalda í tengslum við heilsutengda ferðaþjónustu. 

 


mbl.is Heilsa og trú fékk hvatningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bestu þakkir til starfsólks deilar 13E á Landspítalanum.

Fyrir rúmri viku var ég fluttur láréttur inn á Meltingar- og nýrnadeild 13E á Landspítalanum. Eins og gefur að skilja kom þetta ekki til af góðu einu heldur höfðu nýrun tekið sér ótímabært frí og ástandið var hreint ekki gott.

Á öðrum degi var ég sendur í aðgerð sem skilaði bráðum og góðum bata og í morgun brokkaði ég síðan lóðréttur út af deildinni við góða heilsu. Framundan er lyfjameðferð og ég er bjartsýnn á að ég fái fulla bót meina minna.

Nú er það almennt þannig að sjúkrahúslega er ekki ofarlega á óskalistanum hjá fólki og það er virkilega góð tilfinning að útskrifast út af spítala. Í mínu tilviki er það vitnisburður um þá frábæru þjónustu sem ég fékk á 13E að það var ekki laust við að ég finndi til söknuðar þegar ég kvaddi.

Eftir að hafa fylgst með starfinu á þessari annasömu deild í vikutíma og séð alla þá fagmennsku og alúð sem sjúklingar njóta í sínum uppákomum fyllist maður þakklæti og virðingu.

Bestu þakkir fyrir mig og kærar kveðjur á 13E.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sitt lítið af hverju

Höfundur

Ólafur Eiríksson
Ólafur Eiríksson
Óbreyttur
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • hjólhýsi
  • ...dsc00019
  • ...dild_888966
  • ...thusundkall
  • ...slit_877880

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 38905

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband